Ný skoðanakönnun Gallup um fylgi flokka, sem framkvæmd var frá lokum ágúst og fram í septembermánuð, fékk líkast til nokkra stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins til að anda léttar. Hún sýndi að flokkurinn bætti við sig þremur prósentustigum þótt að fylgið mælist enn með því lægsta sem flokkurinn hefur nokkru sinni mælst með, 24,4 prósent.
Framsóknarflokkurinn heldur áfram að sveiflast milli níu og tólf prósentustiga fylgis og mælist nú með 10,1 prósent. Ugglaust eru bardagahanar flokksins þegar farnir að undirbúa næsta stóra loforð sem á að tvöfalda fylgi flokksins á lokametrunum í aðdraganda kosninganna 2017, enda sérfræðingar í slíkum fræðum.
Samanlagt mælast stjórnarflokkarnir því með 34,4 prósent fylgi en voru með 32,7 prósent samkvæmt könnun sem Gallup birti í byrjun september. Það hlýtur að vekja smávægilega ónotatilfinningu hjá ríkisstjórnarflokkunum að þeir njóti slíkra óvinsælda á þessum tímapunkti, sérstaklega þegar horft er til þess að síðasta ríkisstjórn, hreina vinstristjórn Samfylkingar og Vinstri grænna, mældist með um 36,4 prósent fylgi á svipuðum tímapunkti í sinni valdatíð. Sú ríkisstjórn beið síðan afhroð í síðustu alþingiskosningum.
Stór breyta í þessari þróun er auðvitað gríðarleg sókn Pírata. Flokkurinn sem pólitískir andstæðingar keppast við um að segja að standi ekki fyrir neitt hefur nú mælst með yfir 30 prósent fylgi í meira en hálft ár. Það hefur enginn flokkur sem ekki hefur setið í ríkisstjórn nokkru sinni gert áður. Fylgi Pírata mælist nú umtalsvert meira en samanlagt fylgi annarra stjórnarandstöðuflokka (Píratar með 34,6 prósent en hinir þrír með 26,3 prósent). Það virðist því vera að samþykkt aðalfundar Pírata í lok ágúst um stutt kjörtímabil þar sem tvö mál verði meginmál; stjórnarskrármálið og þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald umsóknarferilsins við Evrópusambandið, hafi ekki haft nein teljandi áhrif á fylgi flokksins. Bæði eru þetta mál sem sitjandi stjórnarflokkar hafa barist hart gegn.
Það sem hefur líka vakið athygli í bakherberginu er að Píratar eru nú, í þriðja sinn á fimm mánuðum, að mælast með meira fylgi en stjórnarflokkarnir tveir mælast samanlagt með. Þar af hefur fylgi þeirra verið meira en samanlagt fylgi Sjálfstæðisflokks og Framsóknar undanfarna tvo mánuði, þótt munurinn sé vissulega innan vikmarka.
Það er því óhætt að segja að áhugaverðir tímar séu framundan í íslenskri pólitík.