Nú er staðan þannig, að sumt krabbameinssjúkt fólk fær ekki þá þjónustu sem það hefur fengið til þessa, vegna kjaradeilna sérfræðimenntaðs fólks sem starfar á vegum ríkisins í heilbrigðiskerfinu. Það er varla hægt að færa það í orð, hversu alvarlegt það er, en sjúklingar hafa að undanförnu verið að skrifa greinar í blöðin vegna þessarar stöðu og minna á alvöru lífsins.
Það má tiltaka fleiri mikilvæg störf innan BHM, og alvarleg áhrif vegna kjaradeilnanna. Til viðbótar kemur síðan hin grafalvarlega staða sem uppi er á almennum vinnumarkaði, en líkt og kom fram í Kastljósi í kvöld hjá forsvarsfólki í kjaraviðræðunum, beggja megin borðsins, þá er engin sátt í sjónmáli. Verkfallsaðgerðir sem ná til 140 þúsund Íslendinga eru hugsanlega sviðsmynd.
Augljóslega má greina mikið vantraust á stjórnvöldum í þessum aðstæðum. Samfélagsmiðlarnir eru ekki síst vettvangur slíkrar umræðu, og þá eru jafnan horft til orða og efnda stjórnmálamanna. Salvar Þór Sigurðsson er einn þeirra sem heldur stjórnmálamönnum við efnið, með því að minna þá á þeirra eigin orð. Hann rifjaði meðal annars upp þessi orð Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, þegar hann var í stjórnarandstöðu:
„Það er hlutverk ríkisstjórnar á hverjum tíma að leiða saman þjóðina, skapa sátt í samfélaginu, koma á friði og ró á vinnumarkaði eftir því sem ríkisstjórnin hefur eitthvað fram að færa í þeim efnum, en ekki að efna til átaka, svika og sundrungar í samfélaginu. Því miður hefur allt kjörtímabilið einkennst af brostnum væntingum launafólks, atvinnuveitenda og launþegahreyfingar. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem svik eru borin upp á ríkisstjórnina. Þetta er bara enn eitt skiptið.“ Svo mörg voru þau orð, á þeim tíma.
"Ég vil inna [forsætisráðherra] frétta af framlagi ríkisstjórnarinnar til gerðar kjarasamninga. Nú virðist sem...Posted by Salvar Þór Sigurðarson on Monday, May 4, 2015
Nú er raunveruleikinn að berja að dyrum hjá Bjarna, og staðan enn svartari en hún var. Spjótin beinast nú að honum og raunar allri ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Hvað sem ráðherrarnir tauta og raula um ábyrgð þeirra sem eru að reyna að ná sáttum, það er aðila vinnumarkaðarins, þá geta þeir ekki vikið sé undan sinni eigin ábyrgð. Þeir þurfa að leggja eitthvað til lausnar á málinu, sem heldur verðbólgudrauginum í skefjum en um leið viðurkennir mannsæmandi laun fólksins á gólfinu og mikilvægi sérfræðimenntunar sömuleiðis. Þetta er ekki auðvelt, en tillögur að lausnum þurfa að koma frá stjórnvöldum.