Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, skrifar grein í Morgunblaðið miðvikudaginn 15. september, undir fyrirsögninni „Sjálfstæðisflokkurinn lækkar skatta“. Þar fer hún með verulega rangt mál sem nauðsynlegt er að leiðrétta.
Það fyrsta sem þarf að leiðrétta er fyrirsögnin. Reynslan frá 1990 til 2019 er ótvírætt sú að þegar Sjálfstæðisflokkurinn hefur farið með fjármálaráðuneytið þá hefur hann lækkað skatta einungis á hátekju- og stóreignafólk en hækkað beina skatta á lágtekjufólk og millitekjufólk – allan þorra almennings.
Ég skrifaði nýlega grein um þróun á skattbyrði lífeyrisþega sem sýnir hvernig skattbyrði bæði ellilífeyrisþega og örorkulífeyrisþega hefur ríflega tvöfaldast frá 1993 til 2015, þrátt fyrir lágar tekjur (sjá hér). Á sama tíma stórlækkaði skattbyrði tekjuhæsta eina prósentsins, þeirra sem eru með meira en 2,5 milljónir króna á mánuði.
Á myndinni hér að neðan, sem kemur úr nýrri skýrslu ASÍ um „Skatta og ójöfnuð“ eftir hagfræðingana Arnald Sölva Kristjánsson og Róbert Farestveit, má glögglega sjá hvernig skattbyrði ólíkra tekjuhópa breyttist frá 2013 til 2019. Sjálfstæðisflokkurinn fór með fjármálaráðuneytið allan þann tíma, utan eins árs þegar Bjarni Benediktsson fór í forsætisráðuneytið.
Niðurstaðan er öll á sama veg og verið hafði frá 1993 til 2015. Skattbyrði lægstu og milli tekjuhópa stórjókst en skattbyrði þeirra allra tekjuhæstu lækkaði.
Svarta línan á myndinni sýnir hvernig skattbyrði ársins 2019 var langtum hærri en verið hafði árið 2013 hjá lægstu tekjuhópunum (til vinstri á myndinni) og einnig hjá milli tekjuhópunum, þó hækkunin þar hafi verið minni. Hækkun skattbyrðarinnar náði til um 65% heimila (sjá muninn á rauðu og svörtu línunum).
Skattalækkun kemur hins vegar einungis fram hjá tekjuhæstu 20 prósentunum (tekjuhópum 80 til 100 á myndinni). Lang mest varð lækkun skattbyrðarinnar hjá tekjuhæsta eina prósentinu (tekjuhópur 100), eins og myndin sýnir glögglega (svarta línan fyrir 2019 fer niður fyrir rauðu línuna sem er fyrir árið 2013). Rauða punktalínan á myndinni sýnir einnig hvernig niðurfelling auðlegðarskattsins árið 2014 lækkaði skattbyrði tekjuhæstu 3ja prósentanna.
Þetta er hin raunverulega skattastefna Sjálfstæðisflokksins í framkvæmd. Skattalækkun fyrir hina ríku og skattahækkun hjá öllum þorra almennings – mest hjá þeim tekjulægstu.
Áslaug Arna fullyrðir einnig að þegar vinstri flokkar í framboði tali um að hækka skatta á hátekjuhópa þá vilji það enda svo að skattar á millihópana hækki. Hún segir: «Við þurfum ekki að fara lengra aftur en til þeirrar ríkisstjórnar sem sat á árunum 2009-2013 til að sjá dæmi um það þegar tekjuskattur hækkaði á millitekjuhópa.»
Þetta er alveg jafn rangt og þær fullyrðingar sem ég hef fjallað um hér að ofan.
Vinstri stjórnin 2009 til 2013, sem glímdi við fordæmalausan fjárhagsvanda vegna frjálshyggjuhrunsins 2008, lækkaði skatta á tekjulægstu 60 prósent heimilanna en hækkaði þá á tekjuhæstu 40 prósent skattgreiðenda og á fyrirtækjaeigendur. Mest á tekjuhæstu 10-20 prósentin.
Árin 2020 og 2021 voru hins vegar innleiddar lækkanir í tekjuskattinum sem skila mestu til lægri tekjuhópa. Það var skef í rétta átt, þó það dugi hvergi nærri til að vinda ofanaf langtímaþróun skattbyrðarinnar. Þessi breyting var hins vegar gerð að kröfu verkalýðshreyfingarinnar í tengslum við Lífskjarasamninginn. Það náðist í gegn þrátt fyrir forræði Sjálfstæðisflokksins í fjármálaráðuneytinu.
Það er leiðinlegt að sjálfur dómsmálaráðherrann skuli fara svona ranglega með staðreyndir, að snúa öllu beinlínis á hvolf.
Höfundur er prófessor emeritus við HÍ og starfar sem sérfræðingur hjá Eflingu-stéttarfélagi.