Í gær var 1. maí. Sem maður á þrítugsaldri tilheyri ég líklegast þeirri ungu kynslóð launafólks sem finnast 1. maí fundarhöld rosalega 1932 eitthvað. Eins og þetta tilheyri tíma Sósíalistaflokksins og Gúttóslagsins og álíka viðburða sem maður lærði um í samfélagsfræði í 10. bekk. Hvaða erindi á svona verkalýðsbaráttudagur við nútímann? En þegar maður hugsar um tilefnin, ástæðurnar fyrir því að við fylkjum liði á þessum alþjóðlega baráttudegi verkalýðsins, þá furðar maður sig á því að í 1. maí göngunni séu ekki bara hreinlega allir Íslendingar.
Og þó, kannski ekki allir.
Ekki það 1% Íslendinga sem eiga 25% af auð þjóðarinnar.
Jafnvel ekki þau 10% Íslendinga sem eiga 75% af auð þjóðarinnar.
Þessir Íslendingar sitja líklega sáttir í sumarbústöðum sínum á þessum degi.
Sáttir við afnám auðlegðarskattsins.
Sáttir við styttingu atvinnuleysisbótatímabilsins.
Sáttir við lækkun veiðigjalda.
Sáttir við vaxandi ójöfnuð.
Sáttir við að aðeins 2% virðisauka fiski- og orkuauðlinda endi hjá eiganda auðlindarinnar, þjóðinni.
Sáttir við tugprósentahækkun launa stjórnenda stórútgerðanna.
Sáttir við íspinna sem kaupauka starfsmanna á plani hjá þessum sömu stórútgerðum.
Sáttir við 33% launamun kynjanna.
Þessir fáu útvöldu láta sér í léttu rúmi liggja að nú sé í gangi mesta verkfallshrina í áratugi, að stéttir eins og læknar finni sig knúna til að fara í verkfall í fyrsta sinn í Íslandssögunni og menntaðir
Íslendingar skuli nú í auknum mæli flytjast af landi brott.
Núverandi ríkisstjórn er ríkisstjórn þessara 10%.
Ekki ríkisstjórn heldur ríkrastjórn.
Hún blæs á sjálfsagða kröfu verkalýðshreyfingarinnar um 300.000 kr. lágmarkslaun, og stingur jafnvel upp á að kannski sé nú vandamálið bara að jöfnuður í samfélaginu sé orðinn of mikill!
Kæra launafólk, sem ungur maður segi ég við ykkur: Jafnaðarstefnan á jafn vel við nú og 1932. Hver sá launamaður sem telur að jafnaðarstefnan sé úrelt fyrirbæri hefur gleymt sínum eigin hagsmunum. Við jafnaðarmenn stöndum eðli málsins samkvæmt með verkfallsbaráttu launafólks. Göngum af 1. maí fundarhöldum baráttureif og stolt af hugsjón jafnaðarstefnunnar.
Höfundur er varaformaður Ungra jafnaðarmanna.