Fyrir tíu dögum síðan sáu fáir fyrir sér að sitjandi ríkisstjórn, með traustan þingmeirihluta, bullandi sjálfstraust sem jaðraði við hroka og vind í seglunum vegna betri efnahagskennitalna myndi grafa sér það djúpa holu að hún muni mögulega ekki geta kraflað sig upp úr henni. Það er hins vegar nákvæmlega það sem hefur gerst.
Yfirlýstar breytingar á lögum um Seðlabankann, sem báru öll merki þess að vilja vængstýfa stofnunina með pólitísku herðiefni, hófu óróleikann. Eldra fólk sá þá fyrir sér Ísland æsku sinnar og það yngra samfélag fjarri því alþjóðavædda og frjálslynda markaðssamfélags sem það telur sjálfsagt. Og það var greinilegt að fáum, utan fálkanna og hrútanna í stjórnarflokkunum, líkaði sú sýn sem blasti við.
Lofað og svikið
Tilraun stjórnarflokkanna til að slíta Evrópusambandsviðræðum á grundvelli skýrslu sem gefur ekkert tilefni til slíks, með ótrúlega orðaðri þingsályktunartillögu, sprakk síðan allrosalega í andlitið á þeim. Svo virðist sem að þeir hafi einfaldlega talið hausa á þinginu og haldið að það myndi nægja að keyra þetta risastóra hagsmunamál, sem hefur áhrif á alla Íslendinga, í gegn. Það reyndist gríðarlegt, gríðarlegt ofmat.
Upp risu allir sem hafa áhuga á að fá sjálfir að velja hvernig framtíðin sín lítur út. Evrópumálin voru nefnilega ekki kosningarmál í síðustu alþingiskosningum. Sjálfstæðisflokkurinn tryggði það með því að lofa þeim armi flokksins sem er Evrópumeginn í lífinu að hann myndi fá að kjósa um áframhald viðræðna á þessu kjörtímabili. Fjórir af fimm ráðherrum flokksins lofuðu þessu í beinni útsendingu í sjónvarpi fyrir innan við ári síðan. Og flokkurinn lofaði þessu í kosningaráróðri. Það er enginn vafi á því að þessi loforð voru gefin. Og þau voru svikin. Internetið gleymir ekki.
Flokksþing og landsfundur eru þjóðin
Þótt Framsóknarflokkurinn hafi eytt mesta púðrinu í sinni kosningabaráttu í að sannfæra fólk um að hann ætlaði að gefa þeim skattfé ef það myndi kjósa hann, með gríðarlega góðum árangri, þá stundaði hann líka Evrópuloforðaflaum gagnvart þeim kjósendum sem hugsuðu ekki bara um hvað kosningar gætu gert fyrir sinn eigin persónulega bankareikning. Þegar gengið var á Frosta Sigurjónsson, þingmann flokksins, vegna þessarra fyrirheita, kom hann með þá skýringu að um varnagla hefði verið að ræða. Þessi loforð áttu bara við ef ske kynni að Framsókn lenti í ríkisstjórn með flokkum sem væru fylgjandi Evrópusambandinu. Það gleymdist alveg að útskýra þennan varnagla fyrir kjósendum.
Sigrún Magnúsdóttir, þingflokksformaður Frosta, tilkynnti þjóðinni það síðan í morgun að þjóð ræður engu. Það eru flokksþing Framsóknarflokksins og landsfundur Sjálfstæðisflokksins sem ákveða hvernig hlutirnir eiga að vera. Þar liggur æðsta valdið. Þau eru þjóðin. Þess vegna eru þjóðaratkvæðagreiðslur einungis „ráðgefandi“ og skipta engu máli. Þess má geta að könnun sem birt var sama morgun sýnir að 82 prósent Íslendinga vilja kjósa um áframhald viðræðna við Evrópusambandið. Meira að segja meirihluti aðspurðra Framsóknarmanna vildu kjósa um það. En það hefur greinilega ekki verið sá hluti þeirra sem mætir á flokksþing.
Áætlunarbúskapur og einangrunarhyggja
Til að bæta gráu ofan á svart ákváðu átta Framsóknarþingmenn að nú væri góður tími til að leggja fram þingsályktunartillögu um að ríkið myndi reisa áburðarverksmiðju í Helguvík eða í Þorlákshöfn „til að laða brottflutta Íslendinga aftur heim og til að vekja ungum Íslendingum von í brjósti um að stjórnvöld ætli sér að skapa þeim tækifæri og atvinnuöryggi í framtíðinni“. Fjárfesting í verksmiðjunni á að nema 120 milljörðum króna. Það er 40 milljörðum krónum meira en til stendur að eyða í skuldaniðurfellingar.
Þessi framlagning sýnir gríðarlegt pólitískt ólæsi. Fyrir utan að vera hugmynd sem ætti betur heima í fimm ára plönum ráðstjórnarríkja austurblokkarinnar eftir síðustu heimstyrjöld þá er það staðreynd að „starfsmaður í áburðarverksmiðju“ er ekki svar sem nokkur Íslendingur myndi láta út úr sér þegar hann yrði spurður að þvi hvað hann vilji vera þegar hann er orðinn stór. Þvert á móti er unga kynslóðin hér meira í því að reyna að koma sér inn í bestu háskóla í heimi og búa sér til eigin tækifæri í nýsköpun en að láta Framsóknarflokkinn kokka stoðatvinnuvegaheimsýn sína ofan í sig.
Tollamúrarar skipaðir í tollahóp
En Seðlabankayfirtakan, einhliða lokun á Evrópusambandið og áburðaverksmiðjuævintýrið var ekki nóg. Í kjölfar þess að Íslendingar virðast vilja taka hagsmuni neytenda fram yfir sérhagsmuni stórkostlega niðurgreidds landbúnaðar, og jafnvel að fá að kaupa ótollaða buffala- og kengúruosta ákvað landbúnaðarráðherra, að skipa tollahóp til að endurskoða tollalöggjöf í landbúnaði.
Í hann voru meðal annars skipaðir fulltrúar Bændasamtaka Íslands, Kaupfélagi Skagfirðinga og Mjólkursamsölunnar. Sem sagt fulltrúar þess hluta Framsóknarflokksins sem mætir á flokksþing. Og er þar af leiðandi þjóðin. Enginn fulltrúi neytenda né verslunar og þjónustu er í hópnum. Það vantar í raun bara Guðna Ágústsson til að fullkomna skipanina. Manni myndi ekki bregða þótt niðurstaða tollahópsins yrði sú að tollar væru allt of lágir og þá yrði að hækka.
Einangraða auðlindaríkið í Norðurslóðarlandi
Ofan á þetta allt saman eru kjarasamningar í uppnámi, enn á eftir að afnema gjaldeyrishöft, framhaldsskólakennarar eru að fara í verkfall eftir tæpar þrjár vikur og pískrað er um að verið sé að fara að gera rosalega stóra gjaldeyrisskiptasamninga við mannréttindafrömuðina í ráðstjórnarríkjunum Kína og Rússlandi. Hinn raunverulegi utanríkisráðherra landsins, Ólafur Ragnar Grímsson, hefur örugglega nýst vel í þær umleitanir á meðan að hann hékk í kokteilboðum hjá Vladimír Pútín á sama tíma og öryggislögreglan var að berja Pussy Riot með svipum í Sochi.
Svo virðist sem það eigi að byggja upp einangrað, þjóðrækið Ísland sem ætlar að reka sig á áætlunarbúskap með örfáum auðlindageirum og marka sér einhverja sterka stöðu í Norðurslóðalandi framtíðar, þar sem St. Pétursborg verður víst höfuðborgin (samkvæmt Ólafi Ragnari). Þetta land ætlar að nýta orkuna sína til að byggja upp verksmiðjur og skapa störf í héruðunum.
Þetta land ætlar að vera með eigin gjaldmiðil, sem formaður Samtaka atvinnulífsins segir reyndar að kosti fyrirtæki og heimili landsins 150 milljarða króna aukalega á ári að halda úti. Þetta land ætlar að stýra sínum stofnunum pólitískt. Hér verður þétt og fámenn valdastétt pólitíkusa, kaupfélags og útgerðar sem deilir og drottnar. Svona horfir, í alvöru, framtíðarsýnin sem ríkisstjórnin virðist boða við mörgu fólki.
Siglt inn í kosningar
Og með þetta allt saman á bakinu er verið að sigla inn í sveitarstjórnarkosningar. Þar munu frambjóðendur ríkisstjórnarflokkanna þurfa að eyða allri orku sinni í að sannfæra kjósendur um að kosningarloforð þeirra séu ekta, þótt þau séu það ekki í landsmálunum.
Þar hafa stjórnmálamenn enda slegið ný met í fáránleika við útskýringar á því hvað sé svik og hvað ekki. Skýringar þeirra eru á pari við að Feministafélag Íslands myndi segja að það væri ekki kvenfyrirlitning að kalla konur mellur.
Fyrir tíu dögum síðan áttu fáir von á því að sitjandi ríkisstjórn væri hæstánægð með Hildi Lilliendahl fyrir að stela athyglinni af sér, þótt það verði líklega bara um stundarkorn. En það hefur margt gerst á tíu dögum. Og margt mun gerast á næstu tíu, því það eru allt í einu raunverulegar líkur á því að handsprengjan sem ríkisstjórnin gleypti muni springa.