Það er allt að verða brjálað vegna náttúrupassans og margir finna þessari hugmynd allt til foráttu og segja að allar aðrar hugmyndir séu betri. Þar eru helst nefnd til sögunnar komugjöld eða gistináttaskattur, og aðrir eru á því að fjármálaráðherra eigi einfaldlega að forgangsraða betur þeim tekjum sem greinin skilar í ríkiskassann í þágu náttúrunnar.
Ívar Ingimarsson.
Hagsmunaaðilar rífast og skammast og Íslendingar berja sér á brjóst og segja að þeir muni aldrei borga fyrir aðgengi að landinu sínu. Fyrr muni frjósa í helvíti og þeir láti frekar loka sig inni en að greiða 500 krónur á ári næstu þrjú árin til að vernda landið sem þeim er svo annt um.
Þetta er svolítið umræðan.
Ég er einn þeirra sem er á því að komugjöld væru auðveldasti og ódýrasti kosturinn til að ná í pening, ef það á að velja nýja leið til þess. Eðlilegast þætti mér samt að ríkið myndi standa straum af þessari uppbyggingu og þeir miklu fjármunir sem ferðaþjónustan og íslensk náttúra skila inn í samfélagið yrðu notaðir í að passa upp á náttúruna.
En allt af þessu virðist vera ómögulegt, óframkvæmanlegt eða ekki vilji til að gera.
Það er víst lögfræðilega ómögulegt að setja á komugjöld vegna mismununar. Það gjald mun einnig þurfa að leggja á innanlandsflug sem má nú varla við hækkun frá því sem nú er, en fyrir þá sem ekki þekkja til er almennt flugfargjald milli Egilsstaða og Reykjavíkur 47.000 krónur og það er ekki þannig í dag að fólk beinlínis stökkvi til og skjótist suður með flugi til að fara í Hörpuna okkar til að sjá Bubba og Bó spila.
Ég er allavega tilbúinn til að gefa náttúrupassanum séns verði sú leið ofan á.
Bjarni (fjármálaráðherrann okkar) þarf að forgangsraða peningunum sem til eru í ríkiskassanum og þegar hann stendur frammi fyrir því að byggja nýja legudeild á Landspítalanum eða setja pening í stígagerð, þá liggur ljóst fyrir að hann treystir sér ekki til að leggja peninga í stíga þó svo að ferðaþjónustan eigi skilið miklu stærri sneið af því opinbera fé sem varið er til atvinnuveganna. Honum til varnar þá á þetta sennilega við um flesta sem standa frammi fyrir þessari ákvörðun.
Af hverju ekki gistináttaskattur?
En gistináttaskattur, af hverju ekki gistináttaskattur? Af hverju eiga hótel, gistihús og tjaldstæði ein að sjá um að rukka inn skatt til að vernda náttúruna? Hvað með rútufyrirtækin? Ferðaskrifstofurnar? Flugfélögin? Og já alla Íslendinga sem hafa notið þess vaxtar sem ferðaþjónustan og íslensk náttúra hefur fært þeim frá hruni? Pínu ósanngjarnt er það ekki? Mér finnst það allavega sem gistihúsaeiganda.
Náttúrupassinn mun ekki verða fullkominn, en ég held að hann sé ekki eins ómögulegur og margir vilja meina. Þetta er leið sem hægt er að koma á tiltölulega fljótt og svo mun tíminn leiða í ljós hvort hann virkar eða ekki. Hverning passanum mun ganga fer svo algjörlega eftir því hverning við tökum honum og hvernig við tölum um hann.
Það þarf að tala um passa sem verndar íslenska náttúru. Það verður að höfða til þeirra útlendinga sem hingað koma um að þeir séu náttúruverndasinnar með því að kaupa passann, með því tryggi þeir að sú fegurð sem þeir njóta hér verði áfram til staðar. Þá séu þeir einnig að kaupa sér ákveðna tryggingu, því Landsbjörg mun fá ákveðna prósentu af innkomu passans.
Það mun ekki verða til nein alvöru ferðaþjónusta allt árið um kring um allt Ísland án aðkomu björgunarsveitanna, en það er sjálfsagt einstakt í heiminum hverning þau samtök starfa og eru byggð upp af sjálfboðaliðum. Passinn er leið til að veita þeim aukið fjármagn til að sinna þessu aukna hlutverki.
Ég er allavega tilbúinn til að gefa náttúrupassanum séns verði sú leið ofan á. Því það versta sem gæti gerst er ef við gerðum ekki neitt.
Ég er tilbúinn að borga 500 krónur á ári í þrjú ár, ekki til að fá aðgengi að landinu mínu heldur til að vernda það. Íslensk náttúra er Ísland, það er hún sem gerir okkur að Íslendingum. Það er hún sem gerir íslenskt eftirsóknarvert, það er hún sem selur og býr til störf í sjávarútvegi, landbúnaði, áliðnaði og ferðaþjónustu. Hún á það skilið að við lítum eftir henni og mér finnst hún vera fimmtán hundruð króna virði.
Höfundur er gistihúsaeigandi og fyrrverandi landsliðsmaður í knattspyrnu.