Komandi kynslóðum stendur ógn af loftslagsbreytingum og orkuskipti eru mikilvægur þáttur í að sporna gegn þeim. Metnaðarfull markmið og skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum gera að verkum að orkuskipti eiga að vera forgangsmarkmið. Aðgerða er þörf í þágu orkuskipta. Til þess þarf aukinn aðgang að endurnýjanlegri orku sem hægt er að ná fram með betri og skynsamri nýtingu þeirra auðlinda sem þegar eru nýttar, styrkingu dreifikerfis um landið allt, sparsemi í notkun og aukinni orkuvinnslu. Samhliða ógn af loftslagsbreytingum er aukin áhersla í samfélaginu á mikilvægi og verðmæti óbyggðra víðerna sem ríkur vilji er til að standa vörð um. Ég held að við skiljum öll að verkefnið sem þing stóð frammi fyrir við afgreiðslu á rammaáætlun var að ná fram heilbrigðu jafnvægi milli nýtingar og verndar.
Þá hefur mikla þýðingu að leikreglur séu skýrar og að eiga stjórntæki á borð við rammaáætlun. Rammaáætlun er lykillinn að því að stuðla að sem mestri sátt um þá nýju orkuvinnslu sem þarf til að klára orkuskipti Íslands og standa undir nýjum grænum iðnaði á Íslandi. Jafnframt skiptir máli að gagnsæi og almannahagsmunir séu leiðarstef stjórnvalda þegar grundvallarákvarðanir á borð við þessar eru teknar.
Töfin hefur bitnað á hagsmunum almennings
Sama tillaga og þingið fjallar núna um hefur áður verið lögð fram í þrígang en ekki náð fram að ganga. Síðan þá hefur aukin áhersla verið lögð á orkuskipti og orkuöryggi. Það er því fagnaðarefni að rammaáætlun sé loks að ná fram að ganga. Það er augljóst hagsmunamál fyrir orkuskipti og orkugeirann en fyrst og fremst almenning í landinu. En fyrirheit um orkuskipti verða bara orðin tóm ef það fylgir ekki hvernig á að tryggja framboð og afhendingu raforku. Þetta ár hefur undirstrikað rækilega að það þarf að styrkja flutningskerfið. Hér þarf að sama skapi að horfa á stóru myndina. Leiðin til að ná fram metnaðarfullum markmiðum er skýr hugmyndafræði og skýr verkstjórn. Það eru mikil tækifæri fyrir Ísland í þessum málaflokki, sem þarf að sækja. Ísland getur orðið leiðandi ríki ef vel er að verki staðið.
Lærdómur þessa ferlis er m.a. að færri kostir verði til umfjöllunar við næsta skref til að auðvelda verkið og koma í veg fyrir að ákvarðanir séu teknar á grundvelli gagna sem eru komin til ára sinna. Annar lærdómur er að heildarendurskoðun á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun er tímabær. Löggjöfin verður að vera þess umkomin að ná fram markmiðum um orkuöryggi, orkusjálfstæði og sjálfbærni. Ramminn núna tekur ekki tillit til umhverfisáhrifa tenginga við raforkukerfið, það er hver umhverfisáhrif raflína eru sem þarf að setja upp vegna virkjana. Við endurskoðun laganna sem vonandi er fram undan verður meginmarkmiðið að vera að tryggja fagleg vinnubrögð sem eru byggð á málefnalegum forsendum fyrir ákvörðunum í þágu almannahagsmuna.
Alþingis að taka ákvarðanir
Í allri þeirri umræðu sem nú fer fram um pólitík ríkisstjórnarinnar með breytingum á flokkun virkjunarkosta skiptir máli að það er ekki eitt og sér gagnrýnivert að gera tillögur að breytingum. Það sem skiptir máli er á hvaða forsendum það er gert. Jákvætt er t.d. að í fyrsta sinn eru tilgreindir virkjunarkostir í vindorku í rammaáætlun. Það er þýðingarmikið skref. Alþingi er ekki heldur bundið af tillögum verkefnisstjórnar og það er eðlilegt er að endanleg ákvörðun sé á hendi þeirra sem bera á henni pólitíska ábyrgð. Þingið fær tillögur í hendur sem það vinnur úr. Það er einfaldlega hlutverk þingsins. Ákvarðanir þingsins verða hins vegar að vera byggðar á sterkum rökum í þágu almannahagsmuna. Breytingar sem þingið gerir eiga að vera rækilega rökstuddar, byggðar á skýrum forsendum og mikilvægar breytur verða að vera uppi á borðum, svo sem um hagkvæmni virkjunarkosta og þjóðfélagsleg áhrif.
Þegar þessi mælistika er sett á niðurstöðu meirihlutans í gær fellur ríkisstjórnin á prófinu hvað varðar tilteknar tillögur. Breytingatillögur um Héraðsvötn og Kjalölduveitu eru alvarlegar og illa rökstuddar. Um Héraðsvötn verður að segja hið augljósa. Rökstuðningur þar að baki er einfaldlega veikur. Allt bendir til að hér hafi pólitísk hagsmunir leitt af sér niðurstöðu sem fer gegn faglegu mati og verður ekki rökstudd með því að ríkir almannahagsmunir hafi verið að baki. Þessi tillaga ríkisstjórnarinnar er dapurlegur lokasprettur á annars vandaðri vinnu umhverfis- og samgöngunefndar. Niðurstaðan um Kjalölduveitu vekur upp stórar spurningar. Ekki eru færð fram rök fyrir hvers vegna þarf að meta þann kost aftur. Rökin í umfjöllun um neðri hluta Þjórsár eru sömuleiðis nokkuð misvísandi. Talað er um að líta á svæðið sem heild. Engu að síður áréttar meiri hlutinn að virkjunarkosturinn Hvammsvirkjun standi óbreyttur. Hver er þá niðurstaðan? Var markmiðið að skila af sér niðurstöðu sem skapaði óvissu?
Og myndin er bjöguð
Viðreisn hefur talað fyrir því sjónarmiði að orkufyrirtæki skuli nýta sem best þá raforku sem má framleiða á núverandi virkjanasvæðum. Flokkunin frá verkefnastjórn virðist að meginstefnu byggjast á sömu nálgun. Meiri hlutinn hefur nú vikið frá þessum viðmiðum um ákveðna kosti án þess að fyrir liggi sterkur rökstuðningur. Þá er ekki heldur fjallað um hversu mikil raforka færist milli flokka samkvæmt breytingartillögunum í heild sinni, né um hagkvæmni virkjunarkosta sem færast milli flokka eða þjóðhagsleg áhrif þeirra.
Vísindanna er að svara því hvað markmið um orkuskipti krefjast mikillar orku. Stjórnmálanna er hins vegar að svara hvaðan sú orka á að koma og hver forgangsröðunin á að vera. Og stjórnmálanna er að svara því hvernig á að ná fram til orkuskiptum og kolefnishlutleysi árið 2040.
Hugmyndafræði rammans gengur út að meta kosti og rök að baki niðurstöðum. Það er hugmyndafræði ríkisstjórnarinnar sem er veiki hlekkurinn, því stórar ákvarðanir liggja nú í loftinu án þess að hafa rökin með sér. Fyrir vikið hangir ramminn skakkur og myndin í rammanum verður bjöguð.
Höfundur er þingmaður Viðreisnar og varaformaður umhverfis- og samgöngunefndar