Ég hef velt því mikið fyrir mér hvernig hægt sé að gera Íslendinga af erlendum uppruna* minna framandi í samfélaginu, gera þá hluta af norminu. Því það er oft þannig að það sem fólki finnst framandi finnst því mögulega vera ógnvekjandi. Það hafa allir heyrt sögur af hópum innflytjenda sem eru sko heldur betur að sjúga sig fasta á velferðisspenanum á Íslandi, eru ofbeldisfullir eða glæpaheigðir. Sárasjaldan heyrast sögur af innflytjendum sem eru bara venjulegt fólk (sem er jú meirihlutinn) eins og ég og þú, vinna sína vinnu, sinna sínum börnum, halda upp á afmæli og svo framvegis.
Guðrún Magnúsdóttir, MA í hnattrænum tengslum, fólksflutningum og fjölmenningarfræði.
Mér finnst að fjölmiðlar eigi að leyfa okkur að kynnast venjulegum innflytjendum, til dæmis í gegnum fréttirnar. Sárasjaldan fáum við að sjá og heyra af innflytjendum í fréttum. Í þau skipti sem við gerum það er það yfirleitt í þrem tilvikum: þegar eitthvað neikvætt hefur átt sér stað (líkamsárás, morð, þjófnaður...), þegar verið er að fjalla beint um málefni innflytjenda (hælisleitendur, Fjölmenningarþing Reykjavíkurborgar..) eða þegar eitthvað gengur á í útlöndum og fréttamönnum tekst að hafa uppi á Íslendingi frá því landi (t.d. Úkraínu). Málið er að innflytjendur eru margir hverjir með mikla reynslu á bakinu og vita ýmislegt annað. Mér þætti mjög gaman að sjá viðtal við einhvern fræðing af erlendum uppruna um t.d. fjármál. Eða um húsnæðismál. Eða um eitthvað annað en eingöngu þessa þrjá fyrrnefndu flokka.
Segjum sem svo að fjölmiðlamenn og konur læsu þessa grein og tækju áskoruninni. Næstu vikur (og vonandi til frambúðar) yrði svo meira um viðtöl við fólk af erlendum uppruna um hversdagsleg málefni sem snerta okkur öll. Það myndi svo sannarlega sýna fjölbreytileika samfélagsins. EKKI SÍST myndi það leyfa Íslendingum af íslenskum uppruna að heyra íslenskuna talaða með hreim. Það er klárlega eitthvað sem samfélagið þarf á að halda. Þá mögulega hættir Íslendingurinn af íslenskum uppruna að snúa sér við í búðinni þegar það heyrir Íslending af erlendum uppruna tala íslensku með hreim. Því þá er íslenskan með hreimnum orðin hluti af norminu, ekki jafn framandi. Og þegar Íslendingurinn af erlendum uppruna hættir að finna fyrir augngotum og að hann sé framandi, þá mögulega fer viðkomandi að líða í alvöru eins og heima hjá sér. Eins og hluta af norminu.
*ég er að prufa að nota önnur hugtök en alltaf innflytjandi eða einstaklingur af erlendum uppruna. Erum við ekki öll Íslendingar sem búum á Íslandi?