Sigga í barnaverndinni átti heima beint á móti. Hún kom reglulega við heima og bað mömmu og pabba að hafa ekki svona hátt og drekka minna. Seinna var ástandið orðið svo slæmt að Sigga bað ömmu um að taka mig að sér því þetta var svo erfitt fyrir mig. En ekki Dúnu litlu systur. Hún átti að vera áfram hjá mömmu og pabba, því hún var svo lítil. Mig dreymdi oft að ég myndi fara og bjarga Dúnu. Bjarga henni um miðja nótt frá mömmu og pabba.
Hann er óalandi og óferjandi. Hann þarf örugglega að fara í ADHD greiningu sagði starfsfólkið. Hann fór í greiningu. Niðurstaðan var sú að hann var ekki með ADHD heldur bjó hann við hryllilegt heimilisofbeldi. Vanlíðan barnsins var mikil og braust út í óæskilegri hegðun í skólanum.
Drengur kom til mín og sagði mér að pabbi hans rassskellti hann. Mér fannst um minniháttar ofbeldi að ræða og tilkynnti það því ekki. Sagði skólastarfsmaður.
Ofbeldi gagnvart börnum á ekki að viðgangast. Ekki heldur minniháttar ofbeldi. Ekkert og aldrei!
55 aðgerðir gegn ofbeldi í Reykjavík
Á borgarstjórnarfundi 1. febrúar var Aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar gegn ofbeldi 2022-2024 samþykkt og henni fagna ég innilega. Samkvæmt áætluninni vinnur borgin eftir Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og þar segir meðal annars í 19. grein sáttmálans 1. tölulið: „Aðildarríki skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir á sviði löggjafar, stjórnsýslu, félags- og menntunarmála til að vernda barn gegn hvers kyns líkamlegu og andlegu ofbeldi, meiðingum, misnotkun, vanrækslu, skeytingarleysi, illri meðferð eða notkun, þar á meðal kynferðislegri misnotkun…“
Ein ömurlegasta skuggahlið heimsfaraldursins er gífurleg aukning á heimilisofbeldi, auknu ofbeldi gegn konum og börnum. Á Íslandi hefur tilkynningum um heimilisofbeldi einnig fjölgað mjög. Heimilisofbeldi bitnar alltaf á börnum ef börn eru á heimilinu, líka í þeim tilfellum þegar ofbeldinu er ekki beint að þeim.
Því miður hefur tilkynningum til barnaverndar fjölgað verulega á síðastliðnum tveimur árum og er því brýnna nú en nokkurn tíma áður að tryggja öryggi og velferð barna og koma í veg fyrir hverslags ofbeldi eða vanrækslu gagnvart þeim.
Oft er sagt að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn. Þess vegna vil ég minna á að það er borgarleg skylda allra að tilkynna hverslags grun um vanrækslu eða ofbeldi gegn börnum, hvort sem þau eru tengd okkur eða ekki.
Aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar gegn ofbeldi kemur fram á heppilegum tíma nú þegar fjölmiðlar eru hlaðnir af hryllingssögum um ofbeldi í kjölfar #meetoo byltingar um allan heim og þeirri skelfilegu staðreynd um gríðarlega aukningu á tilkynningum um ofbeldi í heimsfaraldrinum.
Ég vil því hvetja þig til að kynna þér aðgerðirnar sem fram koma í áætluninni og standa vörð um börnin okkar. Þannig gerum við góða borg betri og fjölskylduvænni.
Höfundur er borgarfulltrúi sem sækist eftir 4. sæti í flokksvali Samfylkingarinnar í Reykjavík sem fer fram 12.-13. febrúar nk.