Umræðan um náttúrupassafrumvarpið og náttúrupassann hefur verið fyrirferðamikil í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum undanfarið. Flestir virðast nokkuð sammála um nauðsyn þess að bregðast við auknu álagi á ferðamannastaði og náttúru landsins. Sömuleiðis eru flestir sammála um að afla þarf tekna og veita fé til þessa málaflokks. En þegar kemur að leiðum og úrræðum sýnist sitt hverjum sem eðlilegt er. Margir hafa bent á að allir aðrir kostir en náttúrupassinn væri betri. Ekki hefur þó enn takist að sýna fram á að einhver annar valkostur en náttúrupassinn sé betri þegar allt er vegið og metið. Í raun má taka mikið af rökum gegn náttúrupassanum og snúa þeim upp á flesta hina valkostina enda engin leiðin gallalaus frekar en náttúrupassinn. Mikilvægast er að bregðast við hér og nú því málið þolir ekki frekari bið.
Það verður ekki bæði sleppt og haldið
Þetta er fyrst og fremst spurningin um hver á að borga. Viljum við ein greiða fyrir uppbyggingu innviðanna og þjónustuna með sköttum okkar eða viljum við að þungi kostnaðarins lendi á ferðamönnunum. Ef við viljum ekki ómaka gesti okkar með smágjaldi til verndar náttúrunni og uppbyggingu ferðamannastaða og svæða þurfum við að ákveða hvaðan peningarnir eiga að koma. Líklegast vilja hvorki almenningur í landinu né stjórnvöld hækka skatta til að standa straum af þessu. Þá blasir við að skera þarf niður í samneyslunni. Hvar á þá helst að skera niður; heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu, vegamálum, byggðamálum eða landbúnaði. Þessu er líklegast auðsvarað: Náttúrupassinn er gegnsæ, sanngjörn og hóflega verðlögð leið til að leysa þessi verkefni.
Hvað hefur náttúrupassinn fram yfir aðrar leiðir?
Náttúrupassinn eykur vitund þeirra er taka þátt í honum um náttúruvernd. Vegna þess að hann er sýnilegur ferðamönnum sem upplifa hann sem öflugt verkfæri og öryggisnet fyrir náttúru- og menningarminjar jafnframt því að stuðla að eðlilegri nýtingu samhliða verndun. Þannig getur hann opnað lokuð svæði með bættri aðkomu og aðstöðu og unnið gegn hnignun staða með réttum en oft kostnaðarsömum fyrirbyggjandi aðgerðum.
Hvað annað mælir sérstaklega með náttúrupassanum?
Náttúrupassinn sem seldur er á netinu getur boðið upp á verðmætt samband við ferðamanninn og myndar öflugan gagnabanka um þá sem heimsækja landið.
Náttúrupassinn á netinu getur boðið upp á viðbótarþjónustu, upplýsingar og auka tekjumöguleika fyrir tengda hagsmunaaðila s.s. náttúruverndarsamtök hverskonar, útivistarfélög, félög um sérstök náttúru- eða ferðatengd verkefni.
Þá mætti vel hugsa sér einhverja menningarlega eða afþreyingartengda viðbótarþjónustu selda með náttúrupassanum. Þannig gætu fyrirtæki í ferðaþjónustu etv. keypt sér línu í e.k. vörulista þar sem fyrirtæki geta falboðið þjónustu sína.
Náttúrupassinn sem seldur er á netinu eða í sjálfsölum hverfur ekki inn í og hækkar verð á flugi eða gistingu. En sýnt hefur verið fram á að þessir tveir þættir hafa mikil áhrif á verðteygni þ.e. jafnvel lítillega hækkað verð á flugi og gistingu getur haft mikil áhrif á val á ákvörðunarstað og þar með gert Ísland minna eftirsótt.
Frjáls för manna um land
Náttúrpassinn hefur engin heftandi áhrif á lög og hefðir um frjálsa för manna um land. Þvert á móti má sjá fyrir sér að áður lokuð svæði opnist vegna stuðnings frá náttúrupassasjóði. Þetta gætu verið viðkvæm svæði - í eigu einstaklinga, sveitafélaga eða ríkis - þar sem hefur vantað aðstöðu og vegna lítilla eða engra fjárhagslegra- eða annarra hagsmuna og ekki þótt verjandi að opna aðgang að eða ekki verið áhugi fyrir heimsóknum ferðamanna. Ekki þyrftir að vera neitt feimnismál að einhverjir starfsmenn eða eftirlitsmenn væru á vegum náttúrupassans. Hóflegur sýnileiki eftirlitsmanna væri af hinu góða og í samræmi við markmið verkefnisins sem er að vernda Íslenska náttúru á sama tíma og aðgangur og öryggi ferðamanna er tryggt.
Eftirlitsmenn með passanum væri í raun óþarfir ef náttúrupassinn yrði meðhöndlaður líkt og ESTA gjaldið í BNA. Engum dettur í hug að birtast í tollhliði í BNA án þess að hafa gengið frá ESTA gjaldinu á netinu. Þá þekki ég engan sem hætt hefur við ferð til BNA vegna ESTA gjaldsins. Eftir að hafa gengið í gegnum landamærin inn í BNA spyr engin um ESTA staðfestinguna enda búið að framvísa henni við landamærin. Þetta gæti auðveldlega verið með áþekku sniði hér heima. Til að gera tilgang passans áþreyfanlegri fyrir þá er ekki sjá gagnsemi uppbyggingar og verndunar á ferðamannastöðum má t.d. láta hann virka sem lykil að salernisaðstöðu ferðamanna með einföldum strikamerkjalesara.
Aðgangsgjald - góngjald - aðstöðugjald
Náttúrupassinn er ekki góngjald. Ekki er verið að rukka ferðamenn fyrir að skoða eitt eða neitt heldur er náttúrupassanum ætlað að standa straum af kostnaði sem af hlýst vegna umferðar ferðamanna um svokallaða ferðamannastaði og svæði. Þá er verið að tala um göngustíga, útsýnispalla, salerni, nestisaðstöðu, upplýsingabúnað og hvað annað er nauðsynlegt getur talist til að taka á móti ferðamönnum á öruggan og ánægjulegan hátt þannig að upplifun þeirra verði í samræmi við væntingar að minsta kosti og spilli ekki náttúrunni. Ef haft er í huga að fjöldi erlendra ferðamanna hefur þrefaldast á s.l. 10 árum og í raun farið langt fram úr björtustu vonum og spám um vöxt er vel skiljanlegt að innviðir anni ekki þessum aukna fjölda. Viðhalda þarf og bæta núverandi ferðamannastaði og finna þarf nýja spennandi og aðlaðandi viðkomustaði til að dreyfa þessum fjölda. Allt kostar þetta peninga. Bent hefur verið á að þetta eigi að vera innifalið í flugfargjaldi, gistingu, tekið af virðisaukaskatti eða einfaldlega greitt af ríkinu en þar með bæru Íslendingar þungan af kostnaðinum.
Aðrir kostir sem vissulega gætu fylgt öðrum útfærslum á náttúrupassahugmyndinni
Til að allrar sanngirni sé gætt má auðvitað segja að allt sem náttúrupassanum er ætlað að gera megi gera með öðrum leiðum. Það gerir þær þó ekkert endilega betri eða náttúrupassann verri. Mest er deilt um nafnið og aðferðina við að innheimta gjaldið en minna um það sem er aðalatriðið: Hvernig ætlum við að verja þessum fjámunum. Mikilvægasta nýjungin er án efa 100% fjármögnun framkvæmda fyrir þátttakendur í náttúrupassakerfinu. borin saman við núverandi kerfi sem byggir á mótframlagi sem er flestum ofviða enda oft litlir eða engir tekjumöguleikar á móti.
100% fjármögnunin gerir aðild að náttúrupassanum aðlaðandi fyrir jafnt einkaaðila sem sveitafélög og ríki. Gerir það að verkum að engir aðrir hagsmunir þurfa að hanga á spýtunni en getur þó fullkomlega gengið með fjölbreyttri þjónustu og verslun.
Hvað mælir gegn gistinátta- og fluggjaldaleiðinni?
Verð á flugi og gistingu hækkar augljóslega en án auðsýnilegrar ástæðu og hefur áhrif á ákvörðun þegar verð á flugi og gistingu eru borin saman milli áfangastaða.
Aðgerðin er ósýnileg. Ef við ætlum að verja miklum fjármunum til verndar náttúru- og menningarminjum viljum við að þeir sem greiða fyrir slíkt viti af því. Það gerir okkur heimsóknarvænni í augum margra þar sem við verndum okkar náttúru með hjálp gestanna okkar - allir eru þannig þátttakendur í uppbyggilegu og jákvæðu verkefni. Gleymum því ekki að u.þ.b. 80% ferðamanna segjast heimsækja Ísland vegna náttúrunnar.
Náttúrupassinn - Sýnilegt gjald fyrir sýnileg verkefni
Náttúrupassinn er raunverulegt, áþreifanlegt verkefni sem eðli síns vegna á að vera sýnilegt en ekki einhver lymskulega falinn skattur. Verkefni sem Íslendingar ættu stoltir að taka þátt í. Erlendir gestir okkar munu örugglega glaðir ganga til liðs við okkur til verndar náttúrunni og þeim menningarminjum sem þar kunna að leynast. Sameiginlega getum við öll gert Ísland að þeim stað sem við getum stolt tekið á móti gestum af þeirri gestrisni sem við viljum verða þekkt fyrir án þess að náttúran bíði óbætanlegan skaða af.
Höfundur er leiðsögumaður ferðamanna og á sæti í stjórn Félags leiðsögumanna.