Í þessari grein ætla ég að ræða muninn á dánaraðstoð annars vegar og sjálfsvígi hins vegar. Tilefni greinarinnar er m.a. umræða yfirlæknis líknardeildar LSH, Valgerðar Sigurðardóttur, sem sagði í viðtali sl. vor að fólk gæti bara tekið eigið líf frekar en að biðja um dánaraðstoð.
Ólíkar athafnir
Iðulega er gerður greinarmunur á dánaraðstoð, sem felst í því að læknir sprautar sjúkling með lyfi til að binda endi á líf hans, og læknisaðstoð við sjálfsvíg (e. Physician-Assisted Suicide eða PAS), sem felst í aðstoð læknis við að útvega efni sem sjúklingur innbyrðir sjálfur í þeim tilgangi að binda endi á eigið líf. Ég legg til að við notum framvegis hugtakið „læknisfræðileg aðstoð við að deyja“ um síðarnefndu leiðina, sem á ensku hefur fengið heitið Medical Assistance in Dying eða MAID þar sem hugtakið „læknisaðstoð við sjálfsvíg“ er ónákvæmt, óviðeigandi og hlutdrægt.
Beiðni um að flýta fyrir andláti vegna lífsógnandi sjúkdóms eða óbærilegra þjáninga er á engan hátt hægt að jafna við sjálfsvíg sem er alltaf harmsaga og áfall. Meginmarkmið sjúklings sem biður um dánaraðstoð er að stytta kvöl síðustu stunda og finna persónulega reisn í yfirvofandi brottför úr þessum heimi. Er sanngjarnt eða rétt að nota orðið sjálfsvíg þegar sárkvalinn 76 ára einstaklingur með ólæknandi briskrabbamein vill stytta líf sitt um nokkrar vikur? Um er að ræða mjög ólíkar athafnir, bæði siðferðilega og tilfinningalega. Munurinn er m.a. eftirfarandi:
- Þegar um er að ræða sjálfsvíg er bundið endi á líf sem hefði getað haldið áfram. Læknisfræðileg aðstoð við að deyja snýst aftur á móti um að flýta fyrirsjáanlegu andláti og binda endi á þjáningar sjúklings í samræmi við sjálfviljuga og vel ígrundaða ósk hans um að fá að deyja með sæmd.
- Sjúklingur með ólæknandi sjúkdóm vill ekki endilega deyja, hann treystir sér einfaldlega ekki til að lifa áfram vegna óbærilegra þjáninga eða skertra lífsgæða. Sjálfsvíg á hinn bóginn stafar yfirleitt af sálrænum sársauka og örvæntingu; manneskjan nær ekki að njóta lífsins eða getur ekki séð að hlutirnir geti breyst til hins betra í framtíðinni.
- Þegar um læknisfræðilega aðstoð við að deyja er að ræða upplifir sjúklingurinn oft dýpri merkingu og að tilfinningaleg tengsl við ástvini eflist. Í tilfelli sjálfsvíga þjáist einstaklingurinn og upplifir einangrun, einmanaleika og merkingartap.
- Framkvæmd sjálfsvíga er oft mjög sorgleg og sársaukafull en þegar læknir aðstoðar sjúkling við að deyja eru notuð viðeigandi lyf sem valda því að sjúklingurinn deyr friðsælum dauða.
- Andlát vegna sjálfsvíga leggja oft byrði á syrgjandi aðstandendur sem geta upplifað höfnun, reiði, sektarkennd og skömm. Ótímabært andlát kallar á alls kyns erfiðar spurningar sem oft er ekki hægt að fá svör við. Þegar læknisfræðileg aðstoð við að deyja hefur verið heimiluð rýmist hún hins vegar innan ramma heilbrigðiskerfinsins og samfélagsins án þess að vera fordæmd.
- Ólíkt flestum sjálfsvígstilfellum deyr sá sem fær aðstoð við að deyja ekki einmana heldur í faðmi fjölskyldu og vina, á þann hátt sem hann vill og í því umhverfi sem hann vill. Það heyrir til mikilla undantekninga að fólk velji að binda endi á eigið líf með aðstoð læknis án vitundar ættingja. Flestir, ef ekki allir, eiga opinskátt samtal við nánustu aðstandendur um ósk sína. Þeir læknar sem veita dánaraðstoð leggja einnig mikla áhersla á sátt aðstandenda og ræða ítrekað við þá í ferlinu.
- Ólíkt mörgum sjálfsvígstilfellum er aldrei um skyndiákvörðun val að ræða þegar sjúklingur fær læknisfræðilega aðstoð við að deyja. Í Belgíu þarf sjúklingur sem dæmi að bíða í mánuð frá því að beiðni um aðstoð við að deyja er lögð fram. Einstaklingur sem biður um dánaraðstoð ræðir slíkt við lækninn sinn í fleiru en einu samtali og getur hvenær sem í ferlinu hætt við.
Dánaraðstoð veldur vægari sorgareinkennum og minni áfallastreitu
Rannsóknir frá bæði Hollandi og Oregon hafa leitt í ljós að nánustu aðstandendur krabbameinssjúkra sem fengu dánaraðstoð upplifðu vægari sorgareinkenni og minni áfallastreitu. Það var þeim huggun í harmi að ástvinur þeirra skuli hafa fengið að stjórna ferðinni og deyja á þann hátt sem hann vildi. Þeir töldu mikilvægan þátt í sorgarferlinu að hafa fengið tækifæri til að vera viðstaddir á dánarstundu og kveðja ástvininn. Þeir sögðu að ferlið hefði verið þroskandi og upplifðu þakklæti. Sumir töldu að það að hafa geta rætt á opinskáan hátt um dauðann við ástvininn hefði auðveldað þeim að horfast í augu við og sættast við yfirvofandi andlát hans. Aðrir nefndu þakklæti fyrir að hafa fengið tækifæri til að gera upp ágreining eða rifja upp dýrmætar minningar.
Þegar þjáningin ein er eftir
Dánaraðstoð og sjálfsvíg eru ólík fyrirbæri, bæði hugfræðilega, læknisfræðilega, siðferðilega og löglega. Flestir þeirra sem fá dánaraðstoð eru langt leiddir af ólæknandi sjúkdómum og hafa upplifað það versta sem lífið hefur upp á að bjóða. Dánaraðstoð gefur þeim tækifæri til að endurheimta mannlega sæmd og binda endi á tilgangslausar þjáningar. Því þegar lækning er ekki handan við hornið og þjáningin ein eftir er dánaraðstoð ekki aðeins mannúðleg heldur siðferðilega réttlætanleg leið. Þetta snýst um að hafa val.
Höfundur er formaður Lífsvirðingar, félags um dánaraðstoð.