Opið bréf til þeirra sem klúðruðu ferðaþjónustu fatlaðra

9954291586_af5e4664c8_k-1.jpg
Auglýsing

Reykjavík, 13. janúar 2015

Ágætu viðtakendur.

Ég undirrituð, Jóhanna Pálsdóttir, vil með bréfi þessu koma á framfæri mjög alvarlegum og ákveðnum kvörtunum vegna þjónustuleysis ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk á höfuðborgarsvæðinu!

Auglýsing

Jóhanna Pálsdóttir Jóhanna Pálsdóttir

Ég krefst þess að kvartanir mínar, athugasemdir og ábendingar verði teknar alvarlega og að við þeim verði brugðist tafarlaust, m.a. með því að bæta verulega þjónustu ferðaþjónustunnar og gera hana þannig úr garði að hún verði boðleg manneskjum!

Ég hef notað ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk síðastliðin 17 ár og hef því langa reynslu til að byggja athugasemdir mínar og kvartanir á.

Ég hef verið ánægð með þá þjónustu sem ég hef fengið, allt til 1. nóvember síðastliðinn, að undanskildu því að hafa þurft að panta ferðir með minnst sólarhrings fyrirvara. Sú regla er ekki til staðar lengur, en samanborið við það þjónustuleysi, það hættulega ástand og það skipulagsleysi sem nú ríkir, þá verð ég að segja að þrátt fyrir þessa úrbót, þá fóru notendur þjónustunnar algjörlega úr öskunni í eldinn!

Ég lýsi hér með yfir mikilli óánægju með þá þjónustu sem ég hef fengið síðan nýja skráningarkerfið var tekið í notkun, þann 1. nóvember s.l.

Ég nota þjónustuna a.m.k. þrisvar í viku, oft fimm sinnum í viku, og hef því haft góðan tíma til að átta mig á því hversu mjög þjónustan hefur versnað eftir að nýtt skráningarkerfi var innleitt og nýir aðilar tóku við akstrinum. Ég gæti nefnt ótalmörg dæmi um að nýja skráningarkerfið virkar ekki, bara alls ekki!

Halda opinberir starfsmenn borgarinnar að fólk hafi ekkert þarfara við tíma sinn að gera en eyða honum á rúntinum um bæinn í erindisleysu?

Ég hef varla ferðast með ferðaþjónustunni síðastliðna tvo mánuði án þess að verða fyrir einhvers konar skakkaföllum, síðast 11. janúar. Þá tók ferð frá heimili mínu, í Frostafold, að hjúkrunarheimilinu Eir, í Grafarvogi, heilar 30 mínútur, og sama ferð til baka tók heila klukkustund! Ferð sem venjulega tekur þrjár mínútur í bíl.

Halda opinberir starfsmenn borgarinnar að fólk hafi ekkert þarfara við tíma sinn að gera en eyða honum á rúntinum um bæinn í erindisleysu?

Ég hygg að flestir notendur ferðaþjónustunnar séu mér sammála um að þjónustan hafi stórversnað eftir 1. nóvember og meira að segja hef ég mjög oft orðið vitni að verulegri óánægju bílstjóranna með fyrirkomulagið. Ég hef líka orðið vitni að grátandi farþegum, fötluðum börnum sem þekktu ekki bílstjórann og fullorðnum manneskjum sem skulfu af ótta. Finnst fólki þetta boðlegt?

Skráningar misfarast, týnast eða skila sér aldrei þrátt fyrir að fólk á þjónustuborðinu segist hafa tekið við þeim. Símanum er svarað seint og illa og þá yfirleitt „þú ert númer níu í röðinni”. Biðtíminn bætist á símareikning öryrkjanna. Auðvitað á þetta númer að vera gjaldfrjálst!

Og skráningarnar eru svo „heilagar“ að það er ekki viðlit að leiðrétta augljós mistök á staðnum þegar menn átta sig á þeim. Nei, tölvan segir að þrír bílar eigi að sækja þrjár manneskjur í sama húsið á sama tíma og þá verður það að vera svo.

Og ef tveir bílar koma og sækja tvær manneskjur, en þriðji bíllinn klikkar, þá situr þriðja manneskjan eftir og kemst hvergi, þrátt fyrir að nóg pláss hafi verið í hinum tveimur bílunum. Skemmst er að minnast fréttarinnar af bræðrunum sem urðu viðskila á leið sinni í mat til foreldra sinna vegna þess að bíllinn sem kom átti, samkvæmt nýja fína skráningarkerfinu, aðeins að sækja annan þeirra. Hinn komst aldrei í matarboðið.

Er þetta skráningarkerfi íslensk forritun eða keypt erlendis frá? Var það ekkert yfirfarið og prófað áður en það var tekið í notkun til að þjónusta lifandi og fullgilda borgara í þessu landi? Hvað kostar svona „meingallað“ kerfi fyrir skattborgarana?

Fram til kerfisbreytingarinnar 1. nóvember s.l. var ég yfirleitt ánægð með ferðaþjónustuna og þá aðstoð sem ég fékk frá bílstjórunum. En hið sama get ég ekki sagt um þá bílstjóra sem tóku til starfa þann 1. janúar s.l.

Í nýjum reglum um ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk, sem tóku gildi þann 1. janúar s.l., kemur skýrt fram að gerðar verði auknar kröfur til starfsmanna þjónustunnar, sérstaklega bílstjóra, t.d. ber þeim skylda til að sækja námskeið og fræðslu um aðstæður fatlaðs fólks og hvernig skuli bregðast við ýmsu sem upp kann að koma. Ég efast stórlega um að bílstjórarnir sem nú eru við störf hafi sótt slík námskeið og reynist ágiskun mín rétt, þá er það skýrt brot á nýju reglunum.

Ekki er hægt að bera farþega ferðaþjónustunnar saman við almenna farþega Strætó, eins og þeir sem bera ábyrgð á þessu reyna þó endalaust að gera til að réttlæta nýja kerfið. Við erum ekki „venjulegir” strætófarþegar. Þá tækjum við auðvitað bara sama strætó og hinir. Ferðaþjónusta fatlaðra er hugsuð fyrir farþega sem eru að mestum hluta langveikir sjúklingar. Slíkur farmur þarf sérstaka aðgát í flutningum. Ekki endalausa bið í kulda og trekki hreyfingarlaus í hjólastól eða flugkeyrslur yfir hraðahindranir! Hvað þá ógnandi viðmót frá bílstjórum eins og raunin hefur verið með suma af þeim nýráðnu og kunnáttulausu.

Ég geri ráð fyrir að helsta krafan sem til þeirra er gerð sé sú að þeir hafi ökuréttindi. Þetta er alls ekki boðlegt fyrir fatlað fólk!

Og hvernig ætla ráðamenn að leysa úr þessari skammarlegu stöðu sem upp er komin í ferðamálum fatlaðra?

Helsta röksemd fyrir nýjum reglum um ferðaþjónustuna er sú að verið sé að færa hana til samræmis við aðrar almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Ég veit ekki til þess að fólk sem notar strætó þurfi að takmarka ferðir sínar við 60 á mánuði. Að setja þak á ferðafjölda notenda ferðaþjónustunnar er skýrt brot á mannréttindum!

Það er skýrt brot á 20. grein samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, en hún fjallar um ferlimál fatlaðra einstaklinga. Þar segir m.a.:

„Aðildarríkin skulu gera skilvirkar ráðstafanir til þess að tryggja að einstaklingum sé gert kleift að fara allra sinna ferða og tryggja sjálfstæði fatlaðs fólks í þeim efnum, eftir því sem frekast er unnt, meðal annars með því:

a) að greiða fyrir því að fatlað fólk geti farið allra sinna ferða með þeim hætti sem það kýs og á þeim tíma sem það velur og gegn viðráðanlegu gjaldi.“

Og fyrst minnst var á viðráðanlegt gjald, þá lýsi ég hér með þeirri skoðun minni að 1.100 króna gjald fyrir hverja ferð sem farin er umfram sextíu ferða hámarkið er gjörsamlega óásættanlegt og mun ég standa þétt við bakið á þeim notendum sem munu leita allra leiða til að hnekkja þessari óskiljanlegu ákvörðun Velferðarráðs og Borgarráðs. Sérstaka athygli vekur að Reykjavík skuli vera eina sveitarfélagið sem ætlar að rukka öryrkja með þessum hætti og margfalda þannig ferðakostnað þeirra!

Einnig vil ég vekja athygli á því að reikningar ferðaþjónustunnar fást ekki sundurliðaðir þrátt fyrir margítrekaðar beiðnir þar um. Engin leið er fyrir notendur að hafa virkt eftirlit með að rétt sé innheimt fyrir notaðar ferðir!

Ég fer fram á að í stað sífelldra afsökunarbeiðna sjái Reykjavíkurborg og Strætó sóma sinn í því að fella niður allan ferðakostnað farþega ferðaþjónustunnar, frá 1. nóvember að telja og allt til þess dags að þjónustan er komin í viðunandi horf.

Og hvernig ætla ráðamenn að leysa úr þessari skammarlegu stöðu sem upp er komin í ferðamálum fatlaðra? Er það yfirleitt hægt með þessu nýja kerfi? Ég leyfi mér að efast.

Hér eftir mun ég, í hvert einasta skipti sem ég verð fyrir því að sú þjónusta sem ég óska eftir og mér er lofuð stenst ekki, senda inn skriflega kvörtun.

Að lokum hvet ég þá sem bera ábyrgð á þessari óreiðu, þessu skipulagsleysi og þessu hættulega ástandi, til að prófa sjálfir að nota þjónustuna, þó ekki væri nema í eina viku, og athuga hvernig þeim gengur að halda tímaáætlunum og komast ferða sinna í annríki dagsins.

Með skýrri kröfu um úrbætur,

Jóhanna Pálsdóttir.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Svona mun Sigurboginn líta út fram til 3. október
Sigurboginn klæddur í 25 þúsund fermetra plastklæði
Fyrsta stóra verkefni Christo og Jeanne-Claude hefur litið dagsins ljós eftir andlát Christo. Það hefur verið lengi í undirbúningi en um þúsund manns koma að uppsetningunni og kostnaður nemur rúmum tveimur milljörðum króna.
Kjarninn 18. september 2021
Ragnar Þór Ingólfsson
Land tækifæranna, fyrir útvalda!
Kjarninn 18. september 2021
Líkurnar á að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur haldi velli komnar niður í 38 prósent
Í lok ágúst voru líkurnar á því að sitjandi ríkisstjórn myndi halda 60 prósent. Þær hafa minnkað hratt en á sama tíma hafa líkurnar á myndun fjögurra flokka stjórnar án Sjálfstæðisflokks aukist umtalsvert.
Kjarninn 18. september 2021
Sólveig Anna Jónsdóttir
Sjálfsvirðing
Kjarninn 18. september 2021
Bára Huld Beck
Trúir einhver þessari konu?
Kjarninn 18. september 2021
Stefán Ólafsson
Rangfærslur Áslaugar Örnu um skatta
Kjarninn 18. september 2021
Utanríkisráðuneytið afturkallaði einungis eitt liprunarbréf af öllum þeim sem gefin voru út eftir að faraldur COVID-19 skall á.
Einungis eitt liprunarbréf afturkallað af fleiri en tvö þúsund slíkum
Liprunarbréfið sem Jakob Frímann Magnússon óskaði eftir fyrir barn vinar síns í mars í fyrra er það eina sem utanríkisráðuneytið hefur þurft að afturkalla af fleiri en tvö þúsund slíkum sem gefin voru út eftir að faraldur COVID-19 hófst.
Kjarninn 18. september 2021
Steinar Frímannsson
Óvissuferð án fyrirheits – Umhverfisstefna Framsóknarflokks
Kjarninn 17. september 2021
Meira úr sama flokkiÁlit
None