Fjármál ber oft á góma í umræðunni um málefni borgarinnar. Oftar en ekki er því haldið fram allt sé þar í kaldakoli, skuldirnar geigvænlegar og fari sífellt hækkandi. Sá sem hefur verið hvað duglegastur í þessum efnum er Eyþór Laxdal Arnalds fráfarandi leiðtogi Sjálfstæðismanna í borgarstjórninni. Aðrir hafa tekið undir þennan málflutning og fullyrða blákalt að allt sé að fara fjandans til í rekstri borgarinnar. Einn þeirra er Kjartan Magnússon sem lengi hefur verið viðloðandi borgarstjórnina nú síðast sem aðstoðarmaður fyrrnefnds Eyþórs. Hann hlaut 3. sætið í nýafstöðnu prófkjöri D-listans og hafði eftirfarandi að segja um fjármál borgarinnar ,,Mjög hefur sigið á ógæfuhliðina í fjármálum og eru skuldir nú komnar yfir 400 milljarða króna, sem jafngildir tólf milljónum á hverja fjögurra manna fjölskyldu í borginni. Greiðsluþrot er fyrirsjáanlegt hjá borginni ef haldið verður áfram á braut óráðsíu og skuldasöfnunar.“ Nýlega sögðu keppinautar um efsta sæti Sjálfstæðisflokksins í sjónvarpskynningu að ,,stjórnleysi einkenni rekstur borgarinnar sem hafi verið rekin með Vísa-kortinu“. Í viðtali í Kastljósi 10. mars sl. toppaði Vigdís Hauksdóttir þennan málflutning með því að fullyrða að ekkert væri framundan annað en að eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga yfirtæki rekstur borgarinnar og hún yrði upp á náð og miskunn ríkissjóðs komin.
Til að hafa þetta allt á hreinu þá er rétt að kanna réttmæti þessara staðhæfinga. Í því skyni er einfaldast að afla sér upplýsinga á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga en þar er að finna ítarleg tölfræðigögn um fjármál sveitarfélaganna.
Við skulum skoða þrjár lykiltölur. Í fyrsta lagi skuldahlutfallið þ.e. hlutfall. milli skulda og heildartekna ársins en þar er miðað við að hlutfallið fari ekki yfir 150%. Sveitarfélagið má m.ö.o. ekki skulda meira en 50% hærri upphæð en sem nemur heildartekjum ársins. Í öðru lagi skulum við kíkja á skuldir pr. íbúa og í þriðja lagi skulum við finna út peningalega stöðu, svokallað veltufjárhlutfall, um áramótin 2020/2021. Til að fá samanburð tökum við öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, Hafnarfjörð, Garðabæ, Kópavog, Mosfellsbæ og Seltjarnarnes auk Reykjavíkur.
Skuldahlutfallið er lægst í Reykjavík
Á þessu línuriti sést að skuldahlutfall Reykjavíkurborgar er lægst eða 96% og langt undir þeim viðmiðum sem sett hafa verið en hæst hjá Hafnarfjarðarbæ 160%.
Skuldir pr. íbúa eru lægstar í Reykjavík
Ef við skoðum skuldir á íbúa þá er sama sagan, í Reykjavík er talan lægst eða 930 þúsund krónur á íbúa en hæst í Hafnarfirði 1558 þúsund.
Veltufjárhlutfallið er hæst í Reykjavík
Veltufjárhlutfallið segir okkur til um peningalega stöðu um áramót og mikilvægt að það sé 1,0 eða hærra sem þýðir að sveitarfélagið hefur laust fé um áramót og útistandandi skuldir sem gjaldfalla á árinu til að greiða allar lausaskuldir og afborganir af lánum á komandi ári. Reykjavík er eina sveitarfélagið sem hefur veltufjárhlutfall yfir 1,0 eða 1,3. Mosfellsbær er með lægsta hlutfallið eða 0,6. Það sem er þó athyglisverðast hér er hrun fjármála Seltjarnarness á tímabilinu frá 2016 en veltufjárhlutfallið fellur úr 3,7 í 0,7. Sama gildir raunar um aðra mælikvarða, í algjört óefni stefnir í fjármálum þess sveitarfélags ef fram fer sem horfir.
Niðurstaða
Af því sem á undan er rakið er ljóst að fullyrðingar um laka fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar og hvað þá að í eitthvað óefni stefni eru algjörlega úr lausu lofti gripnar. Staðan er í raun þveröfug, borgin stendur best fjárhagslega allra sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu á nánast öllum mælikvörðum. Til viðbótar má nefna að borgin sinnir mikilvægum málaflokkum eins og velferðarþjónustu mun betur en hin sveitarfélögin og eyðir þar af leiðandi hlutfallslega mun meiri fjármunum í því skyni. ( Sjá grein Sigurðar Guðmundssonar) Þessi staðreynd gerir góða fjárhagslega stöðu Reykjavíkurborgar enn athyglisverðari.
Óneitanlega vaknar sú spurning hvers vegna því er haldið fram að borgin standi mjög illa? Annað hvort er um vísvitandi ósannindi að ræða (í anda þessara ummæla Nixons fyrrum forseta USA um pólitíska andstæðinga sína: „let the bastards deny it“) eða þá að um mjög yfirgripsmikla vanþekkingu sé að ræða. Hvorugt er gott.
Höfundur er fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga.