Í deiglunni er herferð gegn landinu. Hún hefur ýmsar birtingarmyndir:
- Landsnet ræðir um raflínur yfir hálendið;
- Atvinnumálanefnd Alþingis vill fleiri virkjanir;
- Orkustofnun setur inn á 3. áfanga Rammaáætlunar fjölda virkjana bæði í verndarflokki og biðflokki;
- Landsvirkjun ræðir um byggingu fleiri virkjana;
- Fjárfestar staglast á um sæstreng;
- Ráðherrar tala um meiri stóriðju;
- Bankar eru með orkudeildir þar sem spekúlerað er með orkuframtíðir.
Til þess að ná þessu öllu fram þarf að fara í stórar virkjanaframkvæmdir. Fólk virðist vilja virkja allt, alveg sama hvar það er. Skítt með náttúruna eða náttúruvernd. En til hvers að byggja öll þessi orkuver?
- Áttatíu prósent orkunnar fer nú þegar til stóriðju á spottprís (um 30% af orkuverði til stóriðju í Evrópu).
- Flest þessara stóriðjufyrirtækja borga engan skatt á Íslandi (t.d. Alcoa) vegna skattaívilnana sem fávísir ráðamenn sömdu um og hagræðinga sem stórfyrirtæki nýta sér í fjárflutningum.
- Íslendingar eiga ekki 1% í þessum fyrirtækjum, þannig að allur arður fer úr landi.
Það fer ekki framhjá neinum að í þessari umræðu virðast fáir vera að velta fyrir sér virði ósnortinnar náttúru, nema útvistarfélög og náttúruverndarfélög. Hvernig komumst við sem þjóð á þann stað að tengingin við náttúruna er rofin? Er meirihluta ráðamanna og þjóðfélagsins alveg sama um náttúru Íslands – jafnvel þjóðernissinnuðum Framsóknarmönnum?
Sem betur fer er fólk að vakna til vitundar og í dag fimmtudaginn 16. apríl verður haldin skemmtileg stórhátíð í Háskólabíói kl. 20 undir heitinu Paradísarmissir? Hátið til verndar hálendis Íslands. Ég hvet alla til að koma. Nú þegar hafa yfir 2000 manns ,,lækað” viðburðinn á fésbók. Nú er að duga eða drepast. Komandi kynslóðir munu líta til baka og velta fyrir sér hvað við vorum að hugsa ef okkur tekst ekki að vernda gersemar þessa fallega lands okkar.
Höfundur er prófessor í jarðvísindadeild Háskóla Íslands og meðlimur í stjórn Framtíðarlandsins.