Stærsti ótti margra sem nýttu ástandið í fyrra til að kaupa íbúð, stækka við sig eða endurfjármagna eru hækkandi vextir og of þung greiðslubyrði. Fólk tók langtímalán á lágum vöxtum sem komu til vegna efnahagsáfalls. Vaxtaþróun til næstu ára skiptir verulegu máli. Áframhaldandi hiti á fasteignamarkaðnum mun ekki hjálpa.
Fasteignaverð er stór liður í verðbólgu. Kostnaður við að leigja íbúð eða borga af fasteignaláni hefur mikil áhrif á launakröfur fólks, enda stærsti kostnaðarliðurinn í heimilisbókhaldinu hjá langflestum. Í ofanálag leiðir hærra fasteignaverð til hærri fasteignaskatta fyrir þá sem eru nú þegar á markaðnum. Síhækkandi fasteignaverð, langt umfram eðlilegar verðlagshækkanir, skapar þannig vítahring almennra útgjalda, launahækkana og verðbólgu – og þar með vaxtahækkana. Það er því enginn óhultur þó gluggi hafi myndast í kreppuvöxtum í fyrra.
Vissulega hækkar núverandi eign í verði, en það gerir líka sú næsta sem þú hefur augastað á. Þá hefjast áhyggjur af börnunum. Því hér á landi er að festast sú krafa í sessi að heimili komi sér upp fasteignasjóði fyrir unga fólkið.
Fólki er seld sú saga að hver og einn eigi að sjá um sig og sína, það sé ekki til neitt samfélag, aðeins einstaklingar og fjölskyldur. Við eigum hliðstætt dæmi í Bandaríkjunum þar sem eignastaða foreldra ákvarðar hversu góða menntun ungmenni fá og foreldrar byrja að leggja fyrir í háskólasjóð um leið og barnið fæðist.
Samt sendir húsnæðisstefna stjórnvalda þau skilaboð til fólks að gríðarlegar verðhækkanir á húsnæðisverði séu almenningi í hag. Húsnæðisúrræðin ganga öll út á að binda sem mest fjármagn í steypu og bíða eftir að eignin hækki og hækki og hækki. Mynda þannig stöðugleika í heimilisbókhaldinu, með auknu eigin fé. Þetta er selt sem núllsummuleikur þar sem ávinningur eins hljóti alltaf að vera á kostnað annars. Fólk er hvatt til að hlaupa út á markaðinn og yfirbjóða í eignir þegar kreppa skellur á og vextir lækka tímabundið. Eðlilegt sé að hópum sé kýtt saman á markaðnum, tekjulágum á móti ungum kaupendum sem dæmi.
Ótrúlegt en satt þá þarf þetta ekki að vera svona. Stefna sem stillir af hækkanir á lægri enda fasteignamarkaðarins, styður við tekjulága og eykur framboð félagslegs húsnæðis skapar kjölfestu á fasteignamarkaðnum. Kemur í veg fyrir að verðhækkanir leki upp allan markaðinn. Dregur úr fasteignaverðbólgu, launaverðbólgu og heldur þannig vöxtum, vaxtakostnaði og greiðslubyrði allra í skefjum til lengri tíma.
Þetta er bæði réttlætismál og góð hagstjórn. Gott fyrir heimilisbókhald allra sem líta á fasteignina sína sem það sem hún á að vera: húsaskjól á viðráðanlegum kjörum. Gott fyrir fólk sem nægir eitt þak yfir höfuðið, stórt sem smátt.
Samfylkingin vill að ríkið skapi kjölfestu á fasteignamarkaði með langtímasýn að leiðarljósi, ekki eins kjörtímabils reddingu. Smelltu hér ef þú vilt vita hvernig húsnæðismarkaðurinn raunverulega virkar og hvað er til ráða.
Höfundur er hagfræðingur og leiðir lista Samfylkingarinnar í Reykjavík suður í komandi alþingiskosningum.