Nýtt ár nálgast og blikur eru á lofti enn á ný. Ómíkron er að hrekkja landsmenn yfir hátíðirnar, persónulega væri ég frekar til í Omnom faraldur, en maður fær víst ekki allt sem maður vill. Ef við lítum á björtu hliðarnar þá hefur þekking landsmanna á gríska stafrófinu aukist til muna undanfarin misseri.
Þrátt fyrir allt sem á undan er gengið eru heimilin að koma betur undan faraldrinum en á horfðist í fyrstu, atvinnuleysi fer lækkandi og kraftur að færast í hagkerfið. Atvinnulífið í heild kom betur út úr ástandinu en menn þorðu að vona í upphafi, þó áhrifin hafi verið mjög mismunandi milli atvinnugeira. Ekki verður fram hjá því litið að faraldurinn hefur ekki síst reynst heilbrigðiskerfi, námsfólki, ferðaþjónustu, viðburðahaldi og listafólki þungur. Til þessa verðum við að líta í mati á mótvægisaðgerðum sem gæti þurft að grípa til eða framlengja. Ég er að eðlisfari bjartsýn, þó faraldurinn hafi kallað fram einstaka blús, og því gleðst ég yfir upplýsingum sem fram eru að koma um að Ómíkronið virðist viðráðanlegri útgáfa veirunnar en við höfum séð hingað til. Ætla því að leyfa mér að vona að þessu ástandi fari að linna á nýju ári og að samtakamáttur okkar í baráttunni við veiruna fari að skila árangri og lífið fari að þokast í átt að eðlilegu ástandi. Sterkar undirstöður íslenskra heimila, fyrirtækja og ríkisins komu bersýnilega í ljós og mikilvægt að huga áfram að undirstöðunum í framtíðinni.
Heimilin settu fé í hlutabréf og húsnæði í heimsfaraldri
Á árinu 2021 voru það helst tveir þættir fjármálakerfisins sem almenningur hafði mestan áhuga á. Almenningur nýtti sér sögulega lága vexti til endurfjármögnunar og kaupa á húsnæði og áhugi heimilanna á hlutabréfamarkaðinum jókst mikið í kjölfar skráningar Íslandsbanka á aðalmarkað Kauphallarinnar.
Fasteignamarkaðurinn var á miklu flugi á árinu 2021 og var árshækkun íbúðaverðs 17% í nóvember. Neytendur eru upplýstir um stöðu mála og hafa beint viðskiptum sínum í auknum mæli til bankanna sem bjóða sögulega góð kjör. Sérstaklega hefur verið mikil aukning í óvertryggðum lánum, sem aftur sýnir að neytendur fylgjast vel með þar sem þeir vextir hafa verið óvenju hagstæðir undanfarið. Önnur vísbending um virkni neytenda er að nú virðast stýrivaxtahækkanir Seðlabanka þegar byrjaðar að hafa þau áhrif að heimilin eru í mun meira mæli að velja að festa vexti húsnæðislána. Bankarnir er nú með meirihluta markaðshlutdeildar húsnæðislána og hefur útlánaaukning þeirra til fasteignakaupa verið mikil á árinu.
Seðlabankinn hefur fengið aukinn áhuga á fasteignamarkaðinum þar sem verðbólgan er að stórum hluta dregin áfram af hækkunum á húsnæðisverði. Seðlabankinn hefur hafið vaxtahækkunarferli sem hefur bein áhrif á óverðtryggða útlánsvexti. Þá hefur Seðlabankinn lækkað hámarks veðsetningarhlutfall fasteignalána ásamt reglum um hámark greiðslubyrðar fasteignalána í hlutfalli við tekjur neytenda. Þessar reglur hafa ekki teljandi áhrif að svo stöddu þar sem fjármálastofnanir hafa allar haft verklag um greiðslumat sem rúmast að mestu innan nýrra reglna. Hins vegar á eftir að koma í ljós hvort þessar reglur fari að bíta ef vaxtahækkunarferlið heldur áfram.
Áhugi einstaklinga á hlutabréfamarkaðinum jókst mikið við útboð ríkisins á 35% hlut sínum í Íslandsbanka. Góð þátttaka var í útboðinu og þrátt fyrir mikla umframeftirspurn og umræðu um að hægt hefði verið að fá hærra verð var salan jákvæð fyrir innlendan hlutabréfamarkað og þá fjárfesta sem tóku þátt. Þátttaka og áhugi almennings á hlutabréfamarkaði jókst mikið við útboðið sem leiðir til aukinnar virkni á hlutabréfamarkaði og aukinnar dreifingar í eignarhaldi skráðra félaga.
Netárásir fyrirferðarmiklar í fjölmiðlum
Á árinu sem er að líða var mikill vöxtur í netárásum og netglæpum, bæði stærri árásum á mikilvæga innviði og fjársvik einstaklinga. Stórar Ddos árásir, Log4j öryggisgallinn, svikapóstar í nafni ýmissa fyrirtækja og hefðbundin netsvik voru umfangsmikil í fréttum ársins. Viðbrögð fyrirtækja s.s. fjármálafyrirtækja og opinberra aðila við stærri árásum á innviði og fyrirtæki hafa verið snör og virðast varnir hérlendis nokkuð þéttar. Einstaklinga þarf að fræða betur um einstaklingsbundnar varnir gegn netglæpum og verður það verkefni næstu missera. Mikilvægi fjármálafyrirtækja í baráttunni við netógnir, peningaþvætti og skipulagða glæpastarfsemi hefur aldrei verið meira. Áhugi opinberra stofnana á málefninu hefur aukist síðustu mánuði og virðist sem stjórnvöld séu að opna augun fyrir mikilvægi þess að stofnanir og fjármálafyrirtæki vinni saman gegn sameiginlegri ógn. Aukið samstarf og sameiginleg þekking á viðfangsefninu mun styrkja varnir til muna og vernda hagsmuni neytenda. Fjármálafyrirtækin standa framarlega þegar kemur að baráttunni gegn peningaþvætti og mikilvægi þeirra í að takast á við ýmiskonar netógnir fer vaxandi. Þrátt fyrir að ekki hafi orðið alvarlegt atvik enn í fjármálainnviðum landsins þá þróast aðferðir netglæpamanna hratt og mikilvægt að fjármálafyrirtækin og hið opinbera geri allt sem í sínu valdi stendur til þess að koma í veg fyrir alvarleg atvik. Þétta þarf markvisst að samstarf aðila í fjármálakerfinu og atvinnulífi ásamt hinu opinbera til að það náist áfram að hrinda árásum netþrjóta á mikilvæga innviði.
Framtíðarkynslóðir verði betur læsar á fjármál
Á miðnætti á mótum þess 22. og 23. nóvember á árinu 1991 var ég mætt, rétt orðin sautján, á lögreglustöðina í Auðbrekkunni í Kópavogi til að sækja glóðvolgt ökuskírteinið. Þessi spenna stafaði ekki síst af því að í sex ár hafði ég unnið fjölbreytt störf með námi, búið við fjárhagslegt öryggi í foreldrahúsum og lagt fyrir til að kaupa mér draumabílinn, enda með bíladellu á háu stigi á þeim árum. Það er skynsamlegt að leggja fyrir en kannski hefði ég mátt hugsa það aðeins betur að setja hverja einustu krónu af sparnaðinum í kaup á dýrum draumabílnum og velja ódýrari kost að sinni. Rekstur tryllitækisins át enda þennan sparnað hratt upp á menntaskólaárunum og lítið sat eftir. Þó lítið hafi setið eftir af sparnaðinum var þetta dýrmæt lexía. Fjármálalæsi er mikilvægt í nútímaþjóðfélagi og við megum gera betur í menntun unga fólksins okkar í fjármálum. Í könnun sem Maskína framkvæmdi fyrir Samtök fjármálafyrirtækja og Fjármálavit var ungt fólk á aldrinum 18 – 30 ára spurt um reynslu og viðhorf til fjármála og kemur fram í þeim niðurstöðum að níu af hverjum tíu hefðu viljað læra meira um fjármál í grunnskóla. Samtök fjármálafyrirtækja hafa nú um árabil starfrækt Fjármálavit sem er fræðsluvettvangur um fjármálalæsi. Tilgangurinn er að stuðla að aukinni kennslu í fjármálalæsi í grunn- og framhaldsskólum og bættu fjármálalæsi ungs fólks með áherslu á fyrirhyggju og gagnrýna hugsun. Gott fjármálalæsi og vel upplýstir neytendur gera meiri kröfur sem hvetur til aukinnar samkeppni og nýsköpunar í vöru og þjónustu. Þannig felur gott fjármálalæsi í sér samfélagslegan ávinning okkur öllum til hagsbóta. Það er markmið okkar að framtíðarkynslóðir verði betur læsar á fjármál og því þarf að auka veg og virðingu fjármálalæsis á öllum stigum lífsleiðarinnar.
Stjórnmálin og staðan
Við eigum eftir að komast út úr heimsfaraldrinum og mikilvægt er að við tölum saman og finnum samstöðufletina til að ná að spila úr stöðunni þannig að sem flestir geti vel við unað. Í ljósi minna fyrri starfa verð ég að segja að mér finnst pólitíkin hafa staðið sig afburða vel í gegnum þennan heimsfaraldur. Að fá þennan pakka í fangið, hvort sem litið er til stjórnar eða stjórnarandstöðu, er ekki öfundsvert. Hefðbundnar áætlanir og stefnumörkun þarf að aðlaga að þessum óviðráðanlegu aðstæðum og leiðinni út úr faraldrinum fylgja ekki leiðbeiningar með skýrri niðurstöðu. Því hefur stjórnmálafólkið okkar þurft að velja leiðir úr fábrotnum valkostum og halda áfram í þeirri von að góð og réttlát niðurstaða fáist fyrir flesta. Óháð því hvort við séum sammála öllum einstaka ákvörðunum þá er ég þakklát fyrir að búa á Íslandi þegar heimsfaraldur skellur á.
Staða fjármálafyrirtækja hefur ekki verið jafn sterk um árabil sem nýttist þeim við að styðja sína viðskiptavini innan þess ramma sem þeim er heimilt í gegnum faraldurinn. Sterkur og heilbrigður rekstur fjármálafyrirtækjanna nú er einnig mikilvægur í þeim áskorunum sem fram undan eru til að styðja við uppgang í efnahagslífi og fjölgun starfa.