Í fyrri grein hér í Kjarnanum gerði undirritaður grófan þjóðhagslegan samanburð á þremur meginstoðum gjaldeyrisöflunar þjóðarbúsins. Sá samanburður leiddi í ljós að ætla má að ferðaþjónustan muni skilja eftir hreinar gjaldeyristekjur í hagkerfi landsins uppá 280 milljarða króna á þessu ári. Næst kemur sjávarútvegurinn með um 225 milljarða og í þriðja sæti og miklum mun aftar á merinni kemur stóriðjan með um 80 milljarða. Niðurstaðan af þessum samanburði og umræðum að undanförnu, ekki síst um rammaáætlun, er að mikið vantar uppá að ýmsir ráðmenn í samtímanum átti sig á stórauknu þjóðhagslegu mikilvægi ferðaþjónustunnar.
Hinn gríðarlega öri vöxtur ferðaþjónustunnar á örfáum árum skýrir að sjálfsögðu þessa nýju stöðu. Greinin hefur vaxið árlega um ríflega 20 prósent þrjú ár í röð og sá vöxtur heldur áfram þá fjóra mánuði sem liðnir eru af þessu ári. Ef svo heldur sem horfir enn um sinn má segja að ferðaþjónustan geysist svo hratt fram að hún skilji aðrar atvinnugreinar eftir í reyk þegar kemur að þjóðhagslegu mikilvægi mælt á mælikvarða gjaldeyrisöflunar.
En getur veldisvöxtur ferðaþjónustunnar haldið áfram endalaust? Nei, auðvitað ekki, auk þess sem að mörgu er að hyggja í þeim efnum. Lítum aðeins nánar á það og eðli og einkenni þessarar atvinnugreinar í leiðinni.
Fjölbreytt grein smáfyrirtækja
Þó vissulega séu aflvélar eins og Icelandair-samstæðan fyrirferðamiklar í sókn ferðaþjónustunnar er hún þó fyrst og síðast fjölbreytt grein lítilla og meðalstórra fyrirtækja á ótrúlega breiðu sviði. Um helmingur starfandi fyrirtækja í greininni er tíu ára eða yngri og starfsmannafjöldi mikils meirihluta þeirra er á bilinu einn til tíu. Mikilvægi greinarinnar felst í mörgu fleiru en gjaldeyrisöflun.
Ferðaþjónustan skapar tækifæri um allt land og getur gert enn betur í þeim efnum.
Ferðaþjónustan dreifir afrakstri sínum ótrúlega víða um hagkerfið eða samfélagið. Hún skapar hlutfallslega mikinn fjölda starfa miðað við fjárfestingar, bætir nýtingu og rekstur innviða, svo sem í samgöngum og flutningum, matvæla- og iðnframleiðslu, veitingastarfsemi, verslun, afþreyingar- og menningarstarfsemi og er það allt okkur sjálfum mikilvægt vegna búsetu í landinu. Ferðaþjónustan skapar tækifæri um allt land og getur gert enn betur í þeim efnum.
Hagkerfi byggt á ferðamönnum
Ör vöxtur ferðaþjónustunnar undanfarin ár kallar hins vegar á að glímt sé við ýmsar áleitnar spurningar. Ef við byrjum á hinum þjóðhagslega þætti má nefna tvennt. Annars vegar að það eiga ævinlega að hringja viðvörunarbjöllur ef einhver starfsemi vex svo nemur tugum prósenta að umfangi ár eftir ár. Hversu lengi þolir ein grein það? Er hætta á að hún verði fórnarlamb eigin velgengni og við missum tökin, gæðum hnigni o.s.frv.?
Hið síðara er að jafn gríðarlega dýrmætur og okkur hefur verið vöxtur greinarinnar á erfiðleikaárunum eftir hrun (segja má að Það séu vöxtur ferðaþjónustunnar og makríllinn sem synti hér inná miðin sem hafi umfram flest annað létt okkur róðurinn) þá breytir það ekki þeirri staðreynd að um leið er okkar þjóðarbúskapur að verða mjög nátengdur og háður gengi greinarinnar. Ferðamaðurinn er að öðlast þá stöðu sem þorskurinn eða síldin höfðu áður í hagkerfinu. Við þurfum því að horfast í augu við að sveiflur eða bakslag í komu ferðamanna myndu nú hafa stóraukin áhrif á afkomu þjóðarbúsins miðað við það sem áður var.
Íslensk náttúra er undirstaðan
Eitt vitum við og það er að lang sterkasti segullinn sem dregur erlenda ferðamenn með krítarkort sín og seðla til landsins er hin stórbrotna og enn lítt snortna náttúra landsins. Þar með vitum við líka hvað við þurfum að passa uppá umfram allt annað. Reyndar berum við okkar skyldur gagnvart landinu óháð því hvort ferðþjónusta væri hér meiri eða minni, en við það bætist að náttúran er nú undirstaða okkar mikilvægustu atvinnugreinar. Þetta þýðir hvoru tveggja í senn að ferðaþjónustan sjálf verður að þróast í þannig sambúð við náttúruna að hún skaðist ekki af og að hagsmunir ferðaþjónustunnar verða að hafa vægi þegar verndun eða annars konar nýting er til skoðunar.
Í þessum efnum eru þegar miklar blikur á lofti. Fjármunir til innviðauppbyggingar og fyrirbyggjandi aðgerða hafa hvergi nærri fylgt örum vexti greinarinnar. Keyrt hefur um þverbak í tíð núverandi ríkisstjórnar sem beinskorið hefur framlög til framkvæmdasjóðs ferðamála og þjóðgarða og friðlýstra svæða og eytt tveimur árum í vandræðagang um gjaldtökuhugmyndir sem hlutu á dögunum hægt andlát þegar náttúrupassinn sálaðist inni á Alþingi.
Hvað er brýnast að gera?
Verja þarf einum til einum og hálfum milljarði króna hið minnsta nokkur næstu árin til úrbóta á fjölsóttum ferðamannastöðum, í þjóðgörðum og á friðlýstum svæðum. Veruleg uppbygging innviða í formi samgöngubóta og aukinnar þjónustu á vegum og flugvöllum þarf og að koma til. Endurbætt gistináttagjald og tekjur af veittri þjónustu, svo sem bílastæðum og hreinlætisaðstöðu, geta lagt til talsverðan hluta þess fjármagns, en auðvitað er engin goðgá að það sem á vantar komi um sinn úr ríkissjóði sem fjárfesting í þágu þessarar mestu vaxtargreinar íslensk atvinnulífs.
Ráðast þarf í markvissar aðgerðir til að dreifa álaginu af vaxandi ferðamannastraumi betur um allt land og yfir allt árið.
Ráðast þarf í markvissar aðgerðir til að dreifa álaginu af vaxandi ferðamannastraumi betur um allt land og yfir allt árið. Opnun fleiri fluggátta inn í landið með beinum opinberum stuðningi eftir því sem til þarf er augljós og skynsamlegur kostur í því sambandi. Þar með nýtist landið allt betur sem undirstaða fyrir greinina, allir landshlutar fá hlutdeild í vexti hennar og álagið dreifist bæði í tíma og rúmi.
Horfa þarf til aukinnar arðsemi og keppa að því að fá ekki aðeins fleiri ferðamenn heldur einnig ferðamenn sem gefa sem mest af sér. Framboð fjölbreyttrar afþreyingar, ekki síður yfir veturinn en sumarið, er hér mikilvægur þáttur.
Gera þarf það sem hægt er til að undirbyggja sem mestan stöðugleika og draga úr hættu á bakslagi í greininni í ljósi þess hversu stór og þjóðhagslega mikilvæg hún er orðin. Ein hugmynd gæti verið að starfrækja sérstakan stöðugleikasjóð innan greinarinnar sem byggður væri upp í hagstæðu árferði en svo ráðstafað úr til eflingar markaðsstarfi þegar hætta væri á bakslagi.
Samhæfa þarf stjórnsýslu og efla stýritæki til að ráða við og dreifa álaginu af vaxandi fjölda ferðamanna. Eitt slíkt stýritæki og fjáröflun í leiðinni gæti verði gjald á farseðla eða komur ferðamanna yfir háannatímann, mánuðina maí til september.
Efla þarf rannsóknir á sviði ferðamála, menntun og þjálfun starfsfólks og þannig mætti lengi áfram telja.
Að lokum þarf að koma ráðamönnum, þeim sem það á við um, inn í nútímann og leiða þeim fyrir sjónir að gamlir tímar eiga ekki við lengur þegar kemur að þjóðhagslegu mikilvægi ferðaþjónustunnar og hagsmunum hennar sem fara saman við náttúruverndarsjónarmið og eiga og verða að vera í samræmi við markmið sjálfbærrar þróunar.
Höfundur er þingmaður.