Undanfarna mánuði hefur verið tilkynnt um lagningu þriggja nýrra öflugra sæstrengja (háspennukapla neðansjávar) í vestanverðri Evrópu. Þessir þrír strengir eru í fyrsta lagi NordLink, sem lagður verður milli Noregs og Þýskalands, í öðru lagi NemoLink sem lagður verður milli Belgíu og Bretlands og í þriðja lagi NSN-Link (eða NSN-Interconncetor) sem lagður verður milli Bretlands og Noregs. Hér verður útskýrð sú þróun sem þarna hefur átt sér stað síðustu árin og gerð grein fyrir helstu ástæðum þess af hverju mörg lönd eru svo áhugasöm um að tengjast raforkukerfi annarra landa með þessum hætti.
NordLink, NemoLink og NSN-Link
Nýju sæstrengirnir tveir sem munu tengjast Noregi verða báðir með flutningsgetu sem nemur 1.400 MW. Lengd þeirra neðansjávar verður annars vegar 516 km (NordLink) og hins vegar 730 km (NSN-Link). Sæstrengurinn milli Belgíu og Bretlands (NemoLink) verður 1.000 MW og 140 km.
Eignarhaldið á þessum strengjum er með þeim hætti að NemoLink verður í jafnri eigu breska National Grid og belgíska Elia, en bæði þessi fyrirtæki hafa svipað hlutverk eins og Landsnet hér á landi. NSN-Link milli Noregs og Bretlands verður í jafnri eigu National Grid og norska Statnett. NordLink milli Noregs og Þýskalands verður í eigu þriggja fyrirtækja; Statnett verður helmingseigandi og hollenska TenneT og þýski bankinn KfW eiga saman helming.
TenneT er raforkuflutningsfyrirtæki (líkt og Landsnet) og rekur m.a. hluta af flutningskerfinu í Þýskalandi. KfW er aftur á móti fjármálafyrirtæki. Í þessu sambandi er athyglisvert að fjárfestingasjóðir eru oft áhugasamir um að eiga í svona innviðum. Þannig er t.d. háspennustrengur milli meginlands Ástralíu og áströlsku eyjarinnar Tasmaníu (Basslink) í eigu fjárfestingasjóðs á vegum Temasek Holdings, sem er ríkisfjárfestingasjóður Singapore. Og kanadískir og arabískur sjóður eiga stóran hlut í gasflutningskerfi Norðmanna í Norðursjó. Með hliðsjón af þessu er augljóst að ýmis konar eignarhald tíðkast vegna háspennukapla af því tagi sem hér eru til umfjöllunar, svo og vegna annarra ámóta innviða.
Eðlilegt framhald í þróun raforkukerfisins
Í sjö ár hefur sæstrengurinn NorNed milli Noregs og Hollands verið lengsti rafstrengur í heiminum í sjó. Hann er um 580 km langur og flutningsgetan nemur 700 MW.
NorNed er aftur á móti ekki sá sæstrengur af þessu tagi sem fer dýpst. Í dag er dýptarmetið í höndum 435 km langs sæstrengs í Miðjarðarhafi, sem kallaður er SAPEI og liggur milli Ítalíuskagans og eyjarinnar Sardiníu. Hann fer niður á 1.600 m dýpi. SAPEI var tekinn í notkun árið 2011 og er 1.000 MW. Í Miðjarðarhafi er líka annar stór rafmagnskapall sem fer niður á næstum því jafn mikið dýpi, en það er COMETA-strengurinn milli meginlands Spánar og eyjarinnar Majorku. COMETA fer mest niður á 1.500 m dýpi.
Það hafa því í nokkur ár verið reknir sæstrengir sem liggja um 1.500-1.600 m hafdýpi. Og lengd slíkra strengja er nú allt að 580 km. Flutningsgeta sæstrengja af þessu tagi er afar mismunandi, en góð reynsla er komin á strengi upp á 700-1000 MW.
Fjölmargir aðrir minni sæstrengir hafa um árabil og áratugaskeið flutt raforku með afar góðum árangri. Eins og áður sagði munu bæði NordLink og NSN-Link verða mun öflugri en lengstu strengir af þessu tagi eru í dag. Þetta er til marks um tækniþróunina í raforkuflutningum og gott dæmi um hvernig lönd sjá auknar tengingar af þessu tagi sem jákvæða þróun.
Hvar liggja ystu mörk sæstrengjatækninnar í dag?
Ekki er unnt að fullyrða nákvæmlega um það hversu öfluga eða langa sæstrengi er unnt að byggja og reka með hagkvæmum hætti. En sé litið til þess sem segir á vefsvæði fyrirtækisins ABB má fá vísbendingu um þetta. Þar segir að í dag geti ABB boðið sæstrengi sem séu allt að 1.500 km langir og hafi flutningsgetu sem nemur 2.600 MW.
Með hliðsjón af þessu og þeim sæstrengjum sem búið er að ákveða að leggja milli Noregs annars vegar og Bretlands og Þýskalands hins vegar, virðist augljóst að tæknilega er raunhæft að leggja sæstreng milli Íslands og Evrópu. Miðað við 1.500 km hámarkslengd gæti slíkur strengur hvort sem er legið til Bretlands eða Noregs.
Mögulega er stutt í að tæknilega verði unnt að leggja ennþá lengri strengi af þessu tagi, án þess að raforkutap aukist. Þess vegna eru t.d. líkur að aukast á því að í framtíðinni muni raforkustrengur eða -strengir verða lagðir frá Grænlandi og þá mögulega bæði vestur til Kanada og austur til Íslands. Þetta er þó ennþá eflaust nokkuð fjarlægt og fyrst munum við sjá fleiri nýjar sæstrengstengingar milli Evrópulanda og víðar um heim. Og það verður að teljast líklegt að svona kapall verði fyrr en seinna lagður milli Íslands og Evrópu.
Aðaldrifkrafturinn er að auka raforkuöryggi
Ýmsar ástæður eru fyrir því að ríki eins og Þýskaland, Noregur, Holland, Bretland og Belgía eru áhugasöm um að tengjast með sæstrengjum og þannig tengja raforkuflutningskerfi sín og raforkumarkaði. Í umræðunni er oft fyrst minnst á að tilgangurinn sé að auka aðgengi að endurnýjanlegri orku, þ.e. raforku sem unnin er með nýtingu endurnýjanlegra auðlinda. Staðreyndin er þó sú að meginástæðan fyrir tengingum af þessu tagi er að efla raforkuöryggi og bæta nýtingu og þannig auka hagkvæmni í raforkuframleiðslunni.
Í Bretlandi, eins og í flestum öðrum löndum, er raforkunotkun á næturnar mun minni en yfir daginn. Að auki myndast miklir álagstoppar á ákveðnum tímum sólarhringsins, þegar notkun almennings á raforku er í hámarki. Kjarnorkuver Breta eru hagkvæm til að mæta grunnþörfinni, þ.e. að gegna því hlutverki að framleiða þá raforku sem venjulega er alltaf eftirspurn eftir. Til að mæta álagstoppum og aukinni raforkunotkun yfir daginn þarf að fjarfesta mikið í rafstöðvum sem geta keyrt upp afl sitt með stuttum fyrirvara. Þar eru gasorkuver í mikilvægu hlutverki. Ennþá hagkvæmara er þó að hafa aðgang að miklu vatnsafli. En vatnsafl í Bretland er af skornum skammti og þess vegna eru Noregur og Ísland áhugaverðir kostir að tengjast. Svo unnt sé að kaupa raforku þaðan þegar álagið eða eftirspurnin er umfram grunnálag.
Sæstrengir skapa ábatasöm tækifæri og auka hagkvæmni
Þegar álagið er mikið hefur raforkuverð á frjálsum markaði tilhneigingu til að hækka. Þess vegna sjá Norðmenn það sem áhugaverðan kost að tengjast löndum eins og Bretlandi og Þýskalandi og nýta stýranleika vatnsaflsins til að fá hærra meðalverð fyrir raforkuna sem þeir framleiða. Fyrir Þjóðverja og Breta er þetta einnig áhugaverður og hagkvæmur kostur, því þetta merkir minni þörf fyrir fjárfestingar í orkuverum sem myndu standa ónotuð drjúgan hluta sólarhringsins.
Að auki gefa nýju sæstrengirnir Bretum og Þjóðverjum kost á að selja raforku frá vindorkuverum til Noregs og þá einkum og sér í lagi á næturnar. Á þeim tíma sólarhringsins er raforkueftirspurn almennt lítil (þ.e. minni en yfir daginn), en ef vindurinn blæs er engu að síður einfalt og ódýrt að láta vindgarða og aðrar vindrafstöðvar framleiða raforku.
Lönd eins og Noregur og Ísland geta þá séð ábata í því að spara vatnið í miðlunarlónum og kaupa þess í stað raforku (frá vindorkusvæðum í Bretlandi) á lágu næturverði. En keyra svo vatnsaflsvirkjanirnar á fullum afköstum yfir daginn þegar raforkuverðið er almennt hærra.
Sæstrengur myndi auka nýtingu og hagkvæmni
Það er líka mikilvægt að hafa í huga að raforkukerfi eins og hið lokaða íslenska kerfi felur í sér innbyggða óhagkvæmni. Hér fær stóriðjan um 80% af allri raforkunni og stóriðjan er þess eðlis að hún veður að fá raforkuna afhenta því annars getur orðið verulegt tjón í t.d. álverunum. Þess vegna þurfa orkufyrirtækin hér að hafa aðgang að varaafli ef bilun kemur upp í einhverri af stóru virkjununum.
Þetta er leyst með því að hér er virkjað mun meira en raforkueftirspurnin gefur til kynna. Lokaða kerfið hér veldur því líka að þegar miðlunarlón eru full er vatn látið streyma um yfirfall. Ef sæstrengur væri fyrir hendi væri vafalítið hagkvæmt að bæta við túrbínum (hverflum) sem gætu nýtt yfirfallsvatn og framleitt raforku inn á t.d. breskan markað þar sem raforkuverðið er alla jafna miklu hærra en hér á landi. Í dag skilar slíkt vatnsafl aftur á móti nákvæmlega engum tekjum.
Ef Ísland hefði aðgang að öðrum raforkumarkaði væri opnað á þann möguleika að nýta hinn einstaka sveigjanleika vatnsaflsvirkjana til að bæta nýtingu og arðsemi íslenska raforkukerfisins. Varafl yrði ennþá til staðar en það myndi nú geta verið í notkun miklu oftar og þaðan verið seld raforka inn á t.d. breska markaðinn. Og ef hér kæmi upp alvarleg bilun mætti sækja raforku um sæstrenginn. Það er m.ö.o. skynsamlegt og hagkvæmt fyrir Ísland að losna undan því að vera aflokað raforkukerfi.
Umhverfisþátturinn skiptir líka máli
Hér hefur verið fjallað um það hvernig sæstrengir eru fyrst og fremst hugsaðir til að efla raforkuöryggi og auka hagkvæmni. En umhverfisþátturinn skiptir líka máli. Með því að sæstrengir opna á betri nýtingu t.d. vindorku og auka hagkvæmni vatnsaflsvirkjana stuðla þeir að aukinni nýtingu endurnýjanlegrar orku til raforkuframleiðslu. Þess vegna er græna sjónarhornið, svo sem að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda vegna gas- og kolaorkuvera, líka þýðingarmikill þáttur í því að sæstrengir og aðrar raforkutengingar milli landa þykja áhugaverður kostur.
Að auki skiptir máli að Bretar hafa sett sér stefnu um að auka mjög verulega hlutfall endurnýjanlegrar orku í orkunotkun landsins og hafa ákveðið að verja miklum fjármunum í þessu skyni. Það er staðreynd að kostnaður við t.d. byggingu vindgarða og lífmassaorkuvera er mikill og því er eðlilega erfitt að fjármagna slíkar framkvæmdir. Til að liðka fyrir auknu hlutfalli endurnýjanlegrar orku hefur breska þingið og bresk stjórnvöld nú samþykkt sérstaka stefnu sem felst í því að nýjum raforkuverkefnum sem eru til þess fallin að takmarka losun koltvíildis er tryggt tiltekið lágmarksverð fyrir raforkuna (samningar þar um nefnast Contracts for Difference; skammstafað CfD). Það orkuverð getur í vissum tilvikum orðið mjög hátt eða allt að sem nemur rúmum 200 USD/MWst. Í þessu sambandi er stundum talað um grænt raforkuverð. Til samanburðar má hafa í huga að hér á landi er mestöll raforkan nú seld til örfárra stóriðjufyrirtækja á verði sem er í námunda við 25 USD/MWst eða þar um bil.
Sæstrengur milli Bretlands og Ísland gæti notið græns orkuverðs
Umædd stefna Breta skapar mikil tækifæri fyrir t.d. bæði jarðvarma- og vatnsaflsstöðvar. Vegna náttúrulegra aðstæðna í Bretlandi er það þó fyrst og fremst vindorkan sem nýtur góðs af þessari bresku orkustefnu.
Enn sem komið er hefur umræddri stefnu einungis verið beitt gagnvart nýjum raforkuverkefnum innanlands í Bretlandi. En sökum þess að sæstrengir geta með nákvæmlega sama móti takmarkað losun gróðurhúsalofttegunda eru sterk rök til þess að íslensk raforka sem seld er um sæstreng til Bretlands muni geta verið verðlögð með svipuðum hætti og gerist með CfD. Þetta myndi þó að sjálfsögðu ráðast af samningum við Breta.
Mikilvægt er að grænt raforkuverð myndi bæði geta skilað Íslendingum og Bretum miklum ábata. Og líklegt má telja að slíkt grænt verð sé í reynd forsenda þess að Íslendingar hefðu áhuga á sæstreng milli Íslands og Bretlands.
Beinar viðræður eru nauðsynlegar
Eina leiðin til að komast til botns í þessu álitamáli er að taka upp viðræður við bresk stjórnvöld um sæstreng og sjá hvað þar gæti verið í boði. Meðan iðnaðar- og viðskiptaráðherrann okkar hafnar slíkum viðræðum er þetta í lausu lofti. Og þar með engar raunverlegar forsendur fyrir hendi til að átta sig á arðsemi og hagkvæmni eða óhagkvæmni sæstrengs fyrir Ísland og Íslendinga. Þess vegna er það fremur óskynsamleg aðferðarfræði af hálfu Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, að bíða með viðræður við bresk stjórnvöld.
Höfundur er lögfræðingur MBA, heldur úti Orkublogginu.