Það vakti töluverða athygli í vikunni þegar DV birti mynd af bifreið Gylfa Arnbjörnssonar, forseta ASÍ, þar sem henni er lagt í stæði fyrir hreyfihamlaða fyrir utan höfuðstöðvar stéttarfélagsins Eflingar. Gylfi gekkst við því að bifreið hans hafi verið í stæðinu en þrætti fyrir að um lagningu hafi verið að ræða, þar sem hann hafi einungis stoppað stutt til að henda poka inn um dyrnar.
Í Bakherberginu tóku menn og konur hins vegar eftir því að bifreiðin sem lagt er með ólögmætum hætti í stæði hreyfihamlaðra er Toyota Land Cruiser. Ástæða þess er að DV sagði frétt í febrúar 2011 að verkalýðsforkólfurinn hefði lent í hremmingum upp á Kili á rándýrum Land Cruiser jeppa sínum. Gylfi brást ókvæða við þessum ávirðingum og sendi frá sér yfirlýsingu. Í henni kom meðal annars fram:
„Ég get alls ekki unað því að almenningi sé með svo óábyrgum hætti talið trú á að ég aki um á Toyota Land Cruiser jeppa þegar hið sanna er að ég hef lengi verið annálaður Nissan Patrol aðdáandi. Líklegt er að ég muni, auk þess að þessi frétt verði dæmd dauð og ómerk, krefjast miskabóta af hálfu DV með þeim hætti, að blaðinu verði gert að kaupa bifreiðina á eigin verðmætamati".
Miðað við bifreiðina sem Gylfi lagði í stæði hreyfihamlaðra virðist Patrol-maðurinn hafa skipt um skoðun gagnvart Land Cruiser jeppunum.