Tilgangur náms í leikskóla er ekki sá að undirbúa sig fyrir grunnskóla.
Tilgangur náms í grunnskóla er ekki sá að undirbúa sig fyrir framhaldsskóla.
Tilgangur náms í framhaldsskóla er ekki sá að undirbúa sig fyrir háskóla.
Nemandi er í skóla, á hvaða skólastigi sem er, til að þroskast, nema, uppgötva, skapa og upplifa lífið á eigin forsendum með möguleika á leiðsögn og kennslu.
Í skóla á einstaklingur að fá tækifæri til að búa sig undir lífið, fá hjálp við að upplifa sína samtíð, fræðast um sína fortíð og búa sig undir sína framtíð.
Að læra að takast á við lífið.
Öll stig skólakerfisins hafa jafn mikilvægt hlutverk til þroska einstaklings og hvert skólastig kallar á sértæka sérfræðikunnáttu kennara. Á hverju skólastigi þurfa kennarar að búa að markvissri menntun, þekkingu og reynslu.
Til þess að hið margflókna skólastarf gangi upp þurfa kennarar að geta treyst á sjálfa sig, samvinnu vinnufélaga sinna og stuðning stjórnenda. Ekki síst þurfa þeir á því að halda að finna fyrir því að þeim sé, sem sérfræðingum í menntun, treyst fyrir verkefninu. Þeir þurfa að finna það að starf þeirra sé metið af verðleikum.
Þar liggur margdauður hundurinn grafinn!
Í hvert sinn er kjarasamningur grunnskólakennara og Sambands íslenskra sveitarfélaga er við það að renna út og ný samningalota er framundan hefjast sveitarfélögin handa við að lýsa yfir ómöguleika kauphækkana, gera opinberlega lítið úr vinnuframlagi viðsemjenda sinna auk þess, að sjálfsögðu, að mæta sanngjörnum launakröfum grunnskólakennara með hroka og þvergirðingshætti.
Grunnskólakennarar finna alls ekki fyrir því að starf þeirra sé metið af verðleikum.
Staða kjaramála grunnskólakennara er því sú, eftir að sveitarfélögin hafa um aldarfjórðungs skeið haft rekstur grunnskólanna á sinni könnu, að laun grunnskólakennara eru að meðaltali um 17% lægri en meðallaun á landinu. Og ef laun grunnskólakennara eru borin saman við laun viðmiðunarstétta, með sambærilega menntun og iðulega minni ábyrgð, er munurinn enn meiri, grunnskólakennurum í óhag.
Og hið sama má segja um kjör leikskólakennara.
Á sama tíma hafa framhaldsskólakennarar borið gæfu til að ná mun hagstæðari launakjörum í samningum við sinn viðsemjana, ríkið.
Er einhver rökrétt eða eðlileg ástæða fyrir því að starf framhaldsskólakennarans sé hærra metið til launa en starf grunnskólakennarans eða leikskólakennarans?
Er einhver rökrétt eða eðlileg ástæða fyrir því að sveitarfélögunum sé enn treyst fyrir rekstri grunnskólanna þegar í ljós hefur komið að þau hafa ekki vilja eða fjárhagslegt bolmagn til þess að reka grunnskólana með sómasamlegum hætti, - greiða starfsfólki sínu eðlileg laun miðað við menntun, vinnuframlag og ábyrgð, tryggja nauðsynlega stoðþjónustu innan skólanna og sjá til þess að kennsla fari fram í húsnæði sem ekki er hættulegt heilsu þeirra er þar nema og starfa?
Í aðdraganda sveitarstjórnakosninga væri ekki úr vegi að þeir sem sækjast eftir setu í stjórnum sveitarfélaga íhugi þessar spurningar.
Og reyni jafnvel að svara þeim!
Höfundur er grunnskólakennari.