Það dylst engum sem fylgst hefur með deilum um kaup og kjör á vinnumarkaði, að sjaldan eða aldrei hefur staðin verið erfiðari viðureignar en nú. Verkalýðshreyfingin krefst meiri en 20 prósent hækkunar á launum þvert yfir öll stéttarfélög, og mestrar hækkunar hlutfallslega hjá þeim sem hafa lægstu launin.
Ýmislegt hefur leitt til þess að kröfurnar eru töluvert mikið hærri en samtök atvinnulífsins og stjórnvöld telja sig geta mætt, en líklega eru ákvarðanir stjórnvalda að undanförnu áhrifaríkasti þátturinn. Stjórnvöld ákváðu að gefa sumu fólki sem skuldar verðtryggð húsnæðislán, 80 milljarða króna úr ríkissjóði og síðan skömmu síðar voru laun lækna hækkuð um meira en 20 prósent. Allt hefur þetta ýtt undir væntingar um að hækka laun myndarlega, enda eru stjórnvöld óbeint að segja að nóg sé til af peningum í ríkiskassanum, þegar það er hægt að gefa fólki tugi milljarða króna, óháð því hvort það þurfi á peningunum að halda.
En það er fleira sem grefur undan möguleikanum á því að ná samningum. Stjórnendur og ráðandi hluthafar margra af stærstu fyrirtækjum bera mikla ábyrgð, enda hafa þeir sýnt mikið ábyrgðarleysi að undanförnu með ákvörðunum um launahækkanir hjá stjórnendum og stjórnarmönnum. Aðalfundur HB Granda ákvað að hækka laun stjórnarmanna um 33,3 prósent, en á sama tíma telja hagsmunasamtök atvinnurekenda að ekki sé hægt að hækka laun fólksins á gólfinu um meira en 3,5 til fimm prósent. Hvers vegna ætli það sé? Ekki er hægt að segja annað en að þetta sé köld vatnsgusa framan í verkalýðshreyfinguna, og stjórnvöld í leiðinni, á versta mögulega tíma í nánast fordæmalausum deilum á vinnumarkaði. Hluthafar HB Granda, sem hafa ekki síst notið góðs af lágu gengi krónunnar og makrílveiðum undanfarin ár, sýndu taktleysi með því að hækka launin hjá stjórnarmönnum þetta mikið á þessum tímum, nema að þeir ætli að láta fólkið á gólfinu njóta sambærilegra launahækkana. Það verður að teljast mjög ólíklegt.