Í 2. grein laga um lífeyrissjóði segir: „Sjóðfélagi er sá sem greitt er fyrir, greiðir eða hefur greitt iðgjald til lífeyrissjóðs.“ Lögin tilgreina enga aðra eigendur að lífeyrissjóðum en sjóðfélaga. Eigendur lífeyrissjóða verkafólks erum því við, vinnuaflið. Við höfum í gegnum tíðina samið við atvinnurekendur um að hluti af því sem þeir gjalda okkur í skiptum fyrir vinnu okkar séu iðgöld í sjóðina sem skapa okkur rétt til útgreiðslu eftirlauna vegna elli eða örorku. Við höfum greitt fyrir iðgjaldið og réttindi okkar með vinnu, og þess vegna eigum hvort tveggja. Það er merking orðsins „sjóðfélagi“.
Þrátt fyrir að iðgjald í lífeyrissjóð sé ígildi launa okkar og við sjóðfélagar eigum ein réttindin sem iðgjaldið skapar, þá er það svo að við, eigendur sjóðanna, höfum í dag engin lýðræðisleg yfirráð yfir þeim. Það er reynsla undirritaðra eftir setu í stjórn Eflingar síðan 2018 að aðkoma vinnandi fólks að stjórnun lífeyrissjóða er í raun engin. Stjórnir sjóðanna eru að helmingi skipaðar fulltrúum Samtaka atvinnulífsins, sem gefur atvinnurekendum neitunarvald í öllum málum. Í ofanálag er dagleg umsýsla sjóðanna á valdi stjórnenda og sérfræðinga sem taka nær undantekningarlaust afstöðu með atvinnurekendum og varðstöðu þeirra um yfirráð.
Tvö mál á síðustu misserum tengt sjóði Eflingarfélaga, Gildi - lífeyrissjóði, hafa varpað ljósi á þennan skort á lýðræðislegum áhrifum sjóðfélaga og hve óþolandi það ástand er. Gildi lét það viðgangast um árabil að stærsti undirverktakinn í rekstrarmálum sjóðsins, tölvufyrirtækið Init, féfletti sjóðinn og þar með okkur sjóðfélaga með ómerkilegum bókhaldsbrellum. Að frumkvæði stjórnar kannaði Efling málið vorið 2020 og reyndi framkvæmdastjóri Eflingar án árangurs að ræða um það við Árna Guðmundsson framkvæmdastjóra Gildis. Málið komst svo í hámæli eftir umfjöllun fréttaskýringarþáttarins Kveiks á síðasta ári.
Enginn stjórnandi hjá Gildi hefur axlað neina ábyrgð á Init-málinu. Öllum raunverulegum spurningum um hvernig það gerðist að farið var með rekstrarfjármuni sjóðsins á þennan hátt er ósvarað. Öll viðbrögð sjóðsins, svo sem yfirklór í formi ótrúverðugra skýrslukaupa og höfnun framkvæmdastjóra Gildis á boði um að mæta á fund Eflingarfélaga síðastliðið haust, gera ekkert nema staðfesta að sjóðurinn ætlar að þagga málið í hel. Sjóðurinn hefur engan áhuga á að axla neina ábyrgð gagnvart okkur, eigendum sjóðsins, sem viljum einfaldlega upplýsingar um það hvernig hefur verið farið með eigur okkar.
Stórfyrirtækið Icelandair hefur ítrekað troðið á grunnréttindum verkafólks. Gerðist það bæði í kjaradeilu fyrirtækisins við Flugfreyjufélag Íslands sumarið 2020 og svo aftur haustið 2021 með uppsögn trúnaðarmanns Eflingarfélaga á Reykjavíkurflugvelli. Framganga Icelandair gagnvart vinnandi fólki hefur ekki haft neikvæð áhrif á fjárfestingavilja lífeyrissjóða í fyrirtækinu, nema síður sé. Gildi og fleiri sjóðir tóku kinnroðalaust þátt í hlutafjárútboði þegar fyrirtækið var fjárþurfi, rétt eftir árás þess á flugfreyjur, og réttu þar með fyrirtækinu líflínu í formi áhættufjárfestingar með peninga og réttindi okkar.
Við höfnum því að algert áhrifaleysi sjóðfélaga innan lífeyrissjóðakerfisins haldi áfram að festa sig í sessi. Á meðan greiðsla iðgjalds í lífeyrissjóð er skylda fyrir allt vinnandi fólk þá er það skylda sjóðanna að hlusta á raddir og virða vilja sjóðfélaga, sérstaklega þegar kemur að ákvörðunum sem snerta beint hagsmuni almennings.
Við teljum því nauðsynlegt að setja inn öryggisventil sem tryggi möguleika sjóðafélaga að aðkomu að umdeildustu málum sem snerta ábyrgð sjóðanna gagnvart samfélaginu. Lífeyrissjóðirnir hafa nú þegar sett sér reglur um samfélagsábyrgð. Þær kröfur snúa einmitt að þeim atriðum sem voru í húfi í hlutafjárútboði Icelandair og Init-málunum, það er að segja því að virða réttindi launafólks og að ástunda góða stjórnarhætti. Icelandair- og Init málin sýna hins vegar að sjóðirnir hlíta ekki sjálfir þessum reglum. Reglurnar eru eingöngu á pappírnum. Sjóðirnir þurfa aðhald til að fylgja þeim eftir af alvöru. Það aðhald á að koma frá sjóðfélögum sjálfum.
Það er sjálfsagður réttur sjóðfélaga, og hagur samfélagsins alls, að fyrir hendi sé möguleiki á beinu sjóðfélagalýðræði sem tryggir öryggisventill gegn hugsanlegum brotum sjóðanna gegn almannahag, lágmarkssiðferði og eðlilegri meðferð rekstrarfjár. Við viljum að veittar verði heimildir til beinna kosninga meðal sjóðfélaga um mál þar sem vafi leikur á að staðið sé við viðmiðanir um ábyrgar fjárfestingar og góða stjórnarhætti.
Fáum við brautargengi í komandi kosningum til stjórnar Eflingar munum við, ásamt félögum okkar á Baráttulistanum, beita okkur af krafti fyrir því að koma á raunverulegu sjóðfélagalýðræði í lífeyrissjóðunum, í formi heimildar til beinna kosninga sem þjóni sem öryggisventill.
Höfundar eru á Baráttulistanum sem býður sig fram til stjórnar Eflingar.