Kæri Páll. Ég hef lengi verið hugsi yfir orðum þínum sem þú lést falla sumarið 2013 á Alþingi, þá nýkominn á þing fyrir Framsóknarflokkinn: ,,Varðandi mig og hagsmunatengslin, ég hef bara talið mig vera fulltrúa útgerðarinnar hérna og hef ekkert farið leynt með það.“
Þó margt megi segja um störf Alþingis er þetta að mínu mati algerlega andstætt þeirri hugsun sem verið hefur við lýði hér á landi að þingmenn vinni í þágu almannahagsmuna, en ekki sérhagsmuna. Þú slærð sem sagt alveg nýjan tón með þessum grímulausu orðum þínum. Og orð þín eru ekki til þess fallin að auka traust gagnvart Alþingi, sem er í sögulegu lágmarki og hefur verið lengi, en það er eitt mikilvægasta verkefni íslensks samfélags að endurvinna einmitt þetta traust.
Miðað við orð þín get ég því ekki litið á þig sem fulltrúa almennings og almannahagsmuna. Það þykir mér slæmt.
Helsta og veigamesta hlutverk Alþingis er að setja lög. Þessum lögum er okkur landsmönnum ætlað að fara eftir og til þess að auka líkurnar á að farið sé eftir þeim lögum verður traust að vera til staðar gagnvart þinginu.
Miðað við orð þín get ég því ekki litið á þig sem fulltrúa almennings og almannahagsmuna. Það þykir mér slæmt. Þar að auki þiggur þú, sem þingmaður, laun frá almenningi, en varla hefur þessi sami „almenningur“ hugsað sér að borga þér laun til þess að vinna að hagsmunum útgerðarinnar í landinu? Til að vinna hagsmunum sínum framgöngu hafa útgerðarmenn SFS (fyrrum LÍÚ) til þess að gera það. Er það þá ekki rétt staðurinn fyrir þig Páll?
En mér blöskraði ennþá meira þegar þú lýstir því yfir að þú værir ekki vanhæfur, sem fulltrúi í Atvinnuveganefnd Alþingis, til þess að fjalla um málefni fyrirtækis, sem til stendur að fái makrílkvóta sem nemur tugum milljóna króna. Sú staðreynd að eiginkona þín reki fyrirtækið breytir því ekki að um mjög beina hagsmuni er að ræða. Mál fyrirtækisins hljóta að koma upp í daglegum samskiptum ykkar, til dæmis við kvöldverðarborðið.
Skora ég því á þig að víkja sæti og láta öðrum þingmanni starfið eftir, sem hyggst vinna að almannahagsmunum, á kaupi frá almenningi.
Einnig skiptir það í raun engu máli þó þú hafir sagt að þú ætlir ekki að greiða atkvæði, því komi til atkvæðagreiðslu um þetta mál er næsta víst að það fari í gegn vegna þingmeirihluta Framsóknar og Sjálfstæðisflokks, sem er 38 þingmenn af 63. Einnig má benda á að samkvæmt hagsmunaskrá á vef Alþingis ert þú ennþá skráður fyrir 5 prósenta hlut í útgerðarfélaginu Vísi í Grindavík. Má þá ekki segja að þú sért líka að vinna að þínum eigin hagsmunum sem þingmaður?
Yfirlýsing þín um að þú sért fulltrúi útgerðarinnar á Alþingi Íslendinga gerir þig að mínu mati vanhæfan til setu á Alþingi Íslendinga. Skora ég því á þig að víkja sæti og láta öðrum þingmanni starfið eftir, sem hyggst vinna að almannahagsmunum, á kaupi frá almenningi.
Þeir sem eru sammála mér um þetta geta svo skráð sig í undirskriftasöfnun þar sem áðurnefnd áskorun birtist. Almenningur verður að geta treyst því að þingmenn séu að störfum í þágu allrar þjóðarinnar, en ekki einstakra sérhagsmuna.
Höfundur er stjórnmálafræðingur.