Eins og flestir vita hafa Píratar notið vaxandi fylgis í skoðanakönnunum undanfarna mánuði. Sumir vilja afgreiða það sem bólu, en aðrir eygja í þeim von um að þær kerfisbreytingar sem þeir boða geti komið okkur úr þeim pólitíska rembihnút sem lamar íslenska samfélagsþróun. Kerfisbreytingar sem leggi samfélaginu til tæki og tól til að taka á og skera úr stórum málum sem hafa þvælst fyrir okkur allt of lengi. En með þessu fylgi kemur líka áskorun um ábyrga stefnu í mikilvægum málum sem varða land og þjóð. Nýverið tókum við skref í átt til að axla þá ábyrgð með stefnu í einum mikilvægasta málflokki landsins, sjávarútvegsmálum.
Því fer fjarri að sátt hafi ríkt um málaflokkinn undanfarna áratugi, sérstaklega eftir árdaga kvótakerfisins, þegar kvótinn, óveiddur fiskur í sjónum, varð að markaðsvöru og einhvers virði. Veðsetning á kvóta til ýmiss brasks, og áhrif þess á þensluna sem olli hruninu, magnaði óánægju og tortryggni í samfélaginu sem náði svo nýjum hæðum eftir hrun, þegar gengisfelling krónunnar varð til þess að hagnaður greinarinnar óx gríðarlega, um og yfir 20% hreinn hagnaður á hverju ári, með tugmilljarða arðgreiðslum, án þess að veiðileyfagjöld hækkuðu svo nokkru næmi.
Einn mikilvægasti hluti stefnu Pírata er að ákvæði frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnskipunarlaga verði efnislega tekið upp í stjórnarskrá. Þeir þættir sem mesta athygli hafa vakið eru hins vegar þeir að kvóta verði úthlutað í gegnum uppboðsmarkað og allur fiskur fari á markað. Þessi markaðslausn er algjörlega í samræmi við eina meginkröfu Pírata um gegnsæi. Gegnsæ verðmyndun verður ekki nema til staðar sé opinn markaður með fullu aðgengi allra. Samtök útgerðarmanna hafa talað gegn hærri veiðileyfagjöldum á þeim forsendum að útgerðin standi ekki undir þeim – látum bara markaðinn, þá sjálfa, skera úr um hve háum veiðigjöldum hún stendur undir. Þar með verður líka stórt skref tekið í að eyða tortryggninni í samfélaginu.
Hér á eftir langar mig að fjalla um nokkur algeng rök sem talsmenn útgerðarinnar (og ríkisstjórnarinnar) hafa notað til að réttlæta núverandi kerfi:
„Uppboðsmarkaður á kvóta veldur óstöðugleika í greininni, sem kemur í veg fyrir að nokkur fyrirgreiðsla fáist og þar með lokast fyrir alla fjárfestingu.“
Þúsundir fyrirtækja um allan heim vinna í umhverfi þar sem aðgengi að ýmsum aðföngum og hráefni er háð markaðsverði. Vel rekin fyrirtæki í slíku umhverfi eiga ekki í erfiðleikum með fyrirgreiðslu til fjárfestinga. Stóru íslensku sjávarútvegsfyrirtækin virðast alveg kunna sitt fag, auk þess sem eiginfjárstaða þeirra hefur batnað gífurlega undanfarin ár. Þeim er því engin vorkunn. Þá er viðkvæðið gjarnan að afkoma lítilla og meðalstórra fyrirtækja sé ekki upp á marga fiska og þau þoli ekki hækkanir veiðigjalda. Meðaltölur um afkomu lítilla fyrirtækja eru eðlilega lágar – eins og í öllum öðrum rekstri eiga ný fyrirtæki erfitt uppdráttar og fara flest á hausinn. Mun færri fyrirtæki ná að gera það gott og verða stór. Uppboðsmarkaður auðveldar aðgengi nýrra fyrirtækja að greininni, þar sem þau þurfa ekki að skuldsetja sig upp fyrir haus í kvótakaupum áður en þau dýfa veiðarfæri í sjó.
„Greinin leggur nú þegar nægilega mikið til samfélagsins í gegnum beina og óbeina skatta."
Framlag útgerðarfyrirtækja í gegnum skatta, skattasporið, er undarleg rökleysa í þessu samhengi. Afhending á kvóta undir markaðsverði er niðurgreiðsla á kvóta. Skattagreiðslur fyrirtækis eru ekki réttlæting á niðurgreiðslu á kvóta – þvert á móti ætti skattasporið að vera vísbending um hið gagnstæða, að slík niðurgreiðsla sé ónauðsynleg.
„Ekki er neitt réttlæti í því að ríkið leysi til sín kvótann, þar sem hann hefur skipt svo oft um hendur – handhafar hans í dag hafa flestir greitt fyrir hann.“
Kvóti á uppsjávarfiski, síld, loðnu og makríl, hefur ekki skipt um hendur í neinum mæli, en vissulega hafa margir duglegir einstaklingar lagt mikið á sig við að byggja upp fyrirtæki innan núverandi kerfis og skuldsett sig í kvótakaupum á botnfiski. Öll slík viðskipti hafa þó átt sér stað í pólitísku andrúmslofti ósættis, þar sem engin trygging var fyrir að um varnalega eign væri að ræða. En til að ná einhverri sátt þarf að semja um aðlögunartíma þessara breytinga.
„Stórir og fjársterkir aðilar munu kaupa upp kvótann, sem mun safnast á hendur fárra.“
Fullyrðingar um að stórir aðilar muni kaupa upp allan kvótann, fari hann á uppboð, hafa gjarnan heyrst af vinstri væng stjórnmálanna. Ég ímynda mér að LÍÚ-menn hafi brosað í kampinn í gegnum tíðina vegna þessara óvæntu bandamanna „auðvaldsins“, sem hafa þannig staðið gegn breytingum á kerfinu. Það er tiltölulega einfalt að útfæra uppboð á þann hátt að þátttakendur greiði lítinn hluta af verðinu fyrirfram, afgangurinn sé síðan innheimtur við sölu á markaði, sem gerir minni aðilum kleyft að taka þátt. Þegar eru til staðar reglur um hámarkseign fyrirtækja og skyldra aðila á kvóta og sjálfsagt að þær gildi áfram til að koma í veg fyrir samþjöppun.
„Breytingin mun valda byggðaröskun“
Ekki er nein ástæða til að ætla að þessi breyting hafi einhver áhrif til byggðaröskunar, umfram það sem núverandi kerfi hefur haft. Það eru gríðarlega sterk fyrirtæki í Vestmannaeyjum, Neskaupsstað, á Akureyri og víðar – vel rekin fyrirtæki sem munu eflaust gera það gott áfram. Eins og var áður nefnt, verður auðveldara fyrir nýja aðila að fara út í útgerð eftir þessar breytingar og minni útgerð þrífst best í nánd við miðin í kringum landið. Að auki má útfæra kerfið á þann hátt að hluti veiðileyfagjaldsins renni til sveitarfélaganna, til að skapa frekari sátt um málið.
„Allur afli á markað kemur í veg fyrir samþættingu veiða og vinnslu, en samþætting veiða, vinnslu og markaðssetningar er mjög hagkvæm fyrir greinina.“
Samþætting veiða, vinnslu og markaðssetningar er örugglega mjög hagkvæm, sérstaklega í grein sem fellur ekki undir samkeppnisstofnun og samkeppnisreglur. Svona eins og samráð olíufélaganna sem komst upp hérna um árið – það var mjög hagkvæmt fyrir olíufélögin, nema hvað þau falla undir samkeppnislög og voru sektuð fyrir vikið. Hinir augljósu vankantar á kerfinu eru ógagnsæ verðmyndun, en laun sjómanna eru byggð á aflaverðmæti, fiskvinnslum er mismunað, þar sem fiskvinnslur án útgerðar hafa mun takmarkaðri aðgang að hráefni, sem skekkir samkeppnisstöðu þeirra. þá býður það upp á alls konar bókhaldsfiff, taka út hagnað í erlendu markaðsútibúi þar sem er hagkvæmara skattaumhverfi (auk þess sem auðvelt er að skjóta einhverju framhjá gjaldeyrishöftum), svo eitthvað sé nefnt. Fyrirkomulagið er hagkvæmt fyrir fyrirtækin sem eiga veiðar og vinnslu, en ekki fyrir fiskvinnslur sem eru ekki í útgerð. Fiskurinn í sjónum er takmörkuð auðlind, en vinnslumöguleikar eiga sér lítil takmörk. Því er eftirsóknarvert og þjóðhagslega hagkvæmt að það verði gróska og sérhæfing í fiskvinnslu, sem leiðir til virðisaukningar á takmarkaðri auðlind. Auk þess að brjóta í bága við samkeppnisreglur sem gilda um önnur fyrirtæki í landinu, og hjá þeim þjóðum sem við viljum bera okkur saman við, leiðir núverandi kerfi til mun einsleitari framleiðslu en gæti mögulega verið.
Talsmenn kerfisins hafa sumir gagnrýnt okkur fyrir skort á nákvæmari hugmyndum og útfærslu. Því má svara með að kröfu um gegnsæi og réttlátt viðskiptaumhverfi þarf ekki að fylgja útfærsla til að teljast réttmæt. Við höfum markmið, leiðirnar að því geta verið fleiri en ein. Of nákvæm útfærsla eins flokks í pólitísku landslagi, þar sem endanlega útfærsla er sett niður í samstarfssamningi tveggja eða fleiri flokka, hefur auk þess lítið upp á sig. Á komandi mánuðum treystum við líka á að ríkisstjórnarflokkarnir og fulltrúar SFS setji fram sína gagnrýni og aðfinnslur og hjálpi okkur þannig við að koma með eins skothelda útfærslu og hægt er.
Höfundur er framkvæmdastjóri Múltikúlti - málamiðstöðvar, situr fyrir Pírata í endurskoðunarnefnd um mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar og er varamaður í mannréttindaráði og fjölmenningarráði.