Auglýsing

„Trúir ein­hver þess­ari kon­u?“ stóð í kommenta­kerfi undir nýlegri frétt um mál ungrar konu sem steig fram með reynslu­sögu um áreitni og ofbeldi. Enn og aftur skipt­ist fólk í fylk­ingar á sam­fé­lags­miðlum varð­andi það hvort trúa eigi þolendum eða ekki – með til­heyr­andi álagi á þá sem um ræð­ir.

Eftir að fyrsta metoo-­bylgjan reið yfir í lok árs 2017 áttu margir von á því að sam­fé­lags­breyt­ingar væru í vændum og að nýr sátt­máli um að kyn­ferð­is­leg áreitni og ofbeldi myndi ekki líð­ast lengur væri í höfn. Þús­undir íslenskra kvenna greindu frá reynslu sinni og tæp­lega 5.650 konur úr ýmsum starfs­stéttum sem lifa við margs konar aðstæður skrif­uðu undir áskorun þar sem þær settu fram kröfur sínar og deildu með þjóð­inni 815 sög­um. Hver og ein frá­sögn lýsir reynslu konu sem þurft hefur að takast á við áreiti, ofbeldi eða mis­munun vegna kyns síns.

Hugur var í fólki og tóku hinar ýmsu stofn­anir og fyr­ir­tæki sig til og breyttu verk­ferlum til að koma til móts við þolend­ur. Þess var þó ekki lengi að bíða að ákveðið bakslag léti á sér kræla. Breyt­ing­arnar sem margir sáu fyrir sér raun­gerð­ust ekki þrátt fyrir fögur fyr­ir­heit, breyttar reglur og stórar og stæði­legar ráð­stefnur um mál­efn­ið.

Auglýsing

Tím­inn leið og stöku sinnum dúkk­uðu næstu miss­erin upp sér­tæk mál. Spurn­ingin „metoo, hvað svo?“ ómaði í póli­tískri umræðu og margt virt­ist fær­ast í sama horf og fyrir fyrstu bylgj­una. Tími þagn­ar­innar var svo sann­ar­lega ekki lið­inn.

En eins og verða vill með kraum­andi óróa þá sauð upp úr í maí á þessu ári þegar hund­ruð íslenskra kvenna stigu fram opin­ber­lega með sínar erf­ið­ustu minn­ingar í kjöl­far þess að stuðn­ings­bylgja reis upp með þjóð­þekktum manni sem tvær konur sögðu að brotið hefði á sér. Karlar voru í þetta skiptið hvattir til að taka meiri þátt í umræð­unni með það fyrir augum að þetta væri sam­fé­lags­legt vanda­mál en ekki ein­ungis kvenna­vanda­mál. Þögnin var rofin á ný.

KSÍ-­málið á allra vörum

Inn í þessa nýju bylgju henti Hanna Björg Vil­hjálms­dóttir hand­sprengju í sumar þar sem hún sak­aði Knatt­spyrnu­sam­band Íslands (KSÍ) um þöggun varð­andi kyn­ferð­is­of­beldi af hendi lands­liðs­manna. KSÍ sendir frá sér yfir­lýs­ingu nokkrum dögum síðar þar sem því var hafnað að sam­bandið tæki þátt í því að þagga niður ofbeld­is­mál eða hylma yfir með ger­end­um. Í yfir­lýs­ing­unni sagði jafn­framt að „dylgj­um“ um slíkt væri alfarið vísað á bug. Guðni Bergs­son, for­maður KSÍ, stað­festi þetta í sam­tölum við fjöl­miðla og sagði að engin slík mál hefðu komið á borð sam­bands­ins. Hann taldi gagn­rýn­ina „ómak­lega“ og sagði að KSÍ hefði rýnt alla sína ferla strax eftir fyrstu metoo-­bylgj­una.

Í kjöl­farið steig ung kona, Þór­hildur Gyða Arn­ars­dótt­ir, fram og sagði frá reynslu sinni af kyn­ferð­is­legri áreitni og ofbeldi sem lands­liðs­maður hefði beitt hana og vin­konu henn­ar. Ástæðan fyrir því að hún steig fram í við­tali á RÚV var ekki til að kasta rýrð á lands­liðs­mann­inn enda nafn­greindi hún hann ekki og greindi frá því að þau hefðu skilið sátt eftir að hún átti í sam­skiptum við hann vegna atviks­ins. Ástæðan sem hún gaf fyrir því að fara í fyrr­nefnt við­tal var að benda á að málið hennar hefði komið á borð for­manns KSÍ, Guðna Bergs­son­ar, en hann hafði neitað því að slík væri raun­in.

Eftir við­talið hélt stjórn KSÍ mara­þon-krísufundi og sagði for­mað­ur­inn af sér nokkrum dögum síðar. Í yfir­lýs­ingu frá stjórn­inni við til­efnið sagði meðal ann­ars: „Kæru þolend­ur, við í stjórn Knatt­spyrnu­sam­bands Íslands trúum ykkur og biðjum ykkur inni­lega afsök­un­ar. Við vitum að við sem ábyrgð­ar­að­ilar höfum brugð­ist ykkur og við ætlum okkur að gera bet­ur.“

Gríð­ar­legur þrýst­ingur var á stjórn­ina að segja einnig af sér, sem og varð raunin þann 30. ágúst. En mál­inu var ekki lokið í umfjöllun fjöl­miðla og á sam­fé­lags­miðl­um. Unga kon­an, Þór­hildur Gyða, þurfti í kjöl­farið að takast á við ásak­anir og níð á sam­fé­lags­miðlum þar sem hún var sökuð um lygar og reynt var að gera frá­sögn hennar tor­tryggi­lega.

Árásir á þol­anda hefj­ast

Nafni lands­liðs­manns­ins, sem reynd­ist vera Kol­beinn Sig­þórs­son, var lekið í fjöl­miðla og sendi hann frá sér yfir­lýs­ingu þann 1. sept­em­ber þar sem hann sagði að hann kann­að­ist ekki við að hafa áreitt Þór­hildi Gyðu og vin­konu hennar eða beitt of­beldi og að hann hefði neitað sök á sínum tíma. „Hegðun mín var hins veg­ar ekki til fyr­ir­­mynd­ar og baðst ég af­­sök­un­ar á henni. Ég iðr­að­ist og tók á því ábyrgð og var til­­­bú­inn að leita sátta,“ sagði meðal ann­ars í yfir­lýs­ing­unni.

Þá komu upp ásak­anir um að faðir Þór­hildar Gyðu hefði beðið Guðna Bergs­son um að halda trún­aði varð­andi mál hennar og því hefði for­mað­ur­inn ekki getað tjáð sig þegar hann var spurður út í það hvort mál sem þetta hefði komið á hans borð. For­eldrar Þór­hildar Gyðu sáu sig knúin til að senda frá sér yfir­lýs­ingu til að „leið­rétta ítrek­aðar rang­færslur vegna meints trún­að­ar“. Þau hefðu aldrei beðið um trúnað varð­andi tölvu­póst­inn sem faðir hennar sendi meðal ann­ars á almennt net­fang KSÍ en í honum var til­kynnt um fyrr­nefnda lík­ams­árás og grófa kyn­ferð­is­lega áreitni af völdum Kol­beins.

Hæsta­rétt­ar­lög­mað­ur­inn og for­seti dóm­stóls KSÍ, Sig­urður G. Guð­jóns­son, birti þann 5. sept­em­ber Face­book-­færslu um málið sem vakti mikla athygli en í henni réðst hann að Þór­hildi Gyðu og sak­aði Stíga­mót um að hafa valið lið „til að þókn­ast konu sem sakað hafði lands­liðs­mann um ofbeldi aðfara­nótt laug­ar­dags um miðja sept­em­ber 2017, en gert við hann sátt í maí 2018 og fengið bætur sér til handa og fé í sjóði Stíga­móta“. Með færsl­unni birti hann per­sónu­grein­an­leg gögn úr skýrslu­töku Þór­hildar Gyðu þegar hún kærði fyrr­nefnt ofbeldi. Í sam­tali við mbl.is hvers vegna hann birti þessa færslu sagð­ist Sig­­urður vera „orð­inn þreytt­ur á þess­um at­lög­um að knatt­­spyrn­u­­mönn­um, sér­­stak­­lega þeim sem hafa átt sér stað upp á síðkast­ið“.

„Það tekur á að berj­ast við þá sem trúa ekki“

Í yfir­lýs­ingu Stíga­móta sem sam­tökin sendu frá sér tveimur dögum síðar var bent á að Sig­urður væri fag­að­ili sem starfar innan kerf­is­ins sem lög­maður og birti hann lög­reglu­skýrslur í máli sem hann hefði enga beina aðkomu að. Í við­tölum við fjöl­miðla sagð­ist Sig­urður ekki vilja upp­lýsa um það hvar hann hefði fengið gögn­in.

Stíga­mót sögðu í yfir­lýs­ing­unni að ekk­ert skrýtið væri við það að konur kærðu ekki ofbeldið sem þær væru beittar eða að þær segðu ekki frá því. Rétt­ar­vörslu­kerfið pass­aði vel upp á það. „Alltaf skulu finn­ast nýir og nýir angar þess sem nýttir eru á ein­hvern hátt gegn brota­þola – til þess að hræða, þagga og lít­ils­virða. Þessu verður að linna.“

Ekki þarf að kafa djúpt í iðrum inter­nets­ins til að finna árásir á þessa ungu konu sem steig fram til þess eins að beina ljósi að því sem var satt og rétt í sam­skipt­unum við KSÍ. Enda hefur hún sjálf lýst því á sam­fé­lags­miðlum hversu mikið það taki á að standa í þess­ari bar­áttu. „Það tekur á að berj­ast við þá sem trúa ekki. Það tekur á að berj­ast við efa­semdar radd­irn­ar. Þakk­lát að mik­ill meiri­hluti trú­ir,“ skrif­aði hún á Twitter.

Bakslagið kemur með krafti – Ábyrgð sett á þolendur

Öll þessi atburða­rás er að vissu leyti fyr­ir­sjá­an­leg og er hún gott dæmi um kröft­ugt við­bragð við metoo-um­ræð­um; þol­andi stígur fram, fær stuðn­ing en eftir nokkra daga kemur bakslag­ið. Þetta rímar við það bakslag sem greina mátti eftir fyrstu metoo-­bylgj­una árið 2017. Vissu­lega mátti sjá stuðn­ing úr mörgum áttum en einnig mátti sjá miklar per­són­u­árásir í kjöl­farið úr öðrum átt­um. Þetta bakslag hefur gert það að verkum að það reyn­ist ómögu­legt fyrir þolendur að stíga fram. Í fram­hald­inu er líka ekki hægt að gera þá kröfu að þeir geri það.

Þá vand­ast mál­in. Ef kerfin okkar og verk­ferlar hjá fyr­ir­tækj­um, íþrótta­sam­böndum og stjórn­sýsl­unni virka ekki sem skyldi og hafa ekki raun­veru­legar breyt­ingar í för með sér þar sem þol­and­inn gengur eins sáttur frá borði og hugs­ast getur þá hafa þeir sem lenda í kyn­ferð­is­legri áreitni eða ofbeldi ekk­ert val nema „gleyma“ því sem gerð­ist, bíta á jaxl­inn og „sætta sig“ við orð­inn hlut með til­heyr­andi afleið­ingum eða greina opin­ber­lega frá reynslu sinni til að ná fram rétt­læti.

Ábyrgðin er því sett á þolendur – og verða þeir sjálfir að sjá um að koma málum í réttan far­veg eða fara í fjöl­miðla ef ekki er vel staðið að mál­um. Við það er ekki hægt að una.

Sam­eig­in­legt vanda­mál okkar allra

Ef rétt­inda­bar­átta kvenna síð­ustu ára á að hafa ein­hverja merk­ingu verður kné að fylgja kviði. Það gerum við með því að styrkja rétt­ar­kerfið og fylgja verk­ferlum sem búið var að setja á lagg­irnar eftir fyrstu metoo-­bylgj­una. Við þurfum að halda hlífi­skildi yfir þolendum og ekki setja þá í þá aðstöðu að þurfa að bera ábyrgð­ina ein­ir. Við sem sam­fé­lag ættum að hafa burð­ina til þess.

Þöggun er lúmsk og er ekki alltaf beitt vís­vit­andi. Hún getur verið hluti af með­virkn­inni sem fólk finnur fyrir þegar erfið mál koma upp og ekki reyn­ist öllum auð­velt að takast á við þau. Í umræð­unni um metoo tölum við sjaldn­ast um þá núansa sem koma upp en þeir eru vissu­lega marg­ir.

Sér­stak­lega þarf að takast á við svo­kall­aða skrímsla­væð­ingu. Sig­urður G. sagði við mbl.is eftir færslu sína á Face­book að hann væri „orð­inn þreytt­ur á þess­um at­lög­um að knatt­­spyrn­u­­mönn­um“ en ekki mátti heyra á máli hans að hann væri orð­inn þreyttur á þögg­un­inni sem fylgdi eða að hann hefði samúð með þeim konum sem lent höfðu í áreitn­inni eða ofbeld­inu. Með því að fylgj­ast með sam­fé­lags­miðlum mátti sjá að sam­úðin sner­ist úr því að vera hjá þolendum yfir á ger­endur – að þeir væru mis­rétti beittir og ósann­gjarnt væri að saka þessa góðu drengi sem máttu ekki vamm sitt vita. Skrímsla­væð­ing hefur í för með sér að við eigum erfitt með að við­ur­kenna eða gera okkur í hug­ar­lund að góðir og indælir drengir geti gert eitt­hvað á hlut ann­arrar mann­eskju.

Þannig að já, málin eru oft flókin og já, þau reyna á ein­stak­ling­ana sem um ræð­ir. En nei, það á ekki að „skjóta“ neinn, eða „taka af lífi“ eins og oft heyr­ist á sam­fé­lags­miðlum þegar fjallað er um mál sem þessi. Þau snú­ast ekki um gott eða illt heldur að takast á við hvert ein­stakt mál sem fyrir ber. Þessi mál snú­ast um að setja ábyrgð­ina á rétta staði svo þolendur þurfi ekki að sitja enn og aftur uppi með per­són­u­árás­irnar og druslu­skömm­ina. Þetta snýst um sam­kennd og það að hlúa að þeim sem eiga um sárt að binda – bæði þolendum og ger­end­um.

Þögnin var rofin á ný á þessu ári og við verðum að búa svo um hnút­ana að hún legg­ist ekki yfir okkur aftur með því að fæla þolendur aftur í skugg­ann með þöggun og vand­ræða­gangi. Þetta er það sem metoo snýst um!

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorbjörn Guðmundsson
Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
Kjarninn 11. janúar 2023
Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
Bréf frá ritstjóra Kjarnans vegna sameiningar við Stundina og þess að nýr framsækinn fréttamiðill verður til í lok viku.
Kjarninn 11. janúar 2023
Sverrir Albertsson
Vatn á myllu kölska
Kjarninn 11. janúar 2023
Lögreglumenn standa vörð um gröfurnar í námunni.
Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
Lítið þorp í Rínarlöndum Þýskalands er allt komið í eigu kolarisa. Fyrirtækið ætlar sér að mylja niður húsin og stækka kolanámu sína sem þegar þekur um 80 ferkílómetra. Þetta þykir mörgum skjóta skökku við í heimi sem berst við loftslagsbreytingar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.
Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
Fjögur fjölmiðlafyrirtæki hafa til þessa skilað inn umsögnum um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, sem mun að óbreyttu framlengja núverandi styrkjakerfi til fjölmiðla.
Kjarninn 10. janúar 2023
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
Samtök atvinnulífsins hafa hafnað gagntilboði Eflingar um skammtímakjarasamning, sem kvað á um meiri launahækkanir en SA hefur samið um við aðra hópa á almennum vinnumarkaði til þessa. Efling undirbýr nú verkfallsaðgerðir.
Kjarninn 10. janúar 2023
Palestínski fáninn á lofti í mótmælum í Reykjavík. Ísraelskri lögreglu hefur nú verið fyrirskipað að rífa fánann niður á almannafæri.
Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
Degi eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í Ísrael samþykkti allsherjarþing Sþ að fela Alþjóðadómstólnum í Haag að meta lögmæti hernáms Ísraelsríkis á Vesturbakkanum. Síðan þá hefur stjórnin gripið til refsiaðgerða og nú síðast fánabanns.
Kjarninn 10. janúar 2023
Gríðarlega mikil dæling á sandi á sér stað í Landeyjahöfn á hverju ári. Markarfljótið ber hundruð þúsunda tonna af jarðefnum út í sjó og það á til að safnast upp í mynni hafnarinnar.
Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
Eftirspurn eftir íslenskum jarðefnum er gríðarleg ef marka má framkomin áform erlendra stórfyrirtækja um nýtingu þeirra. Vinsældir hafnarinnar í Þorlákshöfn eru samhliða mjög miklar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Meira úr sama flokkiLeiðari