Þann 24. september næstkomandi verða liðin sex ár frá því að þeir Haraldur Johannessen, fyrrverandi ritstjóri Viðskiptablaðsins, og Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, tóku við sem ritstjórar Morgunblaðsins.
Á þeim tíma hafa ritstjórar blaðsins fundið RÚV, eða Ríkisútvarpinu eins og þeir kalla iðulega félagið, flest til foráttu. Það hefur blasað við flestum sem fylgjast með umræðunni, að Morgunblaðið hefur haft horn í síðu RÚV á undanförnum árum, og þá sérstaklega eftir að Davíð og Haraldur tóku við sem ritstjórar blaðsins.
Einn fastagestur í bakherberginu gerði það að gamni sínu á dögunum að fletta upp orðinu Ríkisútvarp* í greinasafnsleitarvél Morgunblaðins á netinu. Tímabilið sem var undir var frá 25. september 2009 til dagsins í dag og hakað var skilmerkilega við ritstjórnargreinar. Um er að ræða Reykjavíkurbréf, Staksteina og leiðara Morgunblaðsins.
Samkvæmt leitarvél Morgunblaðsins hefur orðið Ríkisútvarp komið fyrir í 300 ritstjórnargreinum á tímabilinu. Þó ritstjórarnir nefni aldrei aftur Ríkisútvarpið á nafn fram að sex ára ritstjóraafmælinu í þann 24. september næstkomandi, hefur þeim samt tekist að minnast á RÚV að meðaltali 50 sinnum á ári, eða næstum einu sinni í viku. Síðasta ritstjórnargreinin þar sem minnst er á ríkisfjölmiðilinn leit dagsins ljós í fyrradag, en þar eru vinnubrögð fréttastofu RÚV gagnrýnd.
Í bakherberginu vakti fjöldi ritstjórnargreinanna nokkra athygli, þó fjöldinn hafi ekki endilega komið konum og körlum þar á óvart. Þá var ekki ráðist í vísindalega rannsókn í bakherberginu á því hvort almennt væri um að ræða neikvæðar greinar í garð RÚV, en augljóst væri að ritstjórar Morgunblaðsins hefðu mikinn áhuga á RÚV. Svo ekki væri fastar að orði kveðið.