Skjáskot/RÚV Guðni Bergsson Mynd: Skjáskot/RÚV

Alvarlegar ásakanir um þöggun skekja KSÍ – Fum og fát í viðbrögðum sambandsins

Nú gustar um Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ) og formann sambandsins eftir atburðarás síðustu daga og vikna þar sem frásagnir af kynferðisofbeldi og áreitni landsliðsmanna í knattspyrnu hafa komið upp á yfirborðið. Þjarmað var að KSÍ í kjölfarið en sambandið neitaði ítrekað að slík mál hefðu „komið á þeirra borð“. Mikið ósamræmi er aftur á móti í svörum KSÍ og gögnum og vitnisburðum sem liggja fyrir. Kjarninn hefur gert ítrekaðar tilraunir til að fá svör frá KSÍ en fyrirspurnir miðilsins hafa gengið á milli upplýsingafulltrúa og stjórnenda án afgerandi svara.

Ætlar KSÍ að halda áfram að þagga niður ofbeldi sem gerendur á þeirra vegum hafa beitt? Að vera gerendameðvirk og fórna stúlkum og konum á altari keppniskarla? Er það afstaða sem hreyfingin vill standa fyrir?“

Að þessu spurði Hanna Björg Vilhjálmsdóttir, kennari við Borgarholtsskóla og forkona jafnréttisnefndar Kennarasambands Íslands, í aðsendri grein sem birtist á Vísi þann 13. ágúst síðastliðinn sem velti snjóbolta af stað en ennþá er ekki fyrirséð um afleiðingar þeirrar atburðarásar sem hófst í kjölfarið.

Vísaði hún til frásagnar ungrar konu af kynferðislegu ofbeldi sem hún varð fyrir árið 2010 en gerendurnir voru sagðir hafa verið landsliðsmenn Íslands í fótbolta. „Fleiri frásagnir eru um landsliðsmenn sem eru sagðir beita konur ofbeldi – bæði kynferðislegu og heimilisofbeldi. Þetta virðist ekki hafa haft nein áhrif á velgengni þessara manna. Þeim er hampað og njóta mikilla vinsælda meðal þjóðarinnar. Þöggunin er alger, og KSÍ ber vitaskuld ábyrgð á henni,“ sagði meðal annars í greininni.

Auglýsing

Samkvæmt heimildum Kjarnans snýst málið sem um ræðir um atburði sem áttu sér stað eftir leik Íslands og Danmerkur þann 7. september 2010 í Kaupmannahöfn. Jafnframt hefur Kjarninn heimildir fyrir því að vitneskja sé um málið innan KSÍ.

Grein Hönnu Bjargar vakti mikla athygli og sá KSÍ sig knúið til að senda út yfirlýsingu fjórum dögum síðar þann 17. ágúst þar sem því var hafnað að sambandið tæki þátt í því að þagga niður ofbeldismál eða hylma yfir með gerendum. Í yfirlýsingunni sagði jafnframt að „dylgjum“ um slíkt væri alfarið vísað á bug.

Yfirlýsing KSÍ 17. ágúst 2021

Að gefnu tilefni

Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ) leggur áherslu á fagleg vinnubrögð þegar fram koma ábendingar eða kvartanir um meint ofbeldi sem með einum eða öðrum hætti má rekja til starfsemi innan hreyfingarinnar. Knattspyrnuhreyfingin á Íslandi er fjölmenn og eru skráðir iðkendur um 30 þúsund. KSÍ hefur ríka hagsmuni af því að sá mikli fjöldi sem starfar eða tekur þátt í starfsemi knattspyrnuhreyfingarinnar hér á landi upplifi öryggi og velferð í starfi sínu eða þátttöku og sambandið tekur skýra afstöðu gegn öllu ofbeldi.

Ef tilkynningar um mál sem tengjast einelti eða ofbeldi (m.a. kynferðisofbeldi) koma inn á borð sambandsins er tryggt að þau fari í viðeigandi ferli. Allir verkferlar slíkra mála hafa verið endurbættir og hafði fyrsta bylgja #Metoo m.a. áhrif þar á. Jafnréttisáætlun og jafnréttisstefna sambandsins hafa verið uppfærðar og er þar fjallað sérstaklega um kynferðislegt ofbeldi. Þá hefur KSÍ staðið fyrir vinnustofu um kynferðisofbeldi fyrir aðildarfélög sín og bætt fræðslu um kynferðisofbeldi inn í námsefni þjálfaramenntunar.

Eins og gefur að skilja eru mál sem varða kynferðisofbeldi vandmeðfarin og kallar meðferð þeirra á fagleg, vönduð og ekki síður yfirveguð vinnubrögð. Ef grunur er um lögbrot er ávallt hvatt til aðkomu lögregluyfirvalda og eins er leitað aðstoðar hjá Samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsmála, sem er sérfræðingur ríkisins í meðferð slíkra mála.

KSÍ getur ekki tjáð sig um einstök mál sem upp kunna að koma á opinberum vettvangi vegna trúnaðar og persónuverndarmála. Rétt er þó að ítreka að KSÍ gerir engar tilraunir til að þagga niður ofbeldismál eða hylma yfir með gerendum. Dylgjum um slíkt er alfarið vísað á bug.

KSÍ er ávallt tilbúið til að gera betur og víkur sér ekki undan málefnalegri gagnrýni á starf sambandsins. Því er samtalið um ofbeldismál mikilvægt og ábendingum sem eru til þess fallnar að bæta hag iðkenda og áhugafólks um knattspyrnu vel tekið.

Hanna Björg brást við yfirlýsingunni með því að rita aðra grein þar sem hún sagði að Knattspyrnusamband Íslands hafði varpað frá sér allri ábyrgð. Hún sagði það áhugavert að KSÍ hefði kallað málflutning sinn „dylgjur“, „í ljósi þess að þolendur kynferðisofbeldis eru gjarnan sagðir með dylgjur þegar þeir stíga fram og segja frá ofbeldinu“.

„Kvartanir um meint brot einstakra leikmanna hafa ekki borist inn á borð KSÍ“

Í kjölfar umræðu um meint kynferðis- og ofbeldisbrot landsliðsmanna og þöggun KSÍ sendi Kjarninn fyrirspurn á deildarstjóra samskiptadeildar KSÍ, Ómar Smárason, þann 18. ágúst með eftirfarandi spurningum:

Almennar fyrirspurnir: Hefur KSÍ einhvern tímann haft vitneskju um ásakanir um kynferðisbrot eða ofbeldi á hendur landsliðsmanna í fótbolta, sér í lagi áður en verkferlar voru endurbættir?

Hefur KSÍ einhvern tímann haft afskipti af málum sem tengjast slíkum ásökunum gegn landsliðsmanni, sér í lagi áður en verkferlar voru endurbættir?

Hefur KSÍ hvatt til aðkomu lögregluyfirvalda eða leitað aðstoðar hjá Samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsmála ef og þegar grunur hefur verið um lögbrot?

Sértæk fyrirspurn: Hafði KSÍ vitneskju af meintu atviki eftir landsleik Danmerkur og Íslands í Kaupmannahöfn í september 2010 þar sem tveir landsliðsmenn voru ásakaðir um kynferðislegt ofbeldi gegn stúlku? Ef svo er, í hvaða verkferla fór það mál?

Auglýsing

Tveimur dögum síðar barst svar frá Ómari.

„Takk fyrir að hafa samband og afsakaðu hversu seint svarið berst.

Eins og fram hefur komið getur KSÍ ekki tjáð sig um eða vísað til einstakra mála. Kvartanir um meint brot einstakra leikmanna hafa ekki borist inn á borð KSÍ. Berist sambandinu slíkar kvartanir liggja fyrir skýrir verkferlar. Eins og fram kemur í yfirlýsingu á heimasíðu sambandsins 17. ágúst sl., leggur sambandið áherslu á fagleg vinnubrögð þegar fram koma ábendingar eða kvartanir um meint ofbeldi sem með einum eða öðrum hætti má rekja til starfsemi innan hreyfingarinnar. KSÍ tekur skýra afstöðu gegn ofbeldi og hvers konar ofbeldi verður ekki liðið innan hreyfingarinnar.

Hvað verkferla varðar þá er rétt að taka fram að í kjölfar fyrstu #Metoo byltingarinnar var farið yfir þá verkferla sem þá voru til staðar og þeir endurbættir eftir þörfum og eftir tilvikum í samráði við aðra arma íþróttahreyfingarinnar. Allir slíkir verkferlar eru jafnframt í stöðugri þróun enda hefur þjóðfélagið, sem betur fer, tekið miklum framförum þegar kemur að því að eiga við mál af þeim toga sem þú vísar til í fyrirspurninni.“

Deildarstjóri samskipta vísar á framkvæmdastjóra sem vísar á formanninn

Kjarninn sendi ítrekun á fyrri spurningum þar sem ekki var ljóst af svari KSÍ að dæma annars vegar hvort KSÍ hefði haft vitneskju um ásakanir um kynferðisbrot eða ofbeldi á hendur landsliðsmanna í fótbolta og hins vegar hvort KSÍ hefði haft afskipti af málum sem tengjast slíkum ásökunum gegn landsliðsmanni. Í síðasta lagi hvort KSÍ hefði einhvern tímann hvatt til aðkomu lögregluyfirvalda eða leitað aðstoðar hjá Samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsmála.

Daginn eftir, þann 21. ágúst, svaraði Ómar fyrir hönd KSÍ og sagði: „Eins og áður hefur komið fram getur KSÍ ekki tjáð sig um eða vísað til einstakra mála nema til að segja að kvartanir um meint brot einstakra leikmanna hafa ekki borist inn á borð KSÍ.“

Kjarninn spurði í þriðja sinn samdægurs: „Hefur KSÍ eða starfsmenn KSÍ haft vitneskju um mál eða beitt sér/haft afskipti í málum án þess að kvörtun hafi borist á borð KSÍ?“

Þremur dögum seinna, 24. ágúst, ítrekaði Kjarninn fyrirspurnina þar sem svar hafði ekki borist. Sama dag svaraði Ómar tölvupóstinum: „Takk fyrir póstinn og eftirfylgnina. Best væri ef þú myndir fylgja fyrirspurninni eftir við Klöru framkvæmdastjóra.“

Kjarninn sendi í framhaldinu sömu fyrirspurn til Klöru Bjartmarz framkvæmdastjóra KSÍ. Daginn eftir ítrekaði Kjarninn fyrirspurnina þar sem ekkert svar hafði borist. Seinna um daginn hafði Kjarninn samband símleiðis við Klöru til að athuga hvort fyrirspurnin hefði verið móttekin. Í því samtali kom fram að fyrirspurnin hefði skilað sér til hennar og að hugsanlega væri von á svari. En hugsanlega myndi hún vísa fyrirspurninni beint á Guðna Bergsson formann KSÍ.

Þann 27. ágúst sendi Kjarninn aðra ítrekun og fékk svar samdægurs frá framkvæmdastjóranum. „Ég er búin að vísa þessari fyrirspurn á Guðna. Þykir leitt hvað þetta hefur tekið langan tíma hjá okkur.“ Enn hefur ekkert svar borist frá Guðna við fyrirspurn Kjarnans.

Landsliðsþjálfarar spjölluðu við blaðamenn um þá leiki sem framundan eru. Stemningin var þung á fundinum í ljósi umræðu síðustu vikna.
Skjáskot/Vísir

Hélt því fram að engar tilkynningar um ofbeldi hefðu komið inn á borð KSÍ í formannstíð hans

Í millitíðinni var landsliðshópur Íslands fyrir komandi verkefni kynntur eða þann 25. ágúst. Landsliðsþjálfarar og aðrir forystumenn KSÍ neituðu meðal annars að ræða mál Gylfa Sigurðssonar, sem grunaður er um kynferðisbrot gegn barni á Englandi. Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari staðfesti þó að „einhver“ innan KSÍ hefði verið í sambandi við Gylfa.

Sama dag sagði Guðni Bergsson, formaður Knattspyrnusambands Íslands, í samtali við Fréttablaðið eftir blaðamannafund í höfuðstöðvum KSÍ að sambandið hefði ekki fengið inn á sitt borð tilkynningar um að leikmenn landsliða Íslands hefðu undanfarin ár beitt einhvers konar ofbeldi.

„Við höfum ekki fengið neinar tilkynningar né ábendingar um slíkt inn á okkar borð síðan ég tók við formennsku en hins vegar erum við meðvituð um frásagnir á samfélagsmiðlum. Það er auðvitað erfitt að alhæfa hvort að slík mál hafi komið inn á borð sambandsins frá upphafi en ef að við fáum ábendingu um að leikmaður okkar hafi eða sé að beita ofbeldi, þá skoðum við það auðvitað og grípum til aðgerða eins og við á og hægt er,“ sagði Guðni við Fréttablaðið.

Daginn eftir fór hann í Kastljósviðtal á RÚV og endurtók þá staðhæfingu að engar kvartanir eða tilkynningar um kynferðisbrot hefðu komið inn á borð KSÍ. „Okkur er mjög umhugað um öryggi okkar iðkenda og almennings og hegðun okkar iðkenda gagnvart umhverfinu. Við höfum vissulega ekkert farið varhluta af þeirri umræðu sem hefur verið upp á síðkastið og undanfarin ár, við tökum mið af því, en við verðum að fá einhvers konar tilkynningu eða eitthvað slíkt, frá vitnum eða þolendum, og ef það gerist gætum við þess að þolandinn fái ákveðna aðstoð og hjálp og við tökum á því af ábyrgð og festu, og við stöndum svo sannarlega gegn öllu ofbeldi, ekki síst kynbundnu og kynferðisofbeldi, við gerum það.“

Guðni sagði enn fremur að gagnrýni á KSÍ vegna þessa væri ómakleg.

Guðni sagði að þau hjá KSÍ hefðu ekki fengið neinar tilkynningar né ábendingar um ofbeldisbrot inn á þeirra borð síðan hann tók við formennsku en hins vegar væru þau meðvituð um frásagnir á samfélagsmiðlum.
Úr safni

Furðar sig á ummælum formannsins

Miklar vendingar urðu í málinu í gærkvöldi þegar kona sem varð fyrir ofbeldi og grófri kynferðislegri áreitni af hálfu landsliðsmanns í knattspyrnu árið 2017 steig fram í fréttum RÚV og greindi frá samskiptum við KSÍ. Hún furðaði sig á að formaður KSÍ fullyrti að engin tilkynning hefði borist sambandinu um kynferðisbrot leikmanna. Konan sagði að lögmaður á vegum KSÍ hefði boðið henni þagnarskyldusamning sem hún hafnaði. Sjálfur hefði landsliðsmaðurinn gengist við brotinu og greitt miskabætur.

Hálfu ári eftir umrætt atvik ætlaði faðir konunnar að fara á vináttulandsleik. Þegar hann áttaði sig á að umræddur fótboltamaður væri í landsliðshópnum sendi hann starfsfólki KSÍ tölvupóst og greindi frá kærunni.

Hann sendi á aðalpóstfang KSÍ, Gunnar Gylfason sem starfaði meðal annars sem fjölmiðlafulltrúi hjá sambandinu, Hauk Hinriksson yfirlögfræðing KSÍ, Jóhann Ó. Sigurðsson á samskiptadeild KSÍ, Klöru Bjartmarz framkvæmdastjóra KSÍ, Óskar Örn Guðbrandsson á samskiptadeild KSÍ, Þorvald Ingimundarson sem starfar meðal annars sem heilindafulltrúi KSÍ og Guðna Bergsson formann KSÍ.

Auglýsing

Yfirskrift tölvupóstsins var: „Ofbeldi og Landsliðið í fótbolta á enga samleið.“ Í póstinum lýsti hann meðal annars furðu sinni á því að maðurinn sem dóttir hans kærði hálfu ári áður fyrir „líkamsárás og grófa kynferðislega áreitni“ væri í landsliðshóp fyrir komandi verkefni.

„Má vera að viðkomandi sé sterkur kandídat til að senda andstæðinga okkar heim af HM með skottið á milli lappana en síðast þegar ég heyrði þá er enginn þeirra með píku til að rífa í og setja leik þeirra þannig úr skorðum,“ stóð í póstinum.

Fékk hann svar frá Guðna sem sagðist taka málið alvarlega. Í kjölfarið ræddi hann við báða foreldra konunnar í síma og sagði að það yrðu afleiðingar af þessu máli.

Faðir stúlkunnar sendi stjórnarmeðlimum KSÍ tölvupóst í mars 2018 og greindi þeim frá máli dóttur sinnar.
Skjáskot/RÚV

„Minnti að þetta brot hefði verið ofbeldisbrot og ekki af kynferðislegum toga“

Í ljósi fyrri ummæla formanns KSÍ spurði fréttamaður RÚV hann hvers vegna hann hefði svarað með þeim hætti sem hann gerði í Kastljósviðtalinu daginn áður. Guðni svaraði og sagði að það hefðu verið mistök að segja að engin tilkynning hefði borist sambandinu um kynferðisbrot af hálfu leikmanns í landsliði karla í knattspyrnu.

„Mig minnti að þetta brot hefði verið ofbeldisbrot og ekki af kynferðislegum toga. En miðað við það sem þú sendir á mig og ég las svo yfir þá sé að svar mitt var ekki nákvæmt og í raun og veru ekki rétt miðað við þessa atvikalýsingu. Og ég biðst velvirðingar á því að sjálfsögðu,“ sagði Guðni.

KSÍ neitar að lögmaður á þeirra vegum hafi haft samband við þolanda

KSÍ sendi frá sér tilkynningu í gærkvöldi eftir umfjöllun RÚV en í henni vildi sambandið taka skýrt fram að það hefði ekki verið lögmaður á vegum KSÍ sem hefði haft samband við konuna og beðið um þagnarskyldu í umræddu máli. Brást hún við á samfélagmiðlum og sagðist muna vel að þetta hefði verið lögfræðingur á vegum KSÍ þar sem henni hefði orðrétt verið boðið á fund með „stjórnarmeðlimum KSÍ og tilteknum landsliðsmanni“ þar sem bera átti undir hana þagnarskyldusamninginn.

„Ég man hversu miklum kvíða það olli mér sú tilhugsun að labba inná fund með nánast eingöngu karlmönnum og standa ein á móti þeim. Og líkt og ég tók fram náðist sátt þar sem ég skrifaði ekki undir neina þagnarskyldu og það var með lögfræðing landsliðsmannsins ásamt honum sjálfum,“ skrifaði hún á Twitter í gærkvöldi.

Konan sagði jafnframt í samtali við fréttastofu RÚV í dag að umræddur lögmaður hefði kynnt sig sem lögmaður leikmannsins þegar hann hafði samband. Hann hefði verið að fiska eftir upplýsingum um hvað hefði átt sér stað og hvernig ofbeldið hefði verið. Hún hefði í framhaldinu sett sig í samband við réttargæslumann sinn sem hefði aflað sér frekari upplýsinga um málið og hann síðan tjáð henni að umræddur lögmaður hefði verið á vegum KSÍ.

Hún sagði að það hefði síðan verið á fundi hennar og annars lögmanns, sem var lögmaður leikmannsins, þar sem sátt náðist. Leikmaðurinn játaði það sem Þórhildur sagði hann hafa gert sér og greiddi henni miskabætur.

Stjórn KSÍ fundaði í hádeginu í dag. Ekki náðist í Guðna Bergsson formann KSÍ við vinnslu fréttaskýringarinnar.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar