Í grein sem Hjörleifur Stefánsson arkitekt birti í Kjarnanum þann 20. júlí síðastliðinn koma fram áhugaverð sjónarmið fagaðila um túlkun á skipulagsheimildum í Reykjavík. Formaður umhverfis- og skipulagsráðs sætir harðri gagnrýni í greininni auk annarra borgarfulltrúa og embættismanna. Það er fagnaðarefni að fagaðili kveði sér hljóðs í umræðu um skipulagsmál og veiti stjórnmála- og embættismönnum mikilvægt aðhald en þátttaka arkitekta og skipulagsfræðinga í umræðu um skipulagsmál á Íslandi er alltof lítil. Í grein Hjörleifs er einkum tvær fullyrðingar sem vert er að rýna betur í. Annars vegar segir Hjörleifur:
„Í skipulagslögum er beinlínis kveðið á um skyldu sveitarstjórnar til þess að láta vinna aðalskipulag á grundvelli almannahagsmuna og þegar eldra deiliskipulag stangast á við nýtt aðalskipulag er það aðalskipulagið sem er rétthærra og veldur því að breyta verður deiliskipulaginu.“
Og hinsvegar:
„En deiliskipulaginu ber lögum samkvæmt að breyta við ákveðnar aðstæður, t.d. þegar aðalskipulagi hefur verið breytt og breytingin ómerkir deiliskipulagið. Byggingarréttur er því eðli málsins tímabundinn við gildistíma deiliskipulags.“
Samkvæmt þessari túlkun Hjörleifs á skipulagslögum eru þær áætlanir sem settar eru fram við endurskoðun aðalskipulags í raun afturvirkar með þeim afleiðingum að allar gildandi deiliskipulagsáætlanir sem ekki samræmast nýsamþykktu aðalskipulagi ógildast sjálfkrafa við samþykkt nýs aðalskipulags. Af þessu að dæma er óhætt að fullyrða að skipulagsmál í Reykjavík séu í talsverðu uppnámi enda deiliskipulagsáætlanir í gildi sem samræmast ekki almennri stefnu í aðalskipulagi. Hingað til hefur það ekki verið raunin og breyttar stefnur í aðalskipulagi hafa ekki verið túlkaðar sem afturvirkar fyrir samþykkt deiliskipulag eða byggingarleyfi. Sú túlkun að deiliskipulagi beri að breyta samkvæmt lögum í kjölfar breytinga á aðalskipulagi er í besta falli langsótt og með öllu fordæmalaus.
Það væri óskandi ef að sambærilegar aðstæður og nú eru komnar upp við Barónsreit í Reykjavík væru jafn einfaldar og grein Hjörleifs gefur til kynna en svo er hinsvegar ekki. Til viðbótar við deiliskipulagsáætlanir þar sem byggingarheimildir hlaupa á milljörðum eru yfirleitt skýrir samningar í gildi milli lóðarhafa og borgaryfirvalda þar sem kveðið er á um bætur vegna tafa og hugsanlegrar skerðingar á byggingarmagni. Nýlegt dæmi um þetta eru tafarbætur sem Reykjavíkurborg greiddi Valsmönnum ehf vegna frestunar á framkvæmdum við Hlíðarenda en því tilfelli námu bæturnar 285 milljónum. Rétt er að taka fram að meirihlutinn í borgarstjórn sem endaði á að greiða bæturnar var ekki sá sami og samþykkti þær upphaflega enda ógildast eldri samningar ekki með nýjum meirihluta.
Nýlegt dæmi um þetta eru tafarbætur sem Reykjavíkurborg greiddi Valsmönnum ehf vegna frestunar á framkvæmdum við Hlíðarenda en því tilfelli námu bæturnar 285 milljónum. Rétt er að taka fram að meirihlutinn í borgarstjórn sem endaði á að greiða bæturnar var ekki sá sami og samþykkti þær upphaflega enda ógildast eldri samningar ekki með nýjum meirihluta.
Að lokum bendir Hjörleifur á að „sannarlega er þörf á því að endurbæta löggjöfina og kveða skýrar á um rétt og skyldu sveitarfélaganna til þess að endurbæta skipulagsáætlanir með almannahag að leiðarljósi og takmarka bótaskyldu þeirra.“ Þar tekur Hjörleifur undir bókun Magneu Guðmundsdóttur varaformanns umhverfis- og skipulagsráðs vegna umræddrar deiliskipulagstillögu en þar segir „Það er óásættanlegt að enn hafi ekki komið til endurskoðunar skipulagslaga og fyrningarákvæði verið sett á eins og umhverfis- og skipulagsráð hefur margoft óskað eftir.” Í því samhengi er að mörgu að huga og rétt að árétta að það er ekki einfalt mál að koma á fyrningarákvæðum deiliskipulags inn í skipulagslög. Ólíklegt er að slík ákvæði leysi hugsanlega skaðabótaskyldu (sem réttilega hefur aldrei reynt á) sveitarfélaga á skömmum tíma en væntanlega þyrfti að gefa rúman frest á gidistöku slíks ákvæðis svo byggingamarkaðurinn gæti aðlagast breytingunni. Þar að auki er óljóst hvaða áhrif slík ákvæði hefðu á gildandi samninga sem borgaryfirvöld hafa skrifað undir til viðbótar við samþykktar deiliskipulagsáætlanir.
Í allri þessari umræðu rétt að velta fyrir sér hvaða áhrif fyrningarákvæði hefðu á skipulagsferla, en að vissu leyti má segja að þessi ákvæði gangi út frá því að þeir sem starfa við skipulagsgerð munu ávallt og sífellt vera taka rangar ákvarðanir við gerð deiliskipulags og/eða viðhorf til skipulags sé sífelldum breytingum háð sem gangi í takt við sveiflur á byggingarmarkaði. Hið síðarnefnda er auðvitað rétt, skipulag er ávallt breytingum háð en spurningin er hvort að það sé alltaf skynsamlegt að ganga út frá því við ákvörðunartöku. Ef að allar ákvarðanir eru teknar með hliðsjón af því að til staðar sé trygging fyrir því að hægt sé að afturkalla rangar ákvarðanir er ljóst að eðli ákvörðunartakna og ábyrgð þeirra sem sem fara með völd mun taka breytingum.
Höfundur er skipulagsfræðingur og framkvæmdastjóri Borgarbrags ehf.