Það hefur mikið verið rætt um færni og þekkingu á atvinnumarkaði og hversu mikilvægt það er að fólk uppfæri þekkingu sýna t.d. með því að fara á námskeið, bæti við sig námi eða nái sér í annars konar þekkingu á netinu.
Eitthvað hefur bólað á ótta við að sjálfvirkni, gervigreind og/eða vélmenni (róbótar) muni taka yfir störf og þá sérstaklega þau störf sem felast í einhvers konar endurtekningu. Til þess að meta líkur á að starfsstéttir muni "lifa af" gervigreind og róbóta hefur t.d. verið búin til eftirfarandi vefsíða til að fólk geti metið hvar það stendur, enda eru líklega margir að velta fyrir sér hver framtíð starfa þeirra verði á tímum fjórðu iðnbyltingarinnar. Vefsíðan er sett fram til gamans, en hér gildir alveg gamla góða máltækið: Öllu gríni fylgir nokkur alvara.
Góðu fréttirnar eru þessar. World Economic Forum spáir, þvert á það sem fólk heldur, að mun fleiri ný störf skapast en tapast. Þau spá því að það muni verða fjölgun um 58 milljón störf vegna sjálfvirkni og byggja þá spá meðal annars á því sem hefur gerst í fyrri iðnbyltingum. Þau vilja meina að þessi nýju störf séu blanda af störfum sem krefjast meiri menntunar (2/3 hluti) og þeirra sem krefjast minni menntunar (1/3 hluti).
Þessi nýju störf munu mörg hver kalla á ýmsa nýja færni. Skapandi hugsun, tilfinningagreind, færni til að leysa flókin vandamál, gagnrýna hugsun, hönnun, forritun, leiðtogahæfni og margt fleira verið nefnt sem færni sem fólk ætti að tileinka sér til að eiga séns á að eiga farsæla framtíð á atvinnumarkaði. En þetta er langt frá því að vera tæmandi listi.
Ljóst er að við lifum á tímum mikilla tæknibreytinga og mörg störf munu breytast töluvert á næsta áratug. Þess vegna þurfum við að hafa eftirfarandi í huga.
- Allir á atvinnumarkaði þurfa að sinna sí- og endurmenntun sem aldrei fyrr.
- Menntastofnanir þurfa að aðlaga sig breyttum þörfum á atvinnumarkaði.
- Stjórnendur ættu að hvetja starfsfólk sitt til að ná sér í aukna menntun eða færni, sérstaklega það starfsfólk sem vitað er að muni innan fárra ára „fasast út" vegna tæknilegra breytinga.
Höfundur er í vísinda- og tækniráði.