Það var þögn í rútunni á leið heim á hótel. Að baki voru rúmlega 5 klukkutímar í skoðunarferð um Auschwitz/Birkenau, útrýmingarbúðirnar alræmdu nálægt Kraká í Póllandi þar sem nasistar drápu yfir milljón manns í heimsstyrjöldinni síðari. Það er fátt hægt að segja eftir að hafa fengið leiðsögn þar. Manni er einfaldlega orða vant. Fyllist reiði, tómleika og vantrú, en ummerkin eru alls staðar. Þetta gerðist. Sérhvert öskukorn í jarðveginum segir sínu sögu.
Sjá með eigin augum
Ég var í hópi ÖSE-sendiherra sem þáðu boð bandarísku fastanefndarinnar að heimsækja Auschwitz í lok september. Það var ekkert sérstaklega stór hópur sem lagði af stað í rútu frá Vín. Við vorum um fimmtán talsins þ. á m. kollegar mínir frá Kanada, Þýskalandi, Svíþjóð, Ítaliu, Noregi, Rúmeníu og Bandaríkjunum. Ég verð að játa að ég var spenntur en mig hafði langað allt frá námsárunum í Þýskalandi að heimsækja svona stað. Ekki vegna þess að ég væri svo hugfanginn af þeim eða illskunni sem þeir holdgera heldur vegna þess að mér hefur einhvern veginn fundist það skylda mín sem manneskju að sjá þetta með eigin augum. Reyna að skynja þessa sögu betur og skilja. En um leið var ég líka svolítið kvíðinn.
Dagurinn var tekinn snemma á sunnudagsmorgni. Auschwitz, sem heitir upphaflega Oswiecim, er í um klukkustundar aksturfjarlægð frá Kraká. Leiðsögumaðurinn sem tók á móti okkar var kona á miðjum aldri sem talaði fína ensku með þykkum pólskum hreim. Hún leiddi okkur í gegnum búðirnar og sýndi af melankólískri yfirvegun hvar pyntingar höfðu farið fram, hvar menn voru skotnir eða hengdir, og hvar Rómafólkið var geymt, konur og ungabörn. Hún hélt sig við staðreyndir sögunnar og færði aldrei í stílinn. Þess þurfti heldur ekki - tilfinningarnar komu af sjálfu sér. Það var sársaukafullt að sjá ummerkin og heyra þessu sögu, maður fann beinlínis líkamlega til. Allt í kringum mig bitu samferðarmenn á jaxlinn og hertu sig upp í að halda áfram. Við mættum hópi unglinga frá Ísrael, sennilega í skólaferðalagi, öll eins klædd. Þau voru náföl og nánast í losti. Skyldi engan undra.
Lengi að vinna úr þessu
Svo skoðuðum við Birkenau, næsta bæ við þar sem fjöldamorðin hófust fyrir alvöru. Skoðuðum útihúsin sem geymdu fangana, gas- og brennsluklefana, lestarteinana sem flutti gyðinga úr allri Evrópu til Auschwitz, lestarstöðina þar sem nýjum föngum var skipt upp í tvo hópa – þá sem gátu unnið og þá sem voru strax myrtir – og við sáum stóra hvilft í grasinu, kannski 5-6 metra í þvermál fulla af ösku. Um það leyti sem við löbbuðum tilbaka að hliðinu inn í Birkenau dró fyrir sólu og það fór að rigna. Við enduðum túrinn á að fara upp í varðturn í hliðinu inn í búðirnar (kallað “dauðahliðið”) en þaðan var útsýni yfir allt svæðið sem mest geymdi 100 þúsund manns. Mér segir svo hugur að ég verði lengi að vinna úr því að hafa komið til Auschwitz. Það gildir held ég um alla aðra sem þangað koma.
Eitt af því sem leitar mjög sterkt á mig eftir þessa heimsókn er hugmyndin um mannréttindi. Mannréttindi eru ekki bara orð á blaði eða réttindi sem eru eða eiga að vera okkur tryggð í alþjóðasáttmálum, stjórnarskrám og lögum. Þau eru ekki abstrakt kennslubókardæmi. Mannréttindi – eða öllu heldur mannréttindabrot - eru þvert á móti grjótharður raunveruleiki, á hverjum degi allt í kringum okkur. Sérstaklega fyrir fólkið sem verður fyrir barðinu á mannréttindabrotum. Fólkið sem er í fangelsi fyrir það eitt að mótmæla, hefur misst vinnuna vegna þess að það samsinnir ekki stjórnvöldum, eða fólkið sem er misþyrmt og jafnvel drepið fyrir skoðanir sínar. Eða bara fyrir að vera öðruvísi.
Mannréttindamál eru eitt af meginviðfangsefnum Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) þar sem ég starfa sem fastafulltrúi Íslands. Útgangspunktur ÖSE-samstarfsins er að virðing fyrir mannréttindum sé forsenda friðar og öryggis. Því miður er myndin ekki alltaf falleg. Á vikulegum fundum fastaráðs ÖSE þar sem sitja fulltrúar 57 ríkja koma fram upplýsingar um mannréttindabrot í aðildarríkjunum. Víða eru blaðamenn og mótmælendur læstir inni. Tjáningarfrelsi er ekki virt, þaggað er niður í fólki og það látið gjalda skoðana sinna. Bloggarar eru handteknir eða heimasíðum lokað. Þeir sem berjast fyrir mannréttindum eru miskunnarlaust barðir niður. Þeir sem eru öðruvísi t.d. samkynhneigðir eða transfólk fá að finna fyrir því.
Og þá erum við komin aftur að mannréttindunum sem eru andstæða alls þessa. Allir einstaklingar eiga að njóta sömu réttinda óháð kynþætti, litarhætti, kynferði, tungu, trú, stjórnmálaskoðunum eða öðrum skoðunum, þjóðerni, uppruna, eignum, ætternis eða öðrum aðstæðum. Þessi langa upptalning er orðrétt úr Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1948. Hún hefur sannarlega haldið gildi sínu. Maður þarf í raun ekki annað en að horfa á nýfætt barn til að skilja hugtakið mannréttindi – að allir eigi sama rétt. Þessi réttindi verðum við alltaf að hafa í huga, virða og verja.
Þetta eru grundvallaratriðin. Þannig birtast þau í alþjóðalögum og pólitískum skuldbindingum á vettvangi ÖSE og annarra alþjóðastofnana og félagasamtaka. Mannréttindi og umburðarlyndi, skilningur og mannúð eru leiðarljósin - ekki óánægja, ótti eða hatur. Það felst enginn pólitískur rétttrúnaður í því að taka sér stöðu með mannréttindum. Þetta er einfaldara. Við eigum bara aldrei að umbera hatursorðræðu og aldrei að horfa í hina áttina þegar brotið er einstaklingum eða minnihlutahópum. Við eigum alltaf að taka afstöðu með mannréttindum fólksins í kringum okkur.
Kynslóðin sem lifði af að hverfa
Minningin um Auschwitz er ef til vill að dofna. Kynslóðin sem lifði af er að hverfa og þessir atburðir eru að verða að kafla í sögubók. Önnur mál eru efst á baugi. En mannréttindabrot halda samt áfram og hættumerkin eru út um allt. Versnandi kjör og óvissa vegna fjármálakreppunnar hefur til dæmis blásið í glæður þjóðerniskenndar og einangrunarhyggju í Evrópu. Hún birtist í sinni verstu mynd sem andúð á útlendingum, innflytjendum, flóttamönnum – sem andúð og hatur á „hinum“.
Það voru hugsanir af þessu tagi sem leituðu á mig þegar við ókum aftur til Kraká og rigningin buldi á rúðum rútunnar.
Þegar við vorum að fara frá útrýmingarbúðunum gerðist svolítið sérkennilegt. Við útganginn er lítil bókabúð. Ég hafði stungið mér þar inn til að kaupa mér bók og afgreiðslukonan spurði mig hvaðan ég kæmi. „Frá Íslandi” svaraði ég. „Ó, Íslandi“ svaraði hún um hæl og leit glaðlega á samstarfskonu sína. Sú hin sama skellihló og sló sér á lær. „Góðan daginn“, sagði afgreiðslukonan því næst við mig á íslensku, glaðhlakkaleg. Svo hélt hún áfram á ensku og sagði að fyrir nokkrum árum hefði hópur Íslendinga komið í bókabúðina. Þar var á ferðinni íslenskur kór. Þau tóku sig til og sungu tvö gullfalleg íslensk lög á planinu fyrir utan, í lok sinnar kynnisferðar. Söngurinn var í þakklætisskyni til konunnar í búðinni sem hafði boðið svo kurteislega góðan daginn á íslensku. Afgreiðslukonan brosti að minningunni.
Höfundur er fastafulltrúi Íslands hjá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu.