Opinberar framkvæmdir sem kosta meira en 500 milljónir eru umhverfisvottaðar. Miklar kröfur eru gerðar og losun gróðurhúsalofttegunda skal lágmörkuð. Þetta kemur fram í upplýsingum fjármála- og efnahagsráðuneytisins vegna fyrirspurnar þingmanns um umhverfisáhrif opinberra framkvæmda. Íslenskur staðall sem skilgreinir hvernig reikna beri umhverfisáhrif mannvirkja tók gildi árið 2012. Reikna skal allt ferlið; frá hráefnisvinnslu, í gegnum framleiðslu, flutning, reisingu, notkun og förgun.
Skv. svari ráðuneytisins er þetta ekki gert. Losun vegna hráefnisvinnslu er ekki reiknuð. Losun vegna flutnings efna er ekki reiknuð. Losun vegna notkunar ekki reiknuð. Losun og samanburður mismunandi lausna, ekki reiknaður. Losun við förgun, ekki heldur. Umhverfismat? Nei. Nýleg skýrsla SI um losun í mannvirkjagerð flytur sömu skilaboð. En „miklar kröfur“ gerðar og losun „skal lágmörkuð“. Þar sem kröfur staðalsins eru skýrar og umræða um umhverfismál hávær, er rétt að velta fyrir sér hvað hafi farið úrskeiðis.
Það er mikilvægt þar sem mannvirkjagerð er megindrifkraftur hnattrænnar hlýnunnar (40%). Enn stærri hluti (50%+) framleidds efnismassa heimsins tengist mannvirkjagerð. Steypa, stál og grjót heyra undir stærstu drifkrafta heimshagkerfisins. Umfjöllun um þetta hefur skort of lengi. Á meðan brennur London.
Skoðum þetta aðeins betur; Nýji Landsbankinn, er umhverfisvottaður „í topp“, en umhverfisáhrif ekki rétt reiknuð. Nýji Landsspítalinn, BREEAM-vottaður „í topp“, en burðarvirki (stærsti umhverfisþátturinn) rangt reiknað. Hús íslenskra fræða, „miklar gæðakröfur“, en fylgir samt ekki fyrirskrifaðri íslenskri löggjöf. Nýtt skrifstofuhúsnæði Alþingis, sama saga. Meginþáttum neikvæðra umhverfisáhrifa sleppt og umhverfisvænna mannvirkjalausna ekki leitað. Athygli vekur að sami verkfræðiráðgjafi kemur að öllum verkefnunum.
Það dynur á okkur orðaflaumur um umhverfisvottanir, BREEAM-vottanir, gæðavottanir, umhverfismöt, vistvænar byggingar o.s.fr.v. – og forysta ríkisstjórnar Íslands kennir sig er mér sagt við græn málefni – en meginþáttum hnattrænnar hlýnunnar sleppt. Í stuttu máli virðist sem helstu nýbyggingar þjóðarinnar verði minnisvarðar um CO2 losunarmet fremur en vörður að hreinni mannvirkjagerð.
Ráðgjafar í réttum tengslanetum vina sinna og frænda ganga um bæinn með fagurgrænar tennur og grænþvottarsápu í töskunni og selja opinberum aðilum umhverfisvænar og -vottaðar mannvirkjalausnir, en kunna ekki reiknireglurnar. Reikna jafnvel alls ekki. Ekki skortir grænar yfirlýsingar um eigin sérfræðiþekkingu á heimasíðum hlutaðeigandi – grænvangar og grænframtíð bíða víða eftir meira fé frá stjórnvöldum – ekki ósvipað myglusögum hvar stærsti myglutjónvaldurinn segist mesti myglusérfræðingurinn (sbr. sagan um Orkuveituhúsið). Sömu aðilar og vinir þeirra skrifa í dagblöð níðgreinar um íslenska nýsköpun, sem ekki tilheyrir fámennisklúbbnum þeirra, niðurlægja íslenska frumkvöðla og lítil fyrirtæki á réttum stöðum í kerfinu, jafnvel fyrirtæki sem í fjórtán ár hafa unnið að þróun umhverfisvænna mannvirkjalausna. Hver þarf framþróun þegar vinir vina sinna eru annars vegar? Okkur virðist enda mikið í mun að útvaldir fáir hagnist á því að selja okkur gallaðar vörur, þær sömu og seldar í fyrra. Við leyfum þeim að selja okkur þá hugmynd að sótsvört vara gærdagsins sé umhverfisvænt frumkvöðlastarf morgundagsins, og gerum engar athugasemdir þótt útkoman sé eins; „þeir sögðu þetta umhverfisvottað í topp!?“ Minnir því miður átakanlega á Nýju fötin keisarans.
Volkswagen svindlaði á viðskiptavinum sínum með rangri upplýsingagjöf um losun, sagði vörur sínar umhverfisvænni en raunin var. Bílaframleiðandinn greiddi háar skaðabætur. Munurinn á losun bíla og mannvirkja er áttfaldur sem gerir svindl með útreikninga á umhverfisáhrifum mannvirkja að átta sinnum alvarlegri glæp. Óhófleg og röng efnisnotkun í burðarkerfum, almenn efnissóun og lítið hagkvæmar óumhverfisvænar byggingaraðferðir, gera vonda stöðu verri. Á sama tíma stendur Evrópa í ljósum logum.
Í margvíslegu tilliti hafa opinberir aðilar ekki tileinkað sér þekktar umhverfisvænar mannvirkjalausnir. Ekkert slíkt er heldur í farvatninu. Jú, réttir vinir í rétta klúbbnum ætla að gera þetta á morgun, eða hinn – í síðasta lagi 2035 – kannski. Eru að „uppfæra“ greiningar (skv. svari ráðherra), þótt skaðinn sé skeður. Hvernig lágmarka Framkvæmdasýslan, Vegagerðin, Landsnet eða aðrir opinberir framkvæmdaaðilar vina sinna losun gróðurhúsalofttegunda „eins og hægt er“? Með hugaraflinu? Áróðri? Hvað með að starfa í samræmi við fyrirskrifað regluverk, heiðvirða viðskiptahætti og hleypa að þekkingu og framförum?
Umhverfis- og mannvirkjasvið Íslands er í gíslingu, hönnunar- og ráðgjafarverkefnum nánast einvörðungu dreift á forsendum sérhagsmunatengsla, lítil sérfræðingafyrirtæki markvisst útilokuð. Í klúbbnum skipta vinir kökunni, sleikja mylsnuna upp úr gólfinu og vísa burt utanaðkomandi - íslenskum ríkisborgurum - sem hætta sér of nálægt kökunni þeirra. Þess vegna meðal annars greiðir samfélagið of hátt verð fyrir húsbyggingar, mannvirki, orku- og samgöngukerfi (innviði). Krafan um hagkvæm opinber innkaup og leit að bestu lausnum er skýr í lögum, hvati í innkaupum þó enginn, hvorki til þróunar, nýsköpunar, endurnýjunar eða yfirfærslu á þekktum lausnum. Því streyma af silfruðum færiböndum klúbbsins enn sömu vörur, jafnvel sótsvartari en nokkru sinni áður. Heldur óheppileg og undarleg þróun því miður.
Nýju fötin glansa í speglum ríkisforstjóra og fyrirmenna sem kalla á torgum BREEAM BREEAM, sjáið BREEAM-vottuðu fötin mín! En hvar eru fötin?
Höfundur er verkfræðingur