Nýliðið ár kveður með eftirbragði af margþættum samfélagsvanda, veðuröfgum, ófriði og mannvonsku víða um heim en samtímis með fyrirheit um bjartari tíma, ýmist hér á landi eða í útlöndum. Mat manna er jafnan persónulegt í þessum efnum. Ég vel að minnast á fjóra málaflokka sem allir varða náttúru okkar og annað umhverfi – og þar með samfélögin á heimaplánetunni.
Loks er að komast meiri hreyfing á friðun hafsvæða. Mörg, og flest fremur lítil, hafsvæði heims hafa verið friðuð með öllu eða fyrir ákveðinni tegund nýtingar, vafalaust með árangri. Hitt er jafn augljóst að höfin hafa verið ruslakista um aldir, jafnvel undir mjög hættuleg efni, skipsskaðar og styrjaldir hafa falið mengandi fleytur og flugvélar fyrir augum okkar og sum veiðarfæri eða námuvinnsla hafa verið skaðleg botnlögum og lífríki sjávar.
Loftslags- og umhverfisbreytingar í hafi eru, og verða, okkur erfiðar. Sjávarnytjar í heimshöfunum hafa náð mögulegu hámarki hvað fiskveiðar varðar. Takist að hlífa 30% hafsvæða fyrir ýmis konar ágangi verður það til góðs og ýtir undir sjálfbærar veiðar og aðrar sjávarnytjar á heimsvísu, m.a. strandveiðar smærri útgerða. Hér við land eru sjávarfriðanir stutt á veg komnar. Verndun um helmings Breiðafjarðar með sérlögum 1995 er mikilvægt skref. Þar eru einnig sérstök friðlýst svæði og eyjar. Útgerðum gert að hlífa kóralsvæðum við Ísland og minnir það á að takmarka ætti sem mest tog- og dragnótaveiðar milli 4 og 12 sjómílur frá landi.
Nú er lag til að hefja undirbúning að víðtækri friðunaráætlun við landið, byggðri á vísindum og jafnvægi á milli nytja og verndunar. Margir hagaðilar koma að verkefninu og vinnuna ber að hefja á þessu ári.
Gera má ráð fyrir að náttúruvá á Íslandi harðni á næstu árum og áratugum. Á það t.d. við um hættur af völdum eldgosa og loftslagsbreytinga. Af því leiðir að meta þarf og efla vöktun og hættumat enn frekar og styrkja viðbrögð við atburðum sem ógna fólki, innviðum, atvinnuvegum, búsetu o.s.frv. Verkefnin varða opinberar stofnanir/fyrirtæki, ráðuneyti, sveitarfélög, viðbragðsaðila og Almannavarnir. Á vorþingi 2021 var samþykkt þingsályktunartillaga umhverfis- og samgöngunefndar um að fram fari ítarleg vinna í þessu skyni. Starfshópur hefur unnið að átta verkefnaliðum sem þingsályktunin setur fram. Þeir snerust m.a. um greiningu á skipulagi og samvinnu stofnana, fjárþörf til rannsókna og styrkingar hættumats, frekari kortlagningu hættusvæða, tækniframfarir og mat á þörf á viðbragðssjóði náttúruvár sem styrkja myndi rannsóknir og vísindaleg viðbrögð. Ályktunin gerir einnig ráð fyrir samræmingu og forgangsröðun vinnu við náttúruvárverkefni, að auka samvinnu aðila og leggja fram kostnaðargreinda verkefnaáætlun um sem styrkust viðbrögð við ólíkum atburðum. Loks var lögð áhersla á að efla náttúrulæsi almennings og þekkingu á náttúruvá og nýta ávallt nýjustu tækni við almenna upplýsingagjöf þegar tilefni er til.
Starfshópurinn lauk störfum á nýliðnu ári og vinna er hafin samkvæmt niðurstöðum hans. Því ber að fagna og nú þarf að útskýra vel hvað er fyrir stafni í þessum efnum.
Orkuskipti
Enn er svo komð að árangur í orkuskiptum er fyrst og fremst hægt að meta af fólksbílaflota landsmanna. Engu að síður fjölgar sendibílum, stórum vinnubílum/fólksflutningabílum og stöku vinnutækjum sem nýta vistvæna orkugjafa. Það gerist hægt í fyrstu en svo hraðar með hverju ári. Bátar og skip, ásamt flugvélum, taka stakkaskiptum mun hægar en véltæki á landi enda ólíku saman að jafna. Tæknin er víða enn á reynslustigi erlendis. Vel er fylgst hérlendis með þeirri þróun. Samstarf hagaðila innbyrðis og við hið opinbera, raungerist í samtökum á borð við Samorku (orkufyrirtækin), Íslenska nýorku (rannsóknir og ráðgjöf), Grænu orkuna, (samtök hagaðila, félaga, háskóla, ríkisstofnana/fyrirtækja og ráðuneyta ofl. um orkuskipti) og Grænvang (fjöldi fyrirtækja). Umræðu- og fræðslufundir, ráðstefnur, skýrslur, stefnumótun, upplýsingaöflun og - miðlun er meðal þess sem í samstarfinu felst.
Allt herðir þetta á orkuskiptunum en mestu varða þó fjárfestingar, skýr stefnumið og aðgerðir stjórnvalda í því augnamiði að hraða og efla orkuskiptin. Ég hef talað fyrir sérstöku Orkuskiptaráði og orkuskiptaáætlun samfélagsins, líkt og er fyrir hendi í loftslagsmálunum og minni á þá hugmynd hér. Ná þarf samkomulagi um hlutföll orkuvera sem nýta vatnsafl, varma og vind og forgangsraða vinnslunni til orkuskipta og grænnar framleiðslu. Koma verður böndum á vindorkukapphlaupið og tryggja heildrænt samfélagslegt orkukerfi þar sem auðlindanýting til raforku og heits vatns er í jafnvægi við náttúruvernd.
Þolmörk í ferðaþjónustu er hugtak sem er beintengt stefnuyfirlýsingunni um sjálfbæra ferðaþjónustu. Atvinnuvegur er ekki sjálfbær fyrr en mat á þremur þáttum hennar (samfélagsáhrifum, efnahagsmálum og umhverfisáhrifum) leiðir í ljós að reksturinn í heild og áhrif hans eru með ábyrgum og viðhlítandi hætti (til tiltekinna ára). Fram að því er unnið að umbótum, sem oftast þurfa sérfræðistoð. Ákveðin eru þolmörk fyrir staði, stærri landsvæði eða héruð og þannig búin til mynd af því hverju samfélagið getur sinnt með reisn í ferðaþjónustunni innan ramma sem rúmar aðra atvinnuvegi og ofgerir hvorki samfélaginu í heild né náttúrunni. Enn er látið liggja að því að vöxtur ferðaþjónustu geti verið takmarkalítill. Enn sjást tölur um æskilegar 3 til 8 milljónir gesta á ári. Umræða um þolmörk, hvað þá sjálf vinnan að mörkun þeirra, er allt of seinfær og ómarkviss.
Fyrsta vandaða þolmarkagreining á ferðmannastað var unnin fyrir Þjóðgarðinn á Þingvöllum vegna Silfru og ætluð þolmörk (árangur metinn og mörk endurskoðuð) nýtt til skipulagningar þeirrar þjónustu og afþreyingar sem þar fer fram. Hún er dæmi um hvað unnt er að gera, og þarf að gera, hvort sem er fyrir allan þjóðgarðinn, aðra staði og samfélög eða stærri landsvæði víða um land. Sjálfbær ferðaþjónusta verður ekki til með sjálfvirkum hætti.
Höfundur er jarðvísindamaður og fyrrum þingmaður VG.