Ágæta Svandís!
Velkomin í stól landbúnaðarráðherra. Við erum málkunnug eftir fund í Umhverfisráðuneytinu, þá er þú varst umhverfisráðherra, vegna málefna hrossa og þetta opna bréf fjallar um.
Þú hefur nú gert fyrstu ráðstafanir vegna blóðmeramálsins. Ætlun þín er að skipa starfshóp um málið og þú ætlar að óska eftir tilnefningu frá Matvælastofnun og Siðfræðistofnun HÍ í það verkefni. Þetta eru jákvæð fyrstu viðbrögð þó ég skilji alls ekki af hverju þú tekur hreinlega ekki á þessu máli sjálf. Þá er mér hulin ráðgáta í hvaða tilgangi þú gerir þetta. Ég spyr mig hvað þú ætlar að fá upp á yfirborðið, sem er ekki þegar komið fram í þessu máli og mörgum öðrum, sem lúta að starfsháttum MAST. Ég verð því að láta hugann reika um það af því ég er ástríðufullur áhugamaður um bætta dýravernd á Íslandi.
Vill ráðherrann skoða með hvaða hætti þetta gat yfir höfuð borið að? Ég get svarað því. Þetta bar að með þeim hætti að forveri þinn og æðsti embættismaður málaflokksins voru ekki að fylgjast með málaflokki, sem hefur verið afhjúpaður oft og fyrst í janúar 2019 og síðan í fjölmörg skipti með áberandi hætti í ýmsum fjölmiðlum með greinaskrifum og rökstuðningi í frumvarpi um blóðtökubann á s.l. vetri.
Ætlar þú nú að hlusta á einstaklinga, sem MAST tilnefnir og ég er handviss um að forstjóri MAST og yfirdýralæknir munu velja til að vernda ásýnd MAST? Nógu vel þekki ég til starfshátta stofnunarinnar á liðnum árum til að geta fullyrt það.
Starfshópar geta verið til þess fallnir að gefa kolranga mynd af raunveruleikanum nema tryggt sé að fengnir séu til starfans aðilar, sem hafa engra hagsmuna að gæta og búi yfir þekkingu til að fást við verkefnið. Tilnefning frá Siðfræðistofnun HÍ er afbragðs hugmynd enda málið verulegt siðferðilegt álitamál en ég spyr mig um leið hvaða þekkingu hafa heimspekingar þar á fræðasviðinu animal ethics/dýrasiðfræði, sem fjallar um umgengni mannsins við dýr og nýtingu hans á þeim. Sú spurning teygir sig reyndar til alls búfjárhalds til manneldis og fiskveiða. Ég kannast ekki við að neinn þar hafi slíka þekkingu og í raun veit ég bara um tvo einstaklinga á háskólastigi, sem eitthvað hafa sett sig inn í það svið í tengslum við rannsóknir sínar á háskólastigi. Hins vegar er fjöldi slíkra hágæðafræðinga við flesta Evrópska háskóla enda fræðasviðið kenndur þar og eru íslenskir háskólar eina undantekningin í álfunni þó við kennum okkur við að vera fyrirmyndarland búfjárhalds.
Höfundur er dýraréttarlögfræðingur.