Það verður að segjast eins og er, að það kemur á óvart að sjá frásagnir mbl.is, sem hefur setið öll réttarhöldin í stóra markaðsmisnotkunarmálinu sem snýr að fyrrverandi stjórnendum og starfsmönnum Kaupþings, og hversu berorðar lýsingar sumra fyrrverandi stjórnenda bankans eru á viðskiptum sem nú hefur verið ákært fyrir.
Símtal milli Helga Sigurðssonar, fyrrverandi aðallögfræðings Kaupþings, og Bjarka Diego, fyrrverandi framkvæmdastjóra útlána hjá bankanum, sem spilað var í dómsal í dag, verður að teljast óvenjulegt.
Í apríl 2010 ræddu Helgi og Bjarki saman í síma, meðal annars um kaup félagsins Desulo Trading á hlutabréfum í Kaupþingi. Kauping voru alfarið fjármögnuð af Kaupþingi. Í símtalinu segir Helgi orðrétt: „Þarna er bókstaflega verið að “plassera” bréfum. Þetta eru svo augljóslega sýndarviðskipti ef það átti ekkert fé að koma til þarna og það var ekki einu sinni rætt.”
Helgi sagði í vitnastúku að hann hefði ekki haft neinar forsendur til þess að vera tjá sig um þessi mál, og hann þekkti ekkert til þessarar lánafyrirgreiðslu. Þetta hefðu bara verið „fabúleringar“ á milli þeirra tveggja, á þessum tímapunkti.
Það verður spennandi að sjá hvernig dómarar í fjölskipuðum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur munu taka á þessu að lokum...