Það er leiðinlegt baks að elta ólar við rangfærslur en þó stundum óhjákvæmilegt í pólitík. Ég tel mig hafa staðið rétt að málum í utanríkismálanefnd, samkvæmt minni sannfæringu, og nú með þingstörfum sem eiga að gagnast málstað friðar, mannréttinda, jöfnuðar og mannúðar í Mið-Austurlöndum. Félagið Ísland-Palestína hefur átt minn stuðning vísan alla tíð og enn um hríð má eygja tveggja ríkja lausnina. Ég sit einnig á þingi fyrir stjórnmálahreyfingu sem hefur ætíð staðið með og barist fyrir sjálfstæði Palestínu.
Þannig var þingflokkur VG sá fyrsti til að senda frá sér yfirlýsingu um árásir Ísraelsmanna á Gaza þann 14. maí síðastliðinn. Þar sagði meðal annars:
„Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs fordæmir valdníðslu, margendurteknar landtökur og brottvísanir palestínskra heimamanna úr byggðum sem svo eru eyðilagðar og lagðar undir ísraelska landtökumenn. Þær eru gróf brot á alþjóðasamningum, alþjóðalögum og mannréttindum. Þá eru harkaleg viðbrögð Ísraelsstjórnar við eldflaugaskotum af Gaza strönd til Ísraels, loftárásir með fullkomnum vopnum (eða mannlausum drápstækjum) á ofur þéttbýl svæði Palestínumanna, óverjandi.“
Nokkrum dögum síðar var lögð fram þingsályktunartillaga Pírata þar sem undirritaður og tveir aðrir þingmenn VG eru meðflutningsmenn. Halldóra Mogensen er fyrsti flutningsmaður hennar og er tillagan svohljóðandi:
„Alþingi ályktar að fordæma harðlega ofbeldisaðgerðir ísraelsks herliðs gegn palestínsku þjóðinni sem og landtökustefnu Ísraelsstjórnar. Alþingi skorar á stjórnvöld í Ísrael að hætta þegar í stað hvers konar beitingu hervalds í samskiptum við Palestínu og að flytja herlið sitt og landtökufólk brott af hernumdum svæðum Palestínu.
Alþingi skorar á ríki heims að taka undir þessa fordæmingu, að styðja við mannréttindi og að beita sér fyrir frjálsri Palestínu.”
Þá hefur Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður VG, flutt þingmál í mörg ár sem snýst um vörur frá hernumdu svæðunum. Þar er ég, ásamt þingmönnum Pírata og Samfylkingar, meðflutningsmaður. Katrín Jakobsdóttir, formaður VG og forsætisráðherra ítrekaði svo afstöðu íslenskra stjórnvalda fyrir hönd ríkisstjórnarinnar við utanríkisráðherra Bandaríkjanna og Rússlands í síðustu viku, m.a. með því að ræða tafarlaust vopnahlé.
Mikilvægt er að halda hlutum til haga og leiðrétta rangfærslur. Í síðustu viku bókuðu fulltrúar stjórnarandstöðunnar í utanríkismálanefnd Alþingis um málefni Palestínu og Ísraels eftir töluverðar umræður um starfshætti fastanefnda. Bókunin var ágætlega orðuð að mínu mati og var ég sáttur við innihaldið sem slíkt. Okkur var hins vegar bent á að hún bryti í bága við starfshætti utanríkismálanefndar og skilvirkni hennar. Það lét ég ráða. Hef ég verið gagnrýndur fyrir að taka ekki undir bókunina og því jafnvel haldið fram að VG taki ekki afstöðu í málefnum Palestínu. Það er ekki fótur þessum ásökunum eins og framangreind upptalning gefur til kynna.
Bókanir eru persónulegir, mjög stuttlega orðaðir fyrirvarar þingmanns í þingmálum sem nefndin vinnur með og afgreiðir til umræðu í þingsal, með örstuttri tilvísun í efnið. Þeir þingmenn stjórnarandstöðunnar sem bókuðu álit sitt á málefnum Palestínu og Ísrael eftir töluverðar umræður um starfshætti fastanefnda, vita fullvel að þau voru að reyna að feta alveg nýja braut. Nefnilega þá leið, í fyrsta sinn í sögu utanríkismálanefndar, að bóka afstöðu einstakra þingmanna (hvort sem væri saman í hóp eða á einstaklingsgrunni) til umdeildra utanríkismála. Nefndin hefur heldur aldrei ályktað um slík mál og á ekki að gera það. Ekki heldur skráð bókanir af slíku tagi.
Halda ber starfsaðferðum þingnefnda í horfinu, líka í umræddri nefnd og sama hvert umræðuefnið er. Ella væri til kominn farvegur fyrir deilur og bókanir sem myndu valda starfstöfum á hverju þingi. Enn fremur vafa um umboð þeirra sem þar væru um að véla. Skýrt er að fastanefnd, jafnvel klofin, mælir ekki fyrir hönd Alþingis með bókun, aðeins þeirra sem tjá sig á nefndarfundi með bókuninni. Þess vegna er til „tækið“ þingsályktunartillaga. Fastanefnd getur staðið að slíkri tillögu, rætt um innbyrðis og flutt sjálf. Það hefur utanríkismálanefnd gert tíu sinnum á öllum sínum ferli og þá með samþykki allra nefndarmanna í hvert sinn. Það er samþykkt hennar sem telst afstaða Alþingis. Í þetta sinn vissu allir nefndarmenn að það var ekki í boði vegna andstæðra skoðana fulltrúa flokka um málefnið. Auk þess liggur einmitt fyrrgreind þingsályktunartillaga fyrir þinginu, lögð fram af nokkrum þingmönnum.
Um allt þetta ættu þingmenn að vera sammála, hvað sem frá flokkssetu þeirra líður.
Höfundur er þingmaður Vinstri grænna.