Dögun, samtök um réttlæti, sanngirni og lýðræði, hefur haft á stefnuskrá sinni að breyta áherslum í bankakerfi landsmanna. Segja má að staðan sé þannig að það sé í raun einn banki sem ræður um 90% bankamarkaðarins, LARÍS! Því þegar grannt er skoðað eru ekki mikill munur á Landsbankanum, Arion og Íslandsbanka. Í orði ríkir samkeppni á milli þeirra, en þeir eru meira eða minna allir að bjóða það sama; sömu lánin á sömu okurvöxtunum!
Þær hugmyndir sem Dögun var fyrst til að setja inn í stefnuskrá og Framsóknarflokkurinn hefur nú gert að sínu máli snýr að því að gera Landsbanka Íslands, þar sem íslenska ríkið á 98 prósent, að svokölluðum ,,samfélagsbanka.“ Kjarninn í þeirri hugmynd er að samfélagsbanki sé nær fólkinu og stundi fyrst og fremst starfsemi sem miðar að því að þjóna einstaklingum og fyrirtækjum og þeirra daglegu þörfum. Samfélagsbanki er ekki fjárfestingabanki í leiðinni og stundar því ekki fjárglæfrastarfsemi, sem síðar getur komið niður á viðskiptavinum. Hagnaðurinn sem yrði af starfseminni myndi svo renna til bankans aftur (t.d. til að lækka vexti viðskiptavina) eða beinna samfélagslegra verkefna.
Hvaða hugmynd er úrelt?
Þessari hugmynd hefur Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, lýst sem úreltri, en sennilega misskilur hann hugtakið, því af orðum hans má ráða að hann sjái fyrir sér banka sem miðar að því að reka sjálfan sig með tapi. Það er ekki rétt. Öll fyrirtæki þurfa að reka sig plúsmegin við núllið, líka samfélagsbankar, annar fara þessi fyrirtæki á hausinn. Spurningin er hinsvegar: Hvað á að gera við hagnaðinn? Á hann að renna beint í vasa einhverra einstaklinga eða til samfélagsins alls?
Fjármálráðherra hefur þegar ákveðið að fela Bankasýslu ríkisins það verkefni að undirbúa sölu á hluta af því sem ríkið á í Landsbankanum. Um er að ræða um 30% eignarhlut sem stefnt er að því að selja. Framsóknarflokkurinn er á móti þessari hugmynd og vill að bankinn verði samfélagsbanki og tekur þar með undir sjónarmið Dögunar í þessu máli.
Ný stefna
Fjármálaráðherra hefur nú einstakt tækifæri til innleiðingu á nýrri stefnu í bankamálum, sem setur almannahagsmuni og þarfir samfélagsins í forgang. Það er: Samfélagsvæðing! Hann er formaður flokks sem einu sinni hafði slagorðið ,,stétt með stétt.“ Hann getur stuðlað að því að stofnsetja banka í anda þessa slagorðs. Það sem er raunverulega úrelt er hin klassíska einkavæðing, þar sem einhverjir örfáir gleypa góðu bitana og stinga fúlgum í eigin vasa. Íslendingar hafa slæma reynslu af því sem heitir einkavæðing og orðið sjálft vekur upp vondar minningar. Í könnun sem MMR gerði í vor kom einnig fram að meirihluti landsmanna er á móti einkavæðingu Landsbankans, sem og annarra lykilstofnana ríkisins. Þarf ekki að taka tillit til þessa?
Höfundur er stjórnmálafræðingur og gjaldkeri Dögunar.