Sjaldan eða aldrei hafa ljósmyndir hreyft jafn mikið við mér og ljósmyndir franska ljósmyndarans Julien Joly sem kunningi minn birti á Facebook fyrir rúmu ári.
Joly hafði farið á Hornstrandir með hópi fólks til að kanna ástand refsins. Í stað þess að halda heim með myndir af heimskautarefnum, eins og til stóð, og ósnortinni náttúru Íslands hélt Joly aftur heim til Frakklands með nægt myndefni til að setja upp sýningu um rusl á Hornströndum í heimaborg sinni Rennes á Bretagneskaga.
„Ég hélt að staðir á borð við Hornstrandir hefðu fengið að vera í friði fyrir eyðandi hönd mannsins og plastmengun,“ sagði Joly mér þegar ég tók viðtal við hann fyrir fréttabréf Upplýsingaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna þar sem ég starfa. „Það kom ekki síður illa við mig”, bætti hann við, „að sjá plast í maga fugla og sjávardýra”.
6 og hálft tonn af plastrusli
Af þessum sökum gladdi það mig mjög þegar ég frétti að Vestfirðingar hefðu tekið höndum saman og gert hreinsunarátak á þessum slóðum. Í fréttum RÚV fyrir viku sagði að færri hefðu komist að en vildu og hefðu orðið að afþakka vinnukraft 60 manna því ekki hafi verið pláss í bátnum sem ferjar hreinsunarhópinn á svæðið. Afraksturinn var hálft sjöunda tonni af plastrusli.
Tómas Knútsson forsprakki samtakanna Bláa hersins sem hreinsað hafa strendur landsins undanfarin ár, sagði mér að ljósmyndir Julien Joly gæfu rétta mynd af ástandinu og hvarvetna væri að finna í fjörum plast, veiðarfæri, hjólbarða og fleira. „Matarumbúðir sem finnast, eru frá mörgum þjóðlöndum ef maður dæmir það út frá prentuðu máli á umbúðunum.”
Tómas segir hins vegar að veiðarfærin séu að mestu frá íslenskum skipum. „Sjómenn henda miklu rusli í hafið þó svo að til séu útgerðir sem banna slíkt alfarið.“
Blái herinn hefur notið stuðnings Samtaka fyrirtækja í sjávarútegi (áður LÍÚ) en þau hafa um árabil barist fyrir því að uppræta mengun frá íslenskum fiskiskipum, auk þess að hreinsa fjörur kerfisbundið og safna veiðarfærum úr gerviefnum. „Okkur er ekki kunnugt um að nokkur önnur fiskveiðiþjóð hafi tekið þessi mál eins föstum tökum og við Íslendingar,“ sagði Guðlaugur G. Johnsen, tæknifræðingur hjá SFS mér.
Risastórar hringiður úr plasti
Hornstrandir eru þekktar fyrir rekavið sem berst til Íslands, ekki síst frá Síberíu. Á ljósmyndum Julien Joly sést plastdrasl með kínverskum áletrunum og guð má vita hvar Kínverjarnir voru staddir sem misstu eða fleygðu plastbrúsum í sjóinn.
Þetta er hins vegar til marks um að þegar hafið er annars vegar mega landamæri og lögsögur sín lítils.
Stærð vandans sést á því að nú er talað um að ný meginlönd hafi myndast úr aragrúa örsmárra plastagna sem safnast saman í risastórum hringiðum á úthöfunum. Margir halda að þessar plasthringiður sjáist auðveldlega en svo er í raun ekki. Plastið er svo smátt að það sést oft og tíðum ekki með berum augum en er hins vegar skeinuhætt sem best sést á fjölda dauðs fiskjar, fugla og sjávarspendýra sem eru hluti af plast-hringiðunum.
70 milljónir plastpoka
En hvað getur venjulegt fólk gert til þess að vernda höfin ? Vandinn er vissulega alþjóðlegur en breytingar byrja heima. Þar er fyrst til að taka að talið er að Íslendingar nota 70 milljónir einnota plastpoka á ári. Að meðaltali er hver plastpoki notaður í 25 mínútur en það getur tekið 100 til 500 ár fyrir plastið að brotna niður. Stærstur hluti plastsins endar í landfyllingum en eins og allir þekkja fjúka plastpokar auðveldlega út í buskann og heimilisfang þessa fræga "buska" er oftar en ekki hafið í kringum landið.
En plastið getur auðveldlega snúið aftur heim og lent á diskum landsmanna sem örsmáar agnir sem fiskar eða önnur sjávardýr hafa gleypt. Og plast getur þannig borist inn í vefi líkamans.
Tillaga til þingsályktunar um að draga úr notkun plastpoka, sem Margrét Gauja Magnúsdóttir, varaþingmaður Samfylkingar bar fyrst fram, dagaði upp í þinginu í fyrra og sömu örlög virtust bíða hennar þegar þær fréttir bárust frá Strassbúrg í Frakklandi að Evrópuþingið hefði samþykkt aðgerðir til höfuðs þunnum plastpokum.
Bergþóra Njála Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi Umhverfisráðuneytisins tjáði mér að samþykktin myndi hafa áhrif á Íslandi, en málinu er þó ekki lokið því aðildarríkjum Evrópusambandsins og EES ríkjunum er i sjálfsvald sett hvernig útfærslan verður.
Ekki er sopið káli fyrr en í ausuna er komið en þetta eru þó sannarlega góðar fréttir. Í dag, 5.júní er haldið upp á Alþjóðlega umhverfisdaginn og á mánudag 8.júní er haldið upp á Alþjóðlegan dag hafsins. Af því tilefni hafa Sameinuðu þjóðirnar,Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Evrópustofa og Félag Sameinuðu þjóðanna tekið höndum saman um að sýna kvikmyndina Plast strendur (Plastic shores) í Bíó Paradis 8.júní klukkan 8 og verða umræður á eftir sýningu myndarinnar en aðgangur er ókeypis.
Hinar vel heppnuðu aðgerðir á Hornströndum benda að vitundarvakning hafi orðið hér á landi í þessum efnum og vonandi sjá sem flestir sér fært að mæta í Bíó Paradís til að sýna að hafið skiptir okkur Íslendinga máli.
Sjá nánar um sýningu heimildarmyndarinnar Plast-strendur.
Þingsályktunartillaga um að draga úr plastpokanotkun.