Túlkun Endurupptökudóms, sem nýverið hafnaði endurupptökubeiðni Erlu Bolladóttur, á meginreglum réttarfars, svo og ýmsum málsástæðum, virðist á köflum býsna vafasöm. Í einu tilviki er hún beinlínis svo ósvífin að það getur varla verið neitt áhorfsmál, að dómararnir fái rækilega ofanígjöf hjá Mannréttadómstól Evrópu ef þetta mál skyldi á endanum ná þangað.
Erla var á sínum tíma dæmd í Hæstarétti fyrir rangar sakargiftir á hendur fjórum mönnum. Séu upphaflegu sakargiftirnar skoðaðar nógu gaumgæfilega, kemur í ljós að Erla fullyrti aldrei neitt um einn þessara svokölluðu fjórmenninga, nefnilega Valdimar Olsen. Samkvæmt ákærunni bar hún hann röngum sökum í tveimur tilvikum, í lögregluskýrslum 3. febrúar 1976 og 1. september sama ár.
Dómarar Endurupptökudóms bæta um betur og sakfella hana nú líka fyrir hafa tengt Valdimar við málið í lögregluskýrslu 10. febrúar, nokkuð sem hún var ekki einu sinni ákærð fyrir. Í þeim tilgangi vitna þeir beint í skýrsluna:
„Varðandi Keflavíkurferðina, þá segist mætta þekkja myndir af þeim Magnúsi Leópoldssyni, Einari Bollasyni, Sigurbirni Eiríkssyni og Geirfinni Einarssyni. Hún segir alla þessa menn hafa örugglega verið stadda í Dráttarbraut Keflavíkur umræddan dag, eða öllu heldur kvöld. Hver þeirra fór um borð í bátinn, það segist mætta ekki geta sagt um með vissu. Þá segist mætta þekkja hér myndir af þeim […], Valdimar Olsen […].“
Þetta tengja þeir við annan af þeim tveimur framburðum Erlu sem hún var sakfelld fyrir. Í skýrslu sem tekin var af henni sléttri viku fyrr, þann 3. febrúar, var nafn Valdimars haft eftir Erlu, en þó vel að merkja ekki sem fullyrðing. Í þeirri skýrslu nefndi hún Magnús Leópoldsson, Sævar Ciesielski og Kristján Viðar. Nokkru síðar kemur svo þetta:
„Þá man ég eftir Einari bróður mínum og Valdimar Olsen held ég að einnig hafi verið þarna.“
Þetta er auðvitað ekki fullyrðing. Samkvæmt þessu var Erla ekki viss um hvort Valdimar hefði verið í hinni frægu Keflavíkurferð. Það leikur sem sagt vafi á návist Valdimars og samkvæmt einni af þeim almennu réttarfarsreglum, sem gilda í sakamálum hvort heldur þær eru skrifaðar í lög eða ekki, ber dómara að túlka vafa sakborningi í hag.
Það gerðu sakadómararnir ekki 1977 og hæstaréttardómararnir ekki heldur 1980. Endurupptökudómararnir þrír bætast nú í þann hóp sem ekki virðir þessa almennu meginreglu. Og þeir ganga lengra. Í efnisgrein númer 164 í dóminum stendur m.a. þetta:
„Þá er ekki rétt sem fram kemur í endurupptökubeiðni að endurupptökubeiðandi hafi aldrei bent á Valdimar Olsen. Fyrrgreindar skýrslur 3. og 10. febrúar 1976 bera með sér að hún taldi hann hafa verið á vettvangi í Dráttarbraut Keflavíkur.“
Hér eru báðar febrúarskýrslurnar undir. Dómararnir gera sig beinlínis seka um ósannindi þegar þeir hnýta nafni Valdimars aftan við nöfn þeirra fjögurra sem Erla sagði hafa „örugglega verið stadda“ í dráttarbrautinni og draga þá ályktun að hún telji hann hafa verið á staðnum. Af þeim 16 myndum sem henni voru sýndar, þekkti hún níu. Til viðbótar þeim fjórum sem hún sagði hafa verið í dráttarbrautinni eru í skýrslunni talin upp nöfn fimm annarra sem hún þekkti eða kannaðist við á þessum myndum. Valdimar Olsen var einn þeirra og ekki einu sinni sá fyrsti í nafnarununni.
En dómararnir leyfa sér fullyrða að það eitt og sér, að Erla hafi þekkt bróður vinkonu sinnar á mynd merki að hún hafi talið „hann hafa verið á vettvangi í Dráttarbraut Keflavíkur.“ Þetta er vægast sagt ótrúlega ósvífið og þótt ekki kæmi fleira til, ætti það eitt að vera ærin ástæða til að bera dóminn undir Mannréttindadómstól Evrópu.
Til viðbótar má svo geta þess að í dómi Hæstaréttar var Erla einnig talin hafa borið Valdimar Olsen röngum sökum í lögregluskýrslu 1. september 1976. Í þeirri skýrslu hafði hún nafn hans eftir Sævari. Það er sögusögn en ekki gildur vitnisburður. Erla fullyrti sem sagt aldrei að hún hefði séð Valdimar ídráttarbrautinni.
Raðyfirheyrslurnar 10. febrúar
Þriðjudaginn 10. febrúar 1976 fóru fram þrjár mjög sérkennilegar yfirheyrslur. Allar voru þærstuttar, tóku á bilinu 17-32 mínútur og ekki nema stutt hlé á milli. Öllu var þessu hespað af á einum og hálfum tíma – að hléum meðtöldum. Þau sem voru yfirheyrð þennan dag voru þau þrjú sem síðar voru sakfelld fyrir rangar sakargiftir; Sævar, Kristján og Erla.
Öllum voru þeim sýndar myndir af 16 mönnum sem „rannsóknarlögreglan telur hugsanlegt“ að hafa verið í dráttarbrautinni í Keflavík og tengst sjóferð þaðan kvöldið sem Geirfinnur hvarf. Orðalagið er nánast það sama í öllum skýrslunum þremur.
Þessar þrjár lögregluskýrslur skera sig ótrúlega skýrt frá öðrum yfirheyrslum í þessu máli. Yfirheyrslur voru yfirleitt langar og skrifaðar skýrslur nokkuð ítarlegar. Þessar skýrslur eru allar mjög stuttar. Það var líka einsdæmi að þau þrjú, Sævar, Kristján og Erla væru þannig tekin í raðyfirheyrslur.
Öll þrjú breyttu að einhverju leyti framburði sínum, en reyndar á nokkuð mismunandi vegu. Það eina sem er í fullkomnu samræmi í þessum skýrslum er að nú voru þau skyndilega öll handviss um að Sigurbjörn Eiríksson hefði verið í dráttarbrautinni og þekktu hann á mynd. Lögreglan hafði uppi á Sigurbirni og handtók hann um kvöldið.
Það er eiginlega hálfpartinn hjákátlegt að þennan dag gátu hvorki Sævar né Kristján þekkt Magnús Leopoldsson á mynd, þótt þeir hefðu báðir fullyrt um þátttöku hans í fyrri skýrslum. Kristján hafði meira að segja útskýrt í smáatriðum hvernig á því stæði að hann þekkti Magnús í sjón. Það er líka dálítið merkilegt að í öllum skrifum Sævars í tengslum við harðræðisrannsóknina 1979, fer hann alltaf rangt með nafn Magnúsar og kallar hann Magnús Leó Pálsson. Við þann lestur verður manni óþægilega ljóst að Sævar hafði aldrei hugmynd hver þessi maður var.
Bæði Kristján og Sævar höfðu áður nefnt Sigurbjörn Eiríksson, Sævar hafði nafn hans eftir Erlu og framburðir Kristjáns voru mjög óljósir. Sjálf hafði Erla viku fyrir raðyfirheyrslurnar, þann 3. febrúar, ekki viljað fullyrða að Sigurbjörn væri sá eldri maður sem hún taldi hafa verið í dráttarbrautinni – þótt henni væri bent á hann á mynd. Samt var hún bæði ákærð og dæmd fyrir að hafa borið hann röngum sakargiftum einmitt 3. febrúar.
Þyki lesandanum þetta allt saman dálítið flókið og furðulegt, er það ekkert skrýtið. Þetta er nefnilega bæði flókið og furðulegt. Það gildir raunar um alla þá svokölluðu rannsókn Geirfinnsmálsins sem á endanum leiddi til sakfellingar. Þar er eiginlega hvergi að finna neitt rökrænt samhengi og eitt rekur sig á annars horn.
En það virðist þó óhætt að draga tvær ályktanir af raðyfirheyrslunum þann 10. febrúar. Tilgangur þeirra var sá einn að fá fram tilefni til að handtaka Sigurbjörn Eiríksson. Og frumkvæðið var lögreglunnar. Það voru ekki Sævar, Kristján og Erla sem báðu um þessar yfirheyrslur af því að þau voru nú öll skyndilega sannfærð um þátttöku Sigurbjarnar. Það var lögreglan sem taldi sig ekki geta beðið lengur.
Það var aldrei nein endurupptaka
Þótt þeir þrír sem 1980 voru sakfelldir í hæstarétti fyrir að hafa banað Geirfinni Einarssyni hafi nú verið sýknaðir, var þetta mál í raun ekki endurupptekið. Sýknunin var einungis formleg og byggðist á því að settur ríkissaksóknari krafðist sýknu.
Raunveruleg endurupptaka hefði falið í sér ný réttarhöld þar sem saksóknari tefldi fram sömu rökum og sönnunargögnum og fyrr. En við ný réttarhöld hefði fjöldamargt komið fram sem fór afar leynt 1977 og 1980 og dómarar Hæstaréttar hafa mögulega ekki vitað af.
Þá fjarvistarsönnun, sem Sævar Ciesielski lagði fram haustið 1977, hefði dómurinn nú þurft að rannsaka og þá hefði strax komið í ljós að Sævar var raunverulega bara að horfa á sjónvarpið heima hjá mömmu sinni, þegar hann átti að hafa verið að vinna á Geirfinni með spýtu í Keflavík. Tímaplan lögreglunnar hefði líka þurft að grandskoða upp á nýtt með þeim óhjákvæmilegu afleiðingum að öllum yrði ljóst að það fékk aldrei staðist. Nú hefði líka komið í ljós að fölsuð gögn voru lögð í dóm. Í sem stystu máli hefði verjendum ekki bara tekist að sýna fram á vafa, heldur hefði þeim líkast til beinlínis tekist að sanna sakleysi þeirra sem sakfelldir voru 1980.
En þetta var ekki gert. Þess í stað var látið nægja að kveða upp einfaldan sýknudóm sem hverjum og einum virðist nú leyfilegt að túlka að vild sinni. Fyrir bragðið er ekkert auðveldara en að halda því fram að sakborningarnir séu í rauninni jafnsekir eftir sem áður, það hafi bara ekki tekist alveg nógu vel að sanna sekt þeirra.
Og einmitt þetta er nauðsynlegur grundvöllur þegar ætlast er til að fólk trúi því að Sævar, Kristján og Erla hafi að eigin frumkvæði logið sökum upp á fjóra saklausa menn. Ef við leggjum það til grundvallar að bara örlítið ónóg sönnunarfærsla hafi verið ástæða sýknudómanna 2018, þá er enn gerlegt að afgreiða röngu sakargiftirnar upp á gamla mátann. Til þess þarf að vísu að leggja alla heilbrigða skynsemi til hliðar, en það virðist ekki nein fyrirstaða í augum þeirra sem greinilega ætla sér að standa vörð um réttarkerfið út yfir gröf og dauða.
Meginforsendan brostin
Hér að framan eru nefndar raðyfirheyrslurnar þann 10. febrúar 1976, þegar lögreglan taldi sig ekki geta beðið lengur með að ná Sigurbirni í hús. Þessar yfirheyrslur eru sennilega allra skýrasta vísbendingin sem höfum nú um frumkvæði og tilgang lögreglunnar. Til þess að geta handtekið Sigurbjörn þurfti lögreglan nauðsynlega að fá fram vitnisburði um að hann hefði verið í dráttarbrautinni.
Lögreglan þurfti líka á vitnisburðum að halda til að handtaka Magnús Leopoldsson. Gæsluvarðhald Einars Bollasonar og Valdimars Olsen virðast einna helst hafa verið einhvers konar fórnarkostnaður í samhenginu. En lögreglan fékk fram vitnisburði, sem hún taldi duga til að handtaka alla þessa menn. Þremenningarnir sem unnu að þessari rannsókn höfðu auðvitað góða reynslu af því að fá menn til að kikna undan einangrun í gæsluvarðhaldi og þeir virðast í upphafi hafa reiknað með að Sigurbjörn og Magnús myndu á endanum gefast upp og játa.
Vitnisburðirnir sem lögreglan aflaði sér, líklega fyrst og fremst til að geta handtekið eiganda og framkvæmdastjóra Klúbbsins, Sigurbjörn og Magnús, eru einmitt sömu vitnisburðirnir og síðar urðu að röngum sakargiftum.
Meginforsendan fyrir dómunum fyrir rangar sakargiftir var sú að Sævar, Erla og Kristján hefðu eftir atburðina í dráttarbrautinni komið sér saman um að bendla hina svonefndu fjórmenninga við málið ef farið yrði að spyrja þau út í hvarf Geirfinns. Vel að merkja – ef farið yrði að spyrja þau út í hvarf Geirfinns. Þetta játuðu bæði Erla og Sævar á síðla árs 1976, rétt eins og allt annað sem þeim var uppálagt að játa.
Þessi útgáfa sögunnar leit ljómandi vel út á sínum tíma, þegar fyrir lá að þau hefðu farið til Keflavíkur og banað Geirfinni. En sú útgáfa fær enganveginn staðist þegar ljóst er orðið að Keflavíkurferðin var aldrei farin. Þar með er meginforsendan farin veg allrar veraldar.
Annaðhvort eða
Dómstólar hafa lengst af af hengt sig á þá einföldu staðreynd að Sævar, Kristján og Erla skrifuðu undir skýrslurnar þar sem rangar sakargiftir voru settar fram. Þar eð skýrslurnar eru skrifaðar eins og bein frásögn liggur beint við að túlka þær eins og gert hefur verið – sem beina frásögn og að eigin frumkvæði.
En það er einmitt frumkvæðið sem málið snýst um. Þegar ljóst er að Keflavíkurferðin var aldrei farin og Sævar, Kristján og Erlu vissu því hvorki neitt annað né neitt meira um hvarf Geirfinns en allur almenningur, verður algerlega fáránlegt að þau taki frumkvæðið að því að bera einhverja aðra sökum í málinu.
En hér eru bara tveir möguleikar: Annað hvort áttu þau sjálf frumkvæðið að þessum röngu sakargiftum eða frumkvæðið kom frá lögreglumönnunum. Það koma engir aðrir til greina.
Annaðhvort eða – bara tveir möguleikar.
Og það er auðvitað hér sem hnífurinn stendur í kúnni. Væri mál Erlu tekið upp aftur og hún sýknuð er óhjákvæmilegt annað en að sá sýknudómur næði líka til Sævars og Kristjáns, en þau voru öll þrjú ákærð og sakfelld fyrir þessar röngu sakargiftir. Í slíkum dómi fælist sem sagt viðurkenning á því að það hafi verið lögreglumennirnir sem áttu frumkvæðið og fengu þessa tvítugu krakka í lið með sér í þeim göfuga tilgangi að geta handtekið banamenn Geirfinns.
Í slíkum dómi fælist viðurkenning á því að rannsakendur málsins hafi beitt ótrúlega óvönduðum meðölum og jafnvel gerst brotlegir við lög. Jafnvel þótt slíkar sakir séu löngu fyrndar virðist svo dökkur blettur ekki mega falla á lögregluna.
Höfundur er fyrrverandi blaðamaður.