Píratar í borgarstjórn hafa í góðri samvinnu fjögurra flokka skilað miklum árangri. Ætla ég fyrir hönd borgarstjórnarflokks Pírata að fara yfir tíu málefni sem standa upp úr á árinu 2021 en þó er af nógu að taka.
1) Efling lýðræðis
Fyrsta lýðræðisstefna Reykjavíkur var samþykkt á árinu. Meðal aðgerða eru róttækar nýjungar eins og íbúadómnefnd, aðgengilegri lýðræðisgátt og borgaraþing auk verkefna sem munu styðja við aukið gagnsæi og lýðræðisþátttöku ungs fólks.
Hverfið mitt gekk í endurnýjun lífdaga með meira samráði, breyttri tímalínu og stærri peningapotti í hvert sinn með fjölbreyttari og stærri verkefnum. Þátttakan hefur aldrei verið betri og tók stórt stökk frá síðustu umferð.
Síðast en ekki síst er lýðræðisvæðing Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og byggðasamlaga sveitarfélaganna eins og Sorpu og Strætó. Píratar komu að nýrri umgjörð sem styrkir lýðræðislega aðkomu kjörinna fulltrúa að stefnumótun og stórum verkefnum byggðasamlaganna með reglulegum stefnuþingum kjörinna fulltrúa sem og stefnuráði.
2) Aukið gagnsæi og aðhald með spillingu
Gagnsjá Reykjavíkur var fullfjármögnuð og hönnuð á árinu og mun fyrsta útgáfa fljótlega líta dagsins ljós sem mun efla upplýsta ákvarðanatöku.
Ný vefsíða var sett á laggirnar með auðskildari texta og þýðingum á önnur tungumál en íslensku.
Reykjavíkurborg er metnaðarfull þegar kemur að vernd uppljóstrara. Ný uppljóstrunargátt var tekin í gagnið hjá Reykjavíkurborg samhliða nýjum reglum um vernd uppljóstrara sem gengur lengra en ný lög um vernd uppljóstrara kveða á um.
3) Loftslagsmálin
Píratar leggja mikið kapp á loftslagsmálin og hefur stefna Pírata í bæði skiptin verið talin best út frá ,,Sólinni,” matskvarða Ungra umhverfissinna.
Breytt aðalskipulag Reykjavíkur var samþykkt á árinu með metnaðarfyllri markmiðum. Að samgöngur verði kolefnishlutlausar án jarðefnaeldsneytis og að hlutdeild einkabílsins fari undir 50% af öllum ferðum.
Píratar áttu lykilþátt í samþykktri loftslagsáætlun Reykjavíkur með meira fjármagni í innviði fyrir gangandi og hjólandi, umhverfisvottuðum hverfum, ræktun loftslagsskóga og endurheimt 60% votlendis fyrir 2040. Hjólreiðaáætlun sem einnig var samþykkt gengur út á aukið fjármagn í gerð hjólastíga, fleiri hjólastæði, aukna vetrarþjónustu á hjólastígum og metnaðarfyllri markmið um hlutdeild hjólreiða.
Píratar voru leiðandi í áætlun um lækkun hámarkshraða og fjölgun vistgatna í borginni til að minnka mengun og bæta öryggi fyrir gangandi og hjólandi.
Á árinu var brúna tunnan fyrir lífræna úrgang loks tekin í gagnið í Reykjavík. Úr þessum úrgangi á að útbúa nýtilega moltu auk metans í nýrri Gas- og jarðgerðarstöð.
4) Skaðaminnkun
Skaðaminnkun er Pírötum hjartans mál en orðið kom varla fyrir í gögnum Reykjavíkur fyrir tíð Pírata í borgarstjórn.
Húsnæði fyrir heimilislausa og fjármagn í málaflokkinn hefur verið tvöfaldað á kjörtímabilinu. Unnið er að því að finna smáhýsunum stað byggt á hugmyndafræði um húsnæði fyrst án skilyrða.
Rótin fékk aukinn fjárstuðning til að styrkja Konukot með mikilvægum endurbótum auk þjónustu við tvö glæný smáhýsi fyrir konur sem staðsett verða við Konukot.
Þau tímamót urðu að borgarstjórn samþykkti að opna neyslurými í Reykjavík. Næsta skref er afglæpavæðing neysluskammta svo réttarstaða notenda sé skýrari enda löglegt að neyta innan veggja neyslurýmis en ólöglegt að bera efni fyrir utan það. Píratar á þingi hafa lagt fram frumvarp þess efnis sem nýtur vonandi brautargengis.
5) Jafnrétti í víðum skilningi
Unnið hefur verið ötullega að jafnrétti í víðum skilningi á árinu undir stjórn Pírata í mannréttindaráði borgarinnar. Borgarstjórn samþykkti aukið fjármagn í hinsegin félagsmiðstöðina svo efla mætti félagsmiðstöðina og mæta aukinni aðsókn.
Áfram heldur þrýstingur á reglugerðarbreytingar vegna innleiðingu laga um kynrænt sjálfræði til að geta haft salerni Reykjavíkur ókyngreind.
Ókyngreindir klefar verið útbúnir í öllum sundlaugum Reykjavíkum og lauk því verkefni loks á árinu.
Gerðar voru leiðbeiningar fyrir starfsfólk íþróttamannvirkja Reykjavíkur til að efla starfsfólkið í því að standa með mannréttindum og koma í veg fyrir óþægilegar upplifanir trans og kynsegin fólks sem geta eðlilega valið um ókyngreinda eða kyngreinda klefa.
Samþykkt var að bjóða upp á fríar tíðavörur í grunnskólum og félagsmiðstöðvum, íslenskukennsla fyrir börn sem tala ekki íslensku var aukin og nýr aðgengissjóður rampaði upp Reykjavík.
6) Stafræn bylting
Risaátak Reykjavíkur í stafrænni byltingu hófst á árinu undir forystu Pírata með tíu milljörðum á þremur árum. Við nýtum tæknina og hugvitið til að nútímavæða og betrumbæta þjónustu á forsendum íbúans og minnka um leið vesen, sóun og mengun.
Reykjavík var á árinu valin ásamt Amsterdam úr hópi borga í Evrópu í stórt stafrænt þróunarverkefni á vegum Bloomberg Philantrophies og Harvard háskóla með sex leiðandi borgum á heimsvísu. Í þessu felst klapp á bakið fyrir vel unnið verk en líka trú á getu borgarinnar til að fylgja eftir metnaðarfullum áætlunum næstu þrjú árin. Þessi fylgdi stór styrkur upp á 2,2 milljónir dollara eða tæpar 300 milljónir króna, ásamt stuðningi helstu sérfræðinga í heimi og mikilvægu samstarfsneti.
7) Myglumál í húsnæði borgarinnar
Útbúinn var nýr verkferill til framtíðar um viðbrögð og verklag og hvernig beri að bregðast við þegar koma upp raka- og myglumál í húsnæði borgarinnar með aðstoð helstu sérfræðinga landsins í málaflokknum.
Þetta er mikilvægur áfangi í því að draga lærdóm af Fossvogsskólamálinu þar sem ýmislegt hefði betur mátt fara varðandi verkstjórn, vinnubrögð, upplýsingamiðlun og samskipti við foreldra. Við erum með þessu að axla okkar ábyrgð svo að öll börn megi búa við heilnæmt húsnæði og líða vel í skólanum.
Að sama skapi var ákveðið að ráðast í mikið viðhaldsátak í skólahúsnæði byggt á heildarúttekt á ástandi skólamannvirkja til komast á undan vandanum. Verið er að verja 25-30 milljörðum í það verkefni á næstu 5-7 árum auk þess sem á að uppfæra og bæta húsnæðisaðstöðuna í skólum og stuðla að algildri hönnun og aðgengi fyrir alla.
8) Málefni dýra
Dýraþjónusta Reykjavíkur sem var ein af kosningaáherslum Pírata fyrir síðustu kosningar var sett á laggirnar á árinu. Þar var öll þjónusta við dýr og dýraeigendur sameinuð á einum stað til að bæta, einfalda og auka skilvirkni þjónustu við dýr og dýraeigendur.
Málefni katta voru með þessu flutt frá Meindýraeftirlitinu og Hundaeftirlitið lagt niður. Samhliða því var hundahald loksins formlega leyft í Reykjavík, hundagjöld lækkuð um allt að helming sem eru nú lægst á höfuðborgarsvæðinu með aukinni fjárfestingu í betri og fleiri hundagerðum.
Með þessu viljum við gera dýrum og gæludýraeigendum hærra undir höfði enda dýr mikilvægur hluti af borgarsamfélaginu.
9) Valdeflum fólk með öflugri velferðarþjónustu
Aðgerðir gegn sárafátækt voru samþykktar í Reykjavík á árinu með auknum stuðningi, rýmkun reglna um fjárhagsaðstoð og aukins sveigjanleika.
Samhliða er stuðlað að betri þjónustu við börn sem eiga foreldra á fjárhagsaðstoð. Skilyrði fyrir styrki vegna náms á framhaldsskólastigi voru rýmkuð og aldursþak fjarlægt í takt við áherslur Pírata. Það valdeflir og aðstoðar fólk við að verða sjálfbjarga en okkar skýrasta dæmi er varaborgarfulltrúinn okkar Rannveig Ernudóttir sem studdi hana sem einstæða móður við að klára stúdentinn.
Á árinu var samþykkt fyrsta velferðarstefna borgarinnar sem unnin var í þverfagegri samvinnu við notendur og snýst um aðgengilega velferðarþjónustu út frá þörfum hvers og eins.
Öll áhersla var lögð á að tryggja efnaminni hópum þak yfir höfuðið. Borgin hefur úr að skipa 78% félagslegra íbúða á höfuðborgarsvæðinu en þó aðeins 56% íbúa. Reykjavík byggir langmest af íbúðum fyrir efnaminni hópa byggt á lögum um almennar íbúðir í samvinnu við meðal annars verkalýðshreyfinguna og stúdenta eða 73% slíkra íbúða á öllu landinu en 86,7% á höfuðborgarsvæðinu.
10) Jafnrétti til náms
Nýtt og gagnsærra grunnskólalíkan var samþykkt á árinu með fullfjármögnuðum grunnskólum til að mæta börnum óháð greiningum og grípa þau með snemmtækri íhlutun að leiðarljósi. Með þessu er tekið mið af félagslegum aðstæðum í hverfum svo að öll börn hafi sömu tækifæri óháð efnahag.
Við höfum á árinu tekið skref í átt að bættri þjónustu við börn þar sem kerfin vinna þvert á að þeirra velferð á hverfisgrundvelli með verkefninu Betri borg fyrir börn.
Píratar leiddu gerð nýrrar og metnaðarfullrar stefnu um framtíð tónlistarnáms með áherslu á aukið aðgengi barna að tónlistarnámi óháð efnahag með eflingu skólahljómsveita, stofnun barnakóra og fjölgun plássa í tónlistarskólum.
Nú árið er liðið
Píratar í borgarstjórn hafa sannarlega lagt sín lóð á vogarskálarnar til að skapa réttlátara, grænna og betra lífsgæðasamfélag fyrir öll með gagnsæi og lýðræði að leiðarljósi. Síðan Píratar settust í borgarstjórn árið 2014 hefur margt í borginni breyst til hins betra en á núverandi kjörtímabili bættist enn í kraftinn með auknum liðsstyrk Pírata. Árið 2021 var sérstakt ár sem mótaði líf okkar allra en við nýttum það til góðs.
Gleðileg jól kæru borgarbúar og Íslendingar allir. Gott og farsælt komandi ár með kærri þökk fyrir það sem er að líða.
Höfundur er oddviti Pírata í Reykjavík.