Sameiginleg yfirlýsing æðsta talsmanns utanríkismála og öryggisstefnu Evrópusambandsins, Federicu Mogherini, og aðalritara Evrópuráðsins, Thorbjørns Jagland, vegna Evrópudags og alþjóðlegs dags gegn dauðarefsingum, 10. október 2015
Þann 10. október, á alþjóðlegum degi gegn dauðarefsingum, bæði í Evrópu og á heimsvísu, ítreka Evrópuráðið og Evrópusambandið eindregna andstöðu sína gegn dauðarefsingum. Dauðarefsing er ómanneskjuleg og niðurlægjandi aðgerð, sem ekki hefur verið sýnt fram á að feli í sér fælingarmátt, en getur gert mistök dómstóla óafturkræf og mannskæð.
Engin aftaka hefur átt sér stað í aðildarríkjum okkar í átján ár. Evrópuráðið og Evrópusambandið hvetja öll Evrópuríki til að fullgilda þær bókanir við Mannréttindasáttmála Evrópu sem miða að afnámi dauðarefsinga.
Evrópuráðið og Evrópusambandið harma að enn sé dauðarefsingum beitt í Hvíta-Rússlandi. Þau hvetja stjórnvöld Hvíta-Rússlands eindregið til að milda eftirstandandi dauðadóma og stöðva tafarlaust framkvæmd dauðarefsinga, sem fyrsta skref til afnáms þeirra.
Evrópuráðið og Evrópusambandið gera athugasemd við og lýsa yfir áhyggjum af því að aftökum fólks fyrir fíkniefnabrot hefur fjölgað á síðustu árum í þeim ríkjum sem heimila dauðarefsingu gegn slíkum brotum. Báðum stofnunum er sérstaklega brugðið yfir aftökum ólögráða ungmenna í þessu samhengi, sem ganga í berhögg við alþjóðalög. Þetta er okkur ennfremur hjartans mál þar eð Evrópuborgarar hafa verið teknir af lífi á árinu 2015, og fleiri bíða enn aftöku, vegna fíkniefnabrota.
Evrópuráðið og Evrópusambandið fagna ályktun Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna um að stöðvun dauðrefsinga, sem samþykkt var 18. desember 2014. Í krafti aukins fjölda atkvæða til stuðnings þeirri ályktun, samanborið við fjórar fyrri ályktanir af sama toga, og í krafti þess að tveir þriðju hlutar ríkja heims hafa afnumið dauðarefsingar samkvæmt lögum eða í framkvæmd, er nú til staðar skýr hnattræn tilhneiging til afnáms dauðarefsinga.