Hvað er það sem knýr eyðingu vistkerfa jarðar? Hvað er það í raun og veru sem aðalritari Sameinuðu þjóðanna kallaði í vikunni „fjöldamorð mannkyns“ í náttúrunni? Ég ræddi árásina á vistkerfin í grein minni hér í síðustu viku í tilefni af fjölþjóðaráðstefnunni um líffræðilegan fjölbreytileika, sem hófst miðvikudaginn 7. des. Þar beindi Guterres aðalritari spjótum sínum að fjölþjóðlegum fyrirtækjum sem hann sagði „fylla bankareikninga sína á sama tíma og þau tæmdu heiminn af gjöfum náttúrunnar“. Þau hefðu gert vistkerfi að „leikföngum gróðafíknar.“ Þá „fordæmdi hann uppsöfnun auðs og valda í höndum lítils fjölda ofurríkra einstaklinga,“ eins og segir á fréttasíðu SÞ.
Guterres er ekki sá fyrsti í mannkynssögunni sem fer í flokk „heimsósómamanna.“ Fyrir 2000 árum blöskraði ræðusnillingnum og stjórnmálaskörunginum Síseró þegar annað heimsveldi en okkar, Rómaveldi, hafi lagt undir sig mest af því sem einhvers var talið virði. Hann talaði um „girnd vora og rangsleitni“ meðan allar þjóðir „æpa og kveina“. Svo féll hið mikla heimsveldi og við tóku hinar myrku miðaldir. Stefnum við í sömu átt? Um hvað er aðalritarinn að tala? Afleiðingarnar rakti ég í fyrri grein minni, en hvað veldur þessum ósköpum?
Fimm meginástæður fyrir hruni vistkerfanna
1) Landnotkun. Síðustu 30 ár nemur skógeyðing á plánetunni um það bil 40 sinnum flatarmáli Íslands. Lauslega reiknað er það flatarmál Evrópusambandsríkjanna allra á þeim tíma sem liðinn er frá fyrstu umhverfisverndarráðstefnunni í Ríó. Landbúnaður er aðal ástæðan.
En hafinu er ekki heldur hlíft. Eins og ég lýsi í bók minni Heimurinn eins og hann er, tengist þessi eyðing beint matvælakerfum heimsins og hvernig þau virka. Við beinlínis étum skógana. Vonast er til að hægt verði að semja um að þriðjungur jarðar og hafsvæða verði „vernduð“ með einum eða öðrum hætti og tekin frá að hluta eða öllu leyti fyrir náttúruna sjálfa. (Ekki eru öll verndarsvæði jöfn: Kóralrifin geyma 80-90% af líffræðilegum fjölbreytileika hafsins. Á sama hátt er óvarlegt að leggja að jöfnu flatarmál regnskóga við miðbaug og einhæfa skógrækt við 66 gráður norður „til kolefnisbindingar.“)
En það er ekki bara hefðbundin landnotkun til akuryrkju sem veldur tjóni. Samgöngukerfin skera sundur farleiðir dýra, umferð á siglingaleiðum hrekur sjávarspendýr af kjörslóðum sínum, vindmyllur mala fugla í spað. Skömmu eftir miðbik síðustu aldar var massi mannvirkja meiri en lífmassi plánetunnar. Svona rís heimsveldi okkar og kallast „Mannöld“ eins og ég lýsi í bók minni.
2) Loftslagsbreytingar eyða lífi. Á um það bil sama tíma og við felldum alla þessa skóga jókst útblástur gróðurhúsalofttegunda tvöfalt. Kolefni sem er bundið í skógum, mólendi og votlendi losnar við jarðrask. Samkvæmt Umhverfisstofunun er stærsti orsakavaldur losunar gróðurhúsalofttegunda á Ísland einmitt landnotkun.
3) Mengun. Kemur ekki á óvart. Not á skordýraeitri eru fullkomlega óábyrg og plastmengun í hafi drepur sjávardýr unnvörpum. (12 milljónir tonna af plasti fara í hafið árlega). Þegar tilbúnum áburði frá landbúnaði skolar út í vatnakerfin og höfin myndast „dauðasvæði“ sem nema tugum þúsunda ferkílómetra hvert um sig. Plasteyjar fljóta um höfin.
4) Beint arðrán á náttúrulegum auðlindum. Þetta ógnar einni milljón tegunda plantna og dýra (samtals eru 8 milljónir á jörðu). Á ráðstefnunni sem fjallar um þessi mál og stendur nú yfir í Montreal (COP 15) er lögð mikil áhersla á að vernda erfðaefni plantna og dýra sem talin eru bera í sér heilsubætandi framtíðarlausnir fyrir mannkyn. Vernd og endurreisn vistkerfa er því er því ekki bara spurning um að hafa gaman af því að horfa á skokkandi dádýr heldur grundvallaratriði um líf á jörðu. Allt líf.
5) Framandi tegundir: Utan náttúrulegra heimkynna hafa framandi tegundir skelfileg áhrif á aðrar sem eiga sér einskis ills von. Hnattræn verslun og flutningaleiðir eru meginástæða fyrir því að aðkomutegundir eyða lífi. (Ég læt öðrum eftir að ræða framandi tegundir á Íslandi – en mikið hljóta þær að vera gagnlegar þegar þeim er boðið í náttúru okkar).
Óafmáanleg spor mannkyns
Það er þetta sem aðalritari SÞ kallaði að mannkyn notaði náttúruna eins og klósett á leið til sjálfsmorðs. Ekki er það fagur vitnisburður um það tímabil sem nú er sagt nýtt í jarðsögunni: Mannöld. (Anthropocene). Mannkyn hefur sett óafmáanleg spor sín á allt jarðríki og er hið nýja heimsveldi. Í bókinni Heimurinn eins og hann er spyr ég: Stefnir í sömu átt hjá okkur og meðal hinna voldugu Rómverja forðum? Að minnst kosti erum við komin á þann sama stað að öldungar rífa hár sitt og kveina eins og Síseró fyrir 2000 árum um það heimsveldi sem átti eftir að hrynja:
„Öll skattlönd eru harmi slegin, allar frjálsar þjóðir æpa og kveina, öll ríki veraldar mótmæla grimmd vorri og græðgi. Úthafa á milli er enginn sá afkimi að eigi hafi fengið að kenna á girnd vorri og rangsleitni.“
Stefán Jón Hafstein er höfundur bókarinnar Heimurinn eins og hann er, og hefur unnið greinar fyrir Kjarnann upp úr þeirri bók. Myndir eru úr henni líka.