Íslendingar hafa ekki efni á að reka eigin Landhelgisgæslu. Þeir hafa heldur ekki efni á að reka almennilegt og mannúðlegt fangelsiskerfi og réttarkerfið er fjársvelt. Íslendingar hafa heldur ekki efni á að gera við götur höfuðborgarinnar, vegi út á landi eða þjóðveginn. Íslendingar hafa heldur ekki efni á því að reka heilbrigðiskerfið með sómasamlegum hætti og þessvegna liggja sjúklingar á göngum og matstofum, jafnvel klósettum. Þá hefur menntakerfið verið fjársvelt og er enn og við virðumst heldur ekki getað rekið almannaútvarp með sómasamlegum hætti.
En á meðan þessu gengur þá moka hluthafar fyrirtækja í sjávarútvegi arði, þ.e. hreinum hagnaði sem sem nemur milljörðum króna, í eigin vasa með bros á vör. Starfsfólkið getur ekki fengið launahækkanir, það veldur verðbólgu. En það getur fengið frostpinna, þeir valda nefnilega ekki verðbólgu. Já, það er svigrúm fyrir frostpinna hjá sægreifunum, lénsherrum þessa lands. Í lénskerfi Evrópu áttu kóngar og yfirstéttin landið, hin sameiginlegu gæði, sem leigt var leiguliðum. Hér á Íslandi fá útgerðarmenn hinsvegar hin sameiginlegu gæði til eignar, sem þeir geta ráðstafað að eigin vilja, leigt eða selt og veðsett eftir þörfum.
Ríki misskiptingar
Svona er Ísland í dag. Um er að ræða ríki sem byggir á misskiptingu, þar sem láglaunahópar eru í hlutverki launaþræla, en eigendur sjávarútvegsfyrirtækjanna velta sér upp úr auði, en hafa t.d. sumir ekki hugmynd um það hvað starfsfólkið hefur í laun. Enda er það algert aukaatriði. Aðalatriðið er að gróðinn lendi á réttum stað, að auðlindin, sem okkur er sagt að sé í eigu þjóðarinnar, skili sem mestum arði til sinna eigenda og hluthafanna. Og þetta með „þjóðareignina“ er náttúrlega ein mesta hræsni sem um getur í opinberri umræðu. Fiskurinn í sjónum er ekkert í eigu þjóðarinnar, það eru um 70 aðilar sem eiga fiskinn í sjónum og þar af eru nokkrir tugir einstaklinga sem eiga meira en 50% kvótans. Andvirði hans nemur tugum, ef ekki hundruðum milljörðum króna. Þess má geta að frá 2009 til 2014 var hagnaður sjávarútvegsins (fyrir afskriftir, s.k. EBITDA) um 450 milljarðar króna. Á þessu tímabili greiddi sjávarútvegurinn um 32 milljarða í veiðigjöld, samkvæmt grein eftir Indriða H. Þorláksson, sem birtist á vefnum Herðubreið um miðjan apríl.
Öfug nýlendurstefna
Á Íslandi er rekin það sem ég vill kalla „öfug nýlendustefna.“ Á 18. og 19.öld ruddust Evrópumenn til Afríku og sölsuðu hana undir sig, með öllum sínum auðæfum. Mergsugu hana. Meðal annars voru lagði vegir til þess eins að koma auðlindunum til hafs, svo hægt væri að flytja þær úr landi. Nýlenduherrarnir voru ekki innlendir, heldur aðkomnir. Íslenskir nýlenduherrar eru hinsvegar innlendir og vinna í skjóli stjórnvalda sem strjúka þeim og klappa. Á meðan vinnur starfsfólkið á launum sem duga ekki til framfærslu. Þetta er hinn blákaldi veruleiki sem blasir við á Íslandi í dag, þar sem græðgin lifir góðu lífi.
Hér viðgengst einhver sérkennilegasta blanda af léns og nýlenduveldi sem um getur, borin uppi af fjársterkum sérhagsmunum sem eru með stjórnmálastéttina í vasanum. Þetta verður að breytast. Lausnin felst meðal annars í nýrri kynslóð stjórnmálamanna sem eru ekki fæddir og uppaldir í hugmyndaheimi sérhagsmuna. Látum almannahagsmuni í forgang.
Höfundur er stjórnmálafræðingur.