Úlfar Þormóðsson var einn ötulasti blaðamaður Þjóðviljans á sinni tíð – fann til dæmis upp hugtakið „fjölskyldurnar fjórtán“ um eignafólkið sem síðar var farið að kenna við kolkrabba og var duglegur að fletta ofan af skattsvikum og kortleggja alls konar tengsl. Hann hefur um árabil einkum verið rithöfundur og getið sér gott orð sem slíkur, skrifað vinsælar skáldsögur og minningabækur. Hann skrifar líka endrum og sinnum greinar, sem stundum hitta í mark.
Og stundum ekki.
Lestu meira
Kannanir sýna að meirihluti kjósenda Vg aðhyllist vestræna samvinnu og vill að Íslendingar gangi í ESB og Nató, og þó að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sé í orði kveðnu andvíg veru landsins í Nató hefur sú andstaða ekki beinlínis geislað af henni eftir innrás Rússa. Til allrar hamingju. Um alla Evrópu hafa lýðræðissinnar og mannréttindasinnar verið að endurskoða afstöðu sína til varnarmála og þjóðirnar hafa þétt raðirnar til að mæta þeirri ógn sem árásarstefna og hótanir Rússa vekja.
En svo kemur allt í einu svona grein frá Úlfari Þormóðssyni sem enn er ráfandi um í sinni Keflavíkurgöngu. Á Úlfari má helst skilja að mesta ógnin sem steðji að öryggi Íslands komi frá Nató og Bandaríkjamönnum en ógnin frá Rússum sé stórlega ýkt. Framferði Rússa er átalið fyrir siðasakir en látið liggja að því Bandaríkjamenn og Nató í heild séu eiginlega verri. Ekkert er hirt um þann grundvallarmun sem er á lýðræðisríkjum og einræðisríki á borð við Rússland. Ekkert er hirt um muninn á þjóðfélagsgerð til dæmis Norðurlanda og svo aftur Rússlands. Ekkert er reynt að takast á við atburði nútímans á forsendum nútímans.
Við spurningum sem við stöndum núna frammi fyrir í öryggis- og varnarmálum á Þjóðviljinn annó 1972 engin svör. Heimsmynd hans er úrelt. Það skyldi þó aldrei vera, eftir allt saman, að Björn Bjarnason hafi haft fleira fram að færa sem gagnast getur herlausri smáþjóð í miðju Atlantshafi?