Yfirlýsingin „Je suis Charlie“ eða „Ég er Charlie“ hefur hljómað í fjölmiðlum og á öllum samskiptamiðlunum síðan ráðist var inn á ritstjórnarskrifstofu Charlie Hebdo í París þann 7. janúar sl. og fjöldi blaðamanna drepinn.
Þegar við lýsum því yfir að við séum Charlie er afar mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því að við erum ekki með því að lýsa því yfir að við séum sammála öllum þeim skoðunum og sjónarmiðum sem fram koma. Yfirlýsing okkar gefur til kynna að við séum hlynnt málfrelsi og réttinum til tjáningar, jafnvel þó að við séum algjörlega ósammála því sem sagt er. Við viljum með því leggja áherslu á frelsi, lýðræði og mikilvæg
Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar.
mannréttindi og standa vörð um það samfélag sem við búum í. Með því að segja „Ég er Charlie“ erum við einnig að verja þá tjáningu sem móðgar, hneykslar og raskar hugarró fólks af því að fjölmiðlar þurfa stundum að gera það líka.
Það er þó jafnframt mikilvægt að halda því til haga að tjáningarfrelsið á sér mörk og því er hvergi í hinum vestræna heimi heimilt að segja hvað sem er. Sá sem viðhefur ummæli ber jafnframt á þeim ábyrgð fyrir dómi. Þannig eru skorður settar tjáningarfrelsinu t.d. til varnar friðhelgi einkalífs, hatursorðræðu, meiðyrðum, lýðheilsusjónarmiðum og allsherjarreglu.
Penninn máttugri en sverðið?
Því hefur verið haldið fram að penninn sé máttugri en sverðið. Í okkar vestræna samfélagi er enn samfélagslegur sáttmáli um að sverði verði ekki beitt gegn penna. Þessi samfélagssáttmáli var rofinn í París í byrjun janúar og við erum öll slegin yfir þeim voðaverkum sem þar voru framin.
En við þurfum einnig að velta því vel fyrir okkur hvaða áhrif þessi atburður mun hafa á tjáningarfrelsið og önnur borgarleg réttindi okkar. Við vorum enn sem oftar minnt á að til eru einstaklingar sem eru svo uppfullir af hatri og sjálfhverfri stærisýki að þeir eru tilbúnir að drepa saklaust fólk sem hefur gert það eitt að teikna og skrifa það sem sumum finnst móðgandi og ósmekklegt en öðrum finnst réttlætanleg ádeila í formi háðs.
Höfum í huga að tjáningarfrelsi er ekki allstaðar sjálfsögð mannréttindi. Meirihluti mannkyns býr við skert tjáningarfrelsi og þar með mannréttindi.
Höfum í huga að tjáningarfrelsi er ekki allstaðar sjálfsögð mannréttindi. Meirihluti mannkyns býr við skert tjáningarfrelsi og þar með mannréttindi. Það tók hundruð ára að ná fram þeim réttindum sem við nú njótum á Vesturlöndum og sem þykja svo sjálfsögð. Almenningur í Evrópu þurfti lengi að berjast við stjórnvöld, forréttindastéttir og kirkju til að öðlast þau réttindi til frjálsra skoðana og tjáningar sem nú eru varin í stjórnarskrám vestrænna ríkja, í 10. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu og í 19. gr. Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna.
En tökum við tjáningarfrelsi og öðrum mannréttindum sem of sjálfsögðum hlut? Þegar málið er ígrundað, þá hafa þau mannréttindi sem okkur þykja svo sjálfsögð á Vesturlöndum aðeins verið til í rúma öld, eða eitt andartak af mannkynssögunni. Og slík mannréttindi eru langt frá því að hafa náð til alls heimsins.
Hvað ber að varast?
Þó að heimsbyggðin standi nú upp og segi „Ég er Charlie“ í kjölfar voðaverkanna í París er þó hætta á að þrengt verði að tjáningarfrelsi og þar með mannréttindum í vestrænum samfélögum vegna ört vaxandi styrks sérhagsmunahópa, örrar tækniþróunar og nýrra ógna við samfélögin utanfrá og innan. Þessi þróun er svo hröð að við höfum ekki tíma né getu til að aðlaga hana að mannréttindum og gæta að frelsi einstaklinga og þannig viðhalda þeim grundvallar réttindum sem við höfum öðlast.
Ríkisstjórnir í hinum vestræna heimi hafa gripið til varnaraðgerða til að stemma stigu við öfgahópum sem virðast svífast einskis til að ógna samfélagi Vesturlanda. En einmitt þessar varnaraðgerðir virðast leiða til sífellt aukins eftirlits og takmarkana á því sama tjáningarfrelsi og mannréttindum sem aðgerðunum er ætlað að verja. Ýmsir hafa því spurt hvort meðalið sé hugsanlega verra en sjúkdómurinn.
Þeir sem ekki hugnast hið opna vestræna samfélag mannréttinda gera sér mjög vel grein fyrir því hvað samfélag okkar er í raun brothætt. Þeir hafa það því beinlínis á stefnuskrá sinni að nýta óhefta grimmd, voðaverk og hræðsluáróður til að veikja öryggiskennd Vesturlandabúa með það að markmiði að búa til trúverðuga ógn við öryggi hins almenna borgara. Með því skapa þeir hræðslu sem síðan eykur fordóma og öfgar í samskiptum hinna mörgu samfélagshópa fjölmenningarsamfélaga Vesturlanda og þar með upplausn, sem er gróðrarstía tilveru þessara sömu öfgahópa.
Það má spyrja hvort takmarkið með árásinni hafi einmitt verið að skapa tortryggni í garð múslima í Evrópu til að fjölga þeim einstaklingum innan samfélags múslima sem verða ginkeyptari fyrir áróðri öfgamannanna. Í andrúmslofti hræðslu og haturs er einstaklingurinn frekar tilbúinn til að gefa eftir mannréttindi og tjáningarfrelsi gegn loforðum um aukna vernd og öryggi. Því má spyrja hvort meintar móðganir gagnvart Múhameð spámanni sé hugsanlega aðeins hagkvæm ástæða frekar en orsakavaldur árásar og því aukaatriði í stóra samhenginu.
Sterkasta vopn öfgamanna er þannig að skapa mikinn hrylling og beina aðgerðum að almenningi til að hann lifi sig inn í skelfingu fórnarlambanna. Þannig skapar hann upplausn með litlum fórnarkostnaði. Hryðjuverk eru því miður gamalt og margreynt herbragð til að skapa ótta og sundrung í samfélögum.
Í stóra samhenginu eru hryðjuverk hvorki stór hernaðarleg ógn í hinum vestrænu samfélögum, né eru þau nýjung. Í mannkynssögunni hefur slíku bragði margsinnis verið beitt og þá oft leitt af sér meiri harðstjórn og mannréttindabrot sem síðan vekja borgara til andstöðu við ríkjandi stjórnvöld.
Það deyja margfalt fleiri af völdum umferðaslysa, reykinga eða velmegunarsjúkdóma á Vesturlöndum en af völdum hryðjuverka. Það er óttinn sem grimmdin skapar sem er hættuleg okkar vestræna samfélagi. Fólk lifir sig inn í tilfinningaríkan fréttaflutning og á auðvelt með að setja sig í spor fórnarlamba og ýkir hættuna fyrir sig sjálft. Hryðjuverk geta því breytt samfélögum. Við slíkar aðstæður þurfa fjölmiðlar sérstaklega að gera sér grein fyrir ábyrgð sinni.
Tjáningarfrelsi eru mannréttindi sem þarf að hlúa að og viðhalda
Við þurfum að minna okkur á að tjáningarfrelsi eru ekki sjálfsögð borgaraleg réttindi í flestum ríkjum heims. Ritskoðun er stunduð að hálfu hins opinbera víða um lönd. Þannig á sér stað mjög umfangsmikil ritskoðun í ríkjum eins og Kína. Fréttamenn eru ofsóttir í mörgum ríkjum heims, fangelsaðir og teknir af lífi. Samtökin Blaðamenn án landamæra, sem hafa aðsetur í París, hafa t.d. ítrekað bent á stöðu blaðamanna í Rússlandi. Þar var 21 blaðamaður myrtur í landinu á sjö ára tímabili, dauðsföll eru ekki rannsökuð, en blaðamennirnir eiga það sameiginlegt að hafa verið gagnrýnir á stjórnvöld í Moskvu. Svona mætti lengi telja.
Ef við lítum okkur nær þá kemur reglulega upp sú umræða hér á landi og í þeim nágrannaríkjum okkar sem við berum okkur saman við hvort tjáningarfrelsi sé sannanlega virt og hvort fjölmiðlar séu í raun frjálsir. Spurt er hvort eigendur reyni stundum að hafa óeðlileg afskipti af fréttum á ritstjórnum þeirra fjölmiðla sem þeir eiga. Rannsóknarblaðamenn stíga fram og segja frá því að umfjöllun um mál er varða almannahagsmuni hafi ekki verið miðlað, þar sem umfjöllunin komi sér illa fyrir stóra auglýsendur, eigendur miðlanna eða fjárhagslegan grundvöll fjölmiðilsins með öðrum hætti. Umræður eiga sér stað um það hvort einstaklingar eða fyrirtæki með djúpa vasa geti keypt sig frá erfiðri umfjöllun í fjölmiðlum. Jafnframt velta menn fyrir sér stöðu blaðamanna í litlu samfélagi þar sem sömu aðilar eru kaupendur auglýsinga og andlag fréttaumfjöllunar í fjölmiðlinum sjálfum.
Francois Hollande Frakklandsforseti ásamt ýmsum þjóðarleiðtogum í samtöðugöngunni eftir voðaverkin í París.
Viðskiptamódel hefðbundinna fjölmiðla eru að hrynja þar sem almenningur er ekki tilbúinn að greiða fyrir fjölmiðlaefni með sama hætti og áður. Á sama tíma búa margir ríkisfjölmiðlar við mikinn niðurskurð. Þetta gerir að verkum að blaðamenn búa margir hverjir við svo mikla óvissu í starfi sínu að þeir eiga það á hættu að vera sagt upp hvenær sem er. Við slíkar aðstæður er hætta á sjálfsritskoðun. Jafnframt getur verið erfitt fyrir fjölmiðla að sinna því mikilvæga hlutverki sem þeim er ætlað í sérhverju lýðræðisríki. Þessar aðstæður hafa áhrif á allt samfélag okkar. Þær hafa áhrif á lýðræðið og við getum spurt okkur hvaða blaðamenn verði eftir til að vinna úr gríðarlegu magni upplýsinga og matreiða fréttir úr þeim upplýsingum með vönduðum hætti þannig að mörg sjónarmið komi fram samtímis. Blaðamenn sem segja okkur frá þáttum sem varða okkur öll, en sem ef til vill er haldið leyndu að hálfu hins opinbera, fyrirtækja eða annarra sem eiga hagmuna að gæta.
Sannleikurinn er sá að við stöndum reglulega frammi fyrir stærri eða minni hindrunum sem geta haft áhrif á tjáningarfrelsið og frelsi fjölmiðla. Við þessar aðstæður stöndum við sjaldnast upp og segjum „Ég er Charlie“ til verndar frjálsum fjölmiðlum og tjáningarfrelsinu. Við heyrum af litlum eða stærri atvikum hér á Íslandi eða í nágrannaríkjum okkar sem ef til vill valda okkur stundaráhyggjum, án þess að gripið sé til sérstakra aðgerða til að verja tjáningarfrelsið eða frelsi fjölmiðla.
Við getum einnig sett atburðina í París í alþjóðlegt samhengi og minnt okkur á það þegar okkur er misboðið vegna voðaverkanna á ritstjórn skoptímaritsins Charlie Hebdo, að við á Vesturlöndum erum ekki alltaf sjálfum okkur samkvæm. Við teljum okkur trú um að aldrei megi beita sverði að vopni gegn penna. Það eru þó ekki nema 16 ár siðan Nató sprengdi serbneska ríkisútvarpið þar sem 16 starfsmenn fjölmiðilsins létu lífið og fjöldi manna var fastur inn í byggingunni svo dögum skipti. Nató taldi árásina réttlætanlega þar sem fjölmiðillinn gegndi mikilvægu hlutverki í áróðri gegn íbúum Kosovo.
„Ég er Charlie“
Við þurfum öll að vera Charlie. Tjáningarfrelsið er ekki, frekar en frelsi fjölmiðla, sjálfsagður hlutur í sérhverju samfélagi. Tjáningarfrelsi og frelsi fjölmiðla eru réttindi sem þarf að hlúa að og viðhalda og við erum öll samábyrg fyrir því að það sé gert. Yfirlýsingin „Ég er Charlie“ á því ekki aðeins við þegar voðaverk eru framin eins og sá hryllingur sem átti sér stað í París. Við þurfum að vera Charlie í hvert sinn sem við heyrum af því að blaðamenn eru teknir af lífi fyrir það eitt að upplýsa almenning um það sem skiptir hann máli og þegar gagnrýnendur hafa sagt skoðanir sínar opinberlega á stjórnvöldum og eru fangelsaðir í kjölfarið eða hverfa sporlaust.
Við þurfum að vera Charlie þegar ráðamenn reyna að hafa áhrif á gagnrýna umfjöllun í fjölmiðlum, þegar fjölmiðlar eru aðeins að sinna hlutverki sínu sem fjórða valdið.
En við þurfum líka að vera Charlie þegar eigendur skipta sér með óeðlilegum hætti af umfjöllun um einstök mál í fjölmiðlum, þegar auglýsendur hóta að segja upp auglýsingasamningum til að þagga niður í óþægilegum fréttaflutningi sem varðar þá sjálfa, eða þegar upplýst er að einstaklingar eða fyrirtæki séu að kaupa sig frá umfjöllun í fjölmiðlum. Við þurfum að vera Charlie þegar ráðamenn reyna að hafa áhrif á gagnrýna umfjöllun í fjölmiðlum, þegar fjölmiðlar eru aðeins að sinna hlutverki sínu sem fjórða valdið. Við þurfum að segja „Ég er Charlie“ alla daga til að tryggja tjáningarfrelsi og frelsi fjölmiðla í samfélagi okkar ef við ætlum að viðhalda þeim réttindum sem við höfum aflað okkur á löngum tíma. Við þurfum að gera okkur grein fyrir að tjáningarfrelsi og önnur mannréttindi eru dýrmætur en forgenglegur fjársjóður sem okkur ber að verja og vernda með öllum ráðum.
Við verðum sameiginlega að tryggja að penninn verði áfram máttugri en sverðið. Þess vegna þurfum við að segja alla daga „Ég er Charlie“.