Samfylkingin er stjórnmálaafl í mikilli baráttu fyrir tilveru sinni. Augljóst er að mikil innanflokksátök eiga sér stað milli fylkinga um hver eigi að stýra flokknum. Þau komu bersýnilega fram þegar áhrifahópur flokksmanna fylkti sér á bakvið Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur á landsfundi flokksins í mars, þar sem hún var einu atkvæði frá því að steypa sitjandi formanni, Árna Páli Árnasyni, af stóli. Nýverið var síðan lögð fram tillaga í framkvæmdastjórn flokksins þess efnis að flýta ætti landsfundi svo hægt verði að kjósa nýja forystu, um 100 dögum eftir að ný forysta var kosin.
Á sama tíma og þessar deilur eru að opinberast heldur fylgi flokksins á landsvísu áfram að hverfa. Samfylkingin beið afhroð í alþingiskosningunum 2013 og mælist nú með svipað fylgi og Alþýðuflokkurinn fékk í síðustu kosningunum sínum áður en hann rann inn í Samfylkinguna, þegar Alþýðuflokkurinn fékk 11,4 prósent atkvæða. Hin framboðin sem buðu fram 1995, en gengu síðar til liðs við Samfylkinguna (Alþýðubandalagið, Þjóðvaki og Kvennalistinn), fengu samtals 26,4 prósent atkvæða í þeim kosningum. Samanlagt fylgi þeirra stjórnmálaflokka sem mynduðu Samfylkinguna var því 37,8 prósent áður en hún var mynduð. Flokkurinn hefur aldrei náð slíku fylgi í kosningum og mælist nú með 11,4 prósent fylgi samkvæmt nýjustu könnun.
Árni Páll sagði í nýlegu útvarpsviðtali að það væri áfellisdómur yfir honum sjálfum og Samfylkingunni að fólk líti ekki á flokkinn sem vettvang fyrir „hugmyndalega nýsköpun á vettvangi íslenskra stjórnmála". Hann sagði að flokkurinn væri ekki hluti af fjórflokknum né kerfisflokkur heldur umbótahreyfing sem hafi barist um með hæl og hnakka fyrir opnu samfélagi, auknu lýðræði, Evrópusambandsaðild og stjórnkerfisumbótum. Allir þessir þættir eru mjög ráðandi á meðal áherslna kjósenda sem vilja ekki kjósa fjórflokkinn svokallaða.
Að mati Árna Páls eru kjósendur því að upplifa Samfylkinguna á annan hátt en hún er. Það mætti segja að hann haldi að það sé rof milli skynjunar og raunveruleika hjá kjósendum. Þeir sjái einfaldlega ekki hvað Samfylking sé frábær.
Að mati Árna Páls eru kjósendur því að upplifa Samfylkinguna á annan hátt en hún er. Það mætti segja að hann haldi að það sé rof milli skynjunar og raunveruleika hjá kjósendum. Þeir sjái einfaldlega ekki hvað Samfylking sé frábær.
Í bakherberberginu hefur þessi sýn formanns Samfylkingarinnar verið mikið til umræðu að undanförnu. Þar er rætt um nokkur augljós atriði sem fælt hafa fólk sem vill „hugmyndafræðilega nýsköpun á vettvangi íslenskra stjórnmála“ frá flokknum. Þar ber að nefna ofuráherslu á inngöngu í Evrópusambandið sem lausn á nánast öllum vandamálum íslenskrar þjóðar, meint svik Árna Páls í stjórnarskrármálinu og lítil tengsl við þá nánast fordæmalausu stéttarbaráttu og vinnumarkaðsdeilur sem riðið hafa yfir íslenskt samfélag undanfarin misseri.
Forysta flokksins liggur undir ámæli fyrir að vera „Epal-kommar“, elíta sem er ekki í neinum tengslum við þá kjósendur sem flokkurinn vill í orði ná til. Samfylkingin er því að glíma við nákvæmlega sömu tilvistarkreppu og hinir kerfisflokkarnir. Lausafylgið svokallaða, sem vill breytt stjórnkerfi, beinna lýðræði og sanngjarnara samfélag, lítur á þá alla sem hluta af vandamálinu frekar en hluta af lausninni. Rofið margfræga virðist vera mun meira hjá stjórnmálamönnunum frekar en kjósendunum.