Óvænt formannsframboð Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur á landsfundi Samfylkingarinnar fer í sögubækurnar sem misheppnuð tilraun til hallarbyltingar. Ótrúleg atburðarás, sem hófst sólarhring fyrir kjör formanns, endaði með því að Árni Páll Árnason var endurkjörinn formaður með minnsta mögulega mun, 241 atkvæði gegn 240 atkvæðum Sigríðar Ingibjargar.
Nú er vitað að Samfylkingin er klofin, og staða formannsins er veik, svo ekki sé fastar að orðið kveðið. Árni Páll virtist í uppnámi skömmu eftir að formannsframboðið varð opinbert, og jafnvel í enn meira uppnámi eftir að niðurstaðan varð ljós.
Í bakherberginu er fólk sammála um að með þessari hörðu rimmu á landsfundinum hafi Samfylkingin gert stjórnarflokkunum mikinn greiða. Kannanir hafa sýnt að undanförnu að ríkisstjórnin er í vandræðum, og fylgið hefur farið frá henni. Fólk treystir henni illa. Stjórnarflokkarnir mælast með 35 prósent fylgi, Framsókn með 11,6 og Sjálfstæðisflokkur 23,4, í könnun Fréttablaðsins í dag. Stjórnarandstöðuflokkarnir mælast samanlagt með 63,4 prósent fylgi, þar sem Píratar bera uppi andstöðufylgið. Þeir mælast með 29,1 prósent, Samfylkingin 16,3 prósent, Björt framtíð 9 prósent og Vinstri græn 9 prósent. Í augnablikinu er tæplega 30 prósentustiga munur stjórnarandstöðunni vil, þegar tvö ár eru til kosninga. Það verður að teljast með nokkrum ólíkindum.
Margt getur gerst á tveimur árum í stjórnmálum og kúvendingar alls ekki óhugsandi. En þetta ætti samt að gefa stjórnarandstöðunni byr í segl og einstakt pólitískt tækifæri. Spurningin er, hvort stjórnandstöðunni takist að nýta sér það.
Óhætt er að segja að Samfylkingin standi nú á tímamótum, segir fólkið í bakherberginu. Innflokksátök eru augljós, og leiðtoginn, formaður flokksins, er með veika stöðu gagnvart baklandinu eftir landsfundinn. Flokksmenn, ekki síst í Reykjavík, bera mikla ábyrgð á þessari stöðu. Spennandi verður að fylgjast með því á næstunni hvort það takist að byggja upp trúnað milli Árna Páls og Samfylkingarfélaga í Reykjavík.
Hugsanlega er Samfylkingin, óaðvitandi, að gefa stjórnarflokkunum tromp á hendi með því að sýna augljósa veikleika í flokksstarfinu, á sama tíma og stjórnarflokkarnir fara í gegnum ólgusjó. Því stjórnarflokkarnir þurfa ekki að hræðast Samfylkinguna eins og hún er núna. Píratar mælast háir í augnablikinu, en þar sem þeir eru ekki með viðamikið flokksstarf þá gæti fjarað undan þeim þegar nær dregur kosningum, þó erfitt sé að segja til um það. Slíkt gæti skapað tækifæri fyrir flesta aðra flokka, sem njóta góðs af uppbyggðu flokksstarfi. En í augnablikinu er Samfylkingin ekki einn þeirra.