Nú þegar hluthafar, Samkeppniseftirlitið og Fjármálaeftirlitið hafa blessað sameiningu MP banka og Straums fjárfestingarbanka er komið að því að velja bankanum nýtt nafn. Kosið verður í stjórn næstkomandi mánudag á fyrsta hluthafafundi bankans. Misjafnlega fyndnir brandarar hafa verið sagðir um hvað sameinaður banki gæti heitið. Strumpur banki er ein tillaga. Það verður að teljast ólíkleg nafnagjöf.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ráðist er í nafnabreytingar innan MP banka. Eftir eigendaskipti árið 2011 stóð til að skipta út MP, upphafsstöfum Margeirs Péturssonar stofnanda bankans, fyrir eitthvað allt annað enda Margeir ekki lengur hluthafi. Skúli Mogensen, sem fór fyrir hópi hluthafa við kaup á MP banka, keypti þá í nafni fjárfestingafélags síns, Títan, lénið verslunarbanki.is og verzlunarbanki.is. Eftir nokkra undirbúningsvinnu var þó fallið frá breytingum og þess í stað ákveðið að kynna til sögunnar nýtt vörumerki og yfirlagningu. MP banki heitir því ennþá MP banki.
Títan fjárfestingarfélag er ekki lengur skráður eigandi lénanna verslunarbanki.is og verzlunarbanki.is. Í dag á enginn lénið, samkvæmt skráningu Isnic. Það er því ólíklegt að leitað verður í fyrri vinnu við nafnabreytingar á MP banka, þegar nafninu verður að öllum líkindum breytt á næstu vikum eða mánuðum.