Þann 10. mars birtist grein í Fréttablaðinu með fyrirsögninni „Stærð hvalsheilans markast af hitamyndun en ekki greind“. Þarna er verið að vitna í Karl Ægir Karlsson, sem er prófessor við tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík.
Ef satt reynist, þá eru hér á ferðinni stórbrotin tíðindi, sem marka þáttaskil í skilningi náttúrufræða hvers konar á hlutverki heilans, einkum í svokölluðum æðri spendýrum, sem hvalir eru svo sannarlega.
Þessi merka uppgötvun ætti þannig að vera á forsíðum allra virtra vísindalegra tímarita, sem láta sig rannsóknir á spendýrum varða.
Reyndar verður að segjast eins og er, að það er mjög furðuleg hugmynd að einhver sérfræðingur – prófessor eður ei – haldi að sú skoðun sé ráðandi, að stærð heila hvala markist af „greind“ þeirra.
Stærð heila sem hlutfall af líkamsþyngd getur verið vísbending um greind. T.a.m eru krákur og sumir mávar af algerlega sambærilegri stærð augljóslega ekki jafn góðum gáfum gæddir. Krákur geta borið kennsl á sig í spegli. Þær hafa sjálfsmeðvitund.
En það eru engin dæmi þess að fræðasamfélagið ætli að greind ákvarði stærð heila. Hvað þá að varmaframleiðsla heilans ákvarði öðru fremur stærð heila hvala og þ.a.l. nauðsynlegan skort á greind hvalanna.
Vitanlega mun svona bull aldrei verða birt í sómakærum vísindatímaritum.
Við frekari lestur kemur í ljós að prófessor Karl Ægir er þarna undir handleiðslu Ástralans Paul Manger, en þeir voru víst samnemendur við hinn virta háskóla UCLA, þar sem félagarnir rannsökuðu svefn.
Nema hvað. Margir hvalir eru gæddir þeirri furðulegu gáfu að geta sofið með öðru heilahvelinu í senn. Eða öllu heldur; vakað með einu heilahveli meðan hitt hvílist í svefni. Náttúrulega til að hvalurinn drukkni ekki. Svefn hvala fer þannig fram með vaktaskiptum. Vissulega er þetta stórkostlega makalaust fyrirkomulag og þarfnast frekari rannsókna.
Árið 2007 óskuðu félagarnir eftir leyfi til að rannsaka hvalsheila og fimm árum seinna, eða árið 2012, hófst framkvæmd þeirra og fjölmargra annarra vísindamanna, sem tengjast Witwatersrand-háskólanum í S-Afríku.
Það er augljóst að svo umfangsmikið rannsóknarverkefni kostar marga tugi milljóna, þó ekki sé nema bara horft til þess að vísindamennirnir byrjuðu á því að rannsaka heila flóðhesta, fíla og annarra fjarskyldra ættingja hvalanna. Þeir voru greinilega kappsamir um ættfræði tegundanna, félagarnir.
Líkast til hefur niðurstaða rannsóknarinnar verið sú – ef að líkum lætur – að viðlíka vaktaskipti í heilahvelum um svefn tíðkast ekki hjá fílum, flóðhestum eða öðrum fjarskyldum landdýrum hvalanna. Enda lifa þau ekki í sjó.
En nú æsast leikar heldur betur! Karl Ægir prófessor og félagar fóru síðan með sjálfu hrefnuveiðiskipinu Hrafnreyði KÓ (en hrafnreyður er annað nafn yfir hrefnu) til að ná í „ferska heila“ hvala. Og nú vitna ég í sjálfan prófessorinn Karl Ægi, sem segir kannski dálítið hofmóðugur: „Til að varðveita heilana með þeim nákvæma hætti sem við gerðum, þá þurftum við að ná þeim rétt eftir að dýrin voru felld“.
Það er aldeilis! Þetta hefur vafalítið verið eitthvað verkfræðiundur. Að skjóta hrefnu, skutla henni um borð og skera úr henni „ferskan“ heila? Ekki hef ég minnstu hugmynd um hvernig hægt er að gera þetta. Náðu kollegarnir hans einnig í „ferska heila“ úr fílum og fjarskyldu slekti hvalanna hér í denn? Þetta minnir eiginlega dálítið á Dr. Frankenstein. En nú ég er að tapa þræðinum.
Eftir þennan ágæta túr með Hrafnreyði KÓ voru „fersku heilarnir“ síðan sendir til Jóhannesarborgar og Rio de Janeiro til rannsóknar. Líkast til hafa þeir ekki verið jafn „ferskir“ við komuna þangað miðað við það hvernig póstþjónustunni fer hrakandi nú til dags.
Engu að síður ku vísindamennirnir hafa komist að því, að það er ákveðið prótín og ýmis efnaferli í þessum fersku hvalaheilum, sem gera hvölum kleift að láta stóran hluta heilans framleiða varmaorku.
Þetta eru stórtíðindi! Að ákveðin prótín og efnaferli geri hvölum kleift að framleiða varmaorku með heilanum?
Hverju skyldi það sæta? Jú, að sögn Karls vegna þess að prótín þessi er í miklu meira magni í „ferskum hvalaheilum“, heldur en í fjarskyldum ættingjum eins og t.d. fílum. Jafnframt er því haldið fram að þessi býtti þýði að varmaframleiðsla ráði heilastærð hvala.
Þetta er allt svo stórkostlega fáránlegt!
Ég þekki ekki nokkurt dæmi þess að lífverur láti heila sinn gera eitt eða annað, enda er þessu vitanlega öfugt farið. Ég þykist vita að mörg mannveran væri sælli, gæti hún skipað heila sínum fyrir verkum. Því miður er staðreyndin sú að heilar stýra lífverum.
Þrátt fyrir þessa augljósu staðreynd er niðurstaða þeirra félaganna samt sem áður sú, að þetta undursamlega prótín og samskipti þess við önnur efni í heilanum geri að verkum að„ ...þetta ferli er ósamrýmanlegt æðra vitsmunastarfi“, og jafnframt að fyrir vikið geti hvalir ekki verið jafn „greindir“ og sögur herma.
Helstu hliðstæðu prófessors Karls Ægis í þessum efnum segir hann vera að finna hjá bjarndýrum sem leggjast í híði. Skyldu Karl Ægir og kollegar hans hafa náð í og greint „ferskan heila“ bjarndýra í híði?
Þetta er með slíkum endemum og sýnir svo stórbrotinn vanskilning á einföldustu líffræði og vísindalegri aðferð að mann rekur í rogastans! Að heili geti verið orkuver?
Allt er þetta vitaskuld furðulegur þvættingur. Heili manna slokar í sig mestan hluta þeirrar orku sem menn næra sig á. Vitanlega á það einnig við um heila annarra dýra, eins og dæmin sanna. Engin dæmi eru um að heilar lífvera framleiði varmaorku.
Það að ætla sér að sanna með „vísindalegum“ hætti, að heilar lífvera „framleiði orku“, þarfnast meira en þess að vera prófessor við tækni- og verkfræðideild HR. Það að vera tengdur Paul Manger og UCLA og Witwatersrand dugar heldur ekki til.
Víst er að allir þessi stórkostlega menntuðu menn lögðu af stað með einhverja rannsóknartilgátu. Ég geri ráð fyrir því að mennta- og rannsóknarstofnanir – sem stæra sig af því að leita þekkingar – kynni sér hvað það er í viðkomandi rannsókn, sem réttlætir risavaxna styrki. Það ætti að vera sjálfgefið, enda reiða slíkar stofnanir sig á utanaðkomandi framlög skattgreiðenda. Mér er algerlega fyrirmunað að skilja hvernig styrkja beri svona vitleysu.
Ég fæ ekki betur séð en að þessir „vísindamenn“ telji sig hafa „sannað“ miklu meiri furður, heldur en þær sem maður getur séð í náttúrunni á hverjum einasta degi. Og þar er af nógu að taka.
Eitt furðuverk þeirra er sú frámunalega byltingarkennda og heimskulega hugmynd að heilar hvala framleiði varmaorku. Hin ályktun félaganna er eiginlega öllu verri. Sú er eins og út úr einhverri öfugsnúinni vísindaskáldsögu; nefnilega að vegna þess að hvalir eru búnir að þróa með sér þá getu að heili þeirra hiti upp skrokkinn eins og kyndiklefi, þá geti hvalir ekki sérstaklega greindir!
Hvaðan kom greindarvísitala hvala inn í þessa meintu jöfnu? Varmaframleiðsla heilans og greind hvala? Fengu þessir gaurar tugmilljóna styrki til að velta fyrir sér þessu „samhengi“?
Auk alls þessa kvartar Karl Ægir Karlsson prófessor við Háskólann í Reykjavík undan því að áframhald frekari rannsókna á þessu sviði strandi um þessar mundir á því að fá leyfi til að krækja í „ferska heila“ hvala eins til að mynda langreyða. Sem eru mikið stór og merkileg spendýr og langtum stærri en við mennirnir.
Slík „rannsókn“, sem felur í sér að sækja „ferskan heila“ úr langreyði, getur í besta falli talist viðbjóðsleg. Mögulega getur Karl teiknað upp einhver verk-og tæknifræðileg tól og tæki til að slík sýnataka úr langreyði fari fram með sómasamlegum hætti. Hann gæti jafnvel sótt um styrki til þess arna!
Auk þessa vælir prófessorinn undan því að dýraverndunarsinnar geri athugasemdir við þessar furðulegu hugmyndir hans.
Takist Karli Ægi Karlssyni, prófessor við tækni- og verkfræðideild Háskóla Reykjavíkur, hins vegar að sanna eitt einasta dæmi um það að heilar framleiði orku, þá er víst að þeir félagarnir muni á endanum hljóta Nóbelsverðlaun – ekki í verkfræði – heldur mögulega í eðlisfræði. Þvílíkt bull.
Það er sárara en tárum taki að hugsa til þess að háskólar og ríkisstyrktar stofnanir séu að borga stórfé fyrir „rannsóknir“ prófessora í þessa veru.
Þessu fólki er vorkunn.
Höfundur er þýðandi.