Kæra lesönd, nú þegar ég hef tapað fimm kílóum í lokaprófum, grætt 8 yfir hátíðirnar og skotið sirka 20 flugeldum eftir sirka jafnmarga bjóra er kominn tími til þess að falla í móki djammviskubits fyrir eigin rithendi og segja frá því hvernig ég mun brjóta nýársheitin mín.
Til samanburðar gekk síðasta ár frekar vel. Ég útskrifaðist úr menntaskóla, fór í evrópureisu, háskóla og varð algjörlega gjaldþrota. Ég held að sterk byrjun á nýju ári sé því að manna mig upp, taka á honum stóra mínum, horfast í augu við vandamálið og taka námslán fyrir einum Tuborg Grön á stúdentakjallaranum sem kostar 650 kr., í takt við nýársheiti um aukið fjármálalæsi.
Á meðan ég sötra hann, sem stoltur stúdent í skuld, mun ég gera fasaskipta rammaáætlun um að minnka nautnalyfjaneyslu um 25% fyrir árið 2033, enda er núverandi neysla ósjálfbær og fram úr öllu hófi.
Síðan er það önnur neysla, til að mynda kjöt og fatakaup. Ég mun taka annað námslán fyrir einum litlum Hlöllabát og gosi á 1.150 kr. (stúdentatilboð) strax í veganúar, en ég ætlaði einmitt að taka þátt í ár! Bara að hugsa um það er mest gefandi lífsreynsla sem ég hef upplifað.
Ég iðrast Hlöllabátsins og ákveð að sýna iðrun í gjörðum. Með ásjónu þenkjandi manns, sposkur á svip, borða ég grænmetissvið. Nammi nammi namm. Ég elska öll dýr og skynlausar skepnur, líka leigusala!
Það fer líka alveg með mann að vera alltaf í stjórnmálum ef maður gerir ekkert annað en að læra og fara út með hundinn. Mikilvægasta nýársheitið er því að sjálfsögðu að hreyfa mig meira. Ég tek enn eitt námslánið og fjárfest í árskort í líkamsrækt. Síðan mun ég fara í ræktina sirka 12 sinnum yfir þriggja mánaða skeið og nota það síðan einungis á sunnudögum, fer þunnur í pottinn og neyðist til að hlusta á gamla, súra rasista. Svona eins og Facebook í hljóðbókarformi.
Í lokin vil ég óska öllum nema þeim sem eru á bakvið skert kjör námsmanna eða aukinnar kjaragliðnunar gleðilegs nýs árs og þakka kærlega fyrir það gamla.
Höfundur er nemi.