Í kynningu á þjóðarátaki um eflingu læsiskennslu hefur mennta- og menningarmálaráðherra klifað á því að rannsóknir skorti á læsismenntun, aðferðum við hana og árangri af henni – helst í formi skimunarprófa og annarra mælinga. Þetta er athyglisvert í ljósi þess að verkefnisstjóri við aðgerðaáætlun um eflingu læsis fékk ítarlega kynningu haustið 2014 á viðamikilli rannsókn á læsismenntun í íslenskum grunnskólum sem nú stendur yfir. Rannsóknin er í samvinnu rannsakenda við hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri og menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hér er ekki leitt getum að því hvers vegna þessar upplýsingar hafa ekki komið fram, en hvað sem því líður er þessari grein ætlað að vekja athygli á rannsókninni.
Rannsóknarhópur um Byrjendalæsi var stofnaður haustið 2011 til að rannsaka læsiskennslu á yngsta stigi grunnskóla. Efnt var til samstarfs við skóla- og frístundasvið Reykjavíkur og skóladeild Akureyrar. Fyrstu áfangar þessarar rannsóknar beindust sérstaklega að Byrjendalæsi en á síðari stigum hefur gögnum verið safnað um starfshætti og starfsþróun læsiskennara og viðhorf foreldra til læsiskennslu í fyrsta til fjórða bekk í um 120 skólum.
Niðurstöður þessarar rannsóknar eru smátt og smátt að líta dagsins ljós. Hluti þeirra hefur þegar verið kynntur í íslenskri ritrýndri grein og í bókarkafla, og fleiri greinar til birtingar í erlendum tímaritum eru á lokastigi. Niðurstöður hafa einnig verið birtar í um það bil 20 ráðstefnuerindum innanlands og 10 erindum á alþjólegum ráðstefnum. Í einu þessara alþjóðlegu ráðstefnuerinda kynntu til dæmis starfsmenn skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur niðurstöður um árangur þeirra 11 skóla borgarinnar, sem lokið höfðu innleiðingu Byrjendalæsis vorið 2011. Árangurinn var metinn með sex skimunarprófum sem lögð eru fyrir í öllum skólum þau tvö ár sem innleiðing aðferðarinnar stendur. Niðurstaðan sýndi í stuttu máli að enda þótt árangur skólanna væri misjafn var hann mjög góður í mörgum skólanna og heilt yfir gaf hann ekki tilefni til efasemda um gagnsemi Byrjendalæsis.
Í niðurstöðum viðtala við kennara, stjórnendur, foreldra og nemendur í Byrjendalæsisskólum hefur komið fram eindregin ánægja með aðferðina. Kennarar og stjórnendur lýsa einnig mikilli ánægju með samstarfið við Miðstöð skólaþróunar og þá umfangsmiklu viðbótarmenntun sem fylgir innleiðingu Byrjendalæsis. Það er samdóma álit þeirra að þátttaka í þróunarstarfinu leiði af sér öfluga starfsþróun sem hafi breytt miklu um læsiskennslu í skólunum. Breytingar koma meðal annars fram í aukinni áherslu á markvissar kennsluáætlanir og skýr markmið, nám við hæfi ólíkra nemenda, notkun innihaldsríkra og vandaðra texta í kennslunni, frjálsan lestur nemenda, ritun og skapandi málnotkun frá upphafi læsisnáms, lesskilning frá upphafi læsisnáms, fjölbreytt námsverkefni og minnkandi notkun merkingarsnauðra eyðufyllingarverkefna. Vettvangsathuganir staðfesta almenna virkni, vinnugleði og áhuga nemenda. Ítarleg spurningakönnun framkvæmd læsiskennslu á yngsta stigi nær langt út fyrir raðir Byrjendalæsiskóla. Svör kennara við þessum spurningalista bera með sér að læsiskennsla á yngsta stigi grunnskóla standi almennt styrkum fótum og að kennarar í Byrjendalæsiskólum hafi að flestu leyti tileinkað sér þá starfshætti sem aðferðin byggist á.
Læsi er flókið fyrirbæri og við þróun læsiskennslu þarf að gaumgæfa bæði markmið, stefnu, aðgerðir og mat á árangri. Ekkert af þessu getur byggst á einföldum lausnum, átaksverkefnum og slagorðakenndum frösum um aðgerðir og árangursmælingar. Læsi er miklu meira en mælanleg færni; það er háð áhuga og viðhorfum og það felur í sér rökhugsun, lausnaleit, ályktunarhæfni og gagnrýna hugsun. Umfram allt þurfa börn sem eru að læra að lesa að vera virk við fjölbreytt og skapandi viðfangsefni sem kveikja varanlegan áhuga þeirra á lestri og ritun. Rannsóknin á læsiskennslu á yngsta stigi grunnskóla tekur mið af þessu og á næstu mánuðum verður leitast við að miðla niðurstöðum hennar um þennan fjölbreytta veruleika bæði á innlendum og erlendum vettvangi.
Meira um rannsóknina: http://staff.unak.is/not/runar/Rannsoknir/BL_rannsokn.htm
Höfundur er prófessor við kennaradeild HA og verkefnisstjóri rannsóknar á Byrjendalæsi.